Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

02 ágúst 2003

Tölvuvænir
Fólk er misjafnlega tölvuvænt ég geri mér grein fyrir því! En ég held að Hrannsan fái bjartsýnisverðlaunin að þessu sinni fyrir að senda mér þessa flottu kveðju í....... gestabókina hennar Birnu ;))))
Hehe ég er ekki alveg viss um að Birna hafi skilið kveðjuna en ég skildi hana og ætla hér með að svara henni.
Við haukurinn ætlum ekki að fara að elskast í tjaldi þessa verslunarmannahelgi (við erum enn í banni vegna sprautunnar eða þannig) (as iff). Við ætlum ekki einu sinni að fara með Marín í fjallaferð, nei við ætlum að vera heima og njóta þess (enda annað okkar orðið atvinnulaust og hitt með bilaða bíldruslu sem enn er í henglum).

Þessi kveðja rifjaði hins vegar upp fyrstu verslunarmannahelgarútileguna fyrir einni mannsöld eða svo!

Þjórsárdalur 17hundruð og súrkál
Það var sem sagt verslunarmannahelgi fyrir langt um löngu sumarið eftir 9 bekk (heitir 10 bekkur í dag) hjá Hrönnsu en ég var búin með eina önn í FB. Flottur aldur og við vorum vissar um tvennt; við vildum fara í útilegu og við vorum eilífar (það kemur þessari sögu að vísu ekkert við). Við vorum að vinna í Ísbirninum (það er sem sagt voða langt síðan því Ísbjörninn er löngu dáinn) ásamt Marín (bakgrunnur sögunnar kominn).

Marín ætlaði í Þjórsárdal ásamt einhverjum krökkum sem við þekktum ekki og við vorum bara tvær að rolast, ég og Hrannsan. Við ákváðum því að við færum líka í Þjórsárdal því það virtist sem "allir" ætluðu að vera þar. Nú verður að viðurkennast að hvorug okkar vinkvennana hefur nokkurn tíma verið nokkuð náttúrubarn og borgin alltaf verið svona okkar staður en í þessa útilegu ætluðum við hvað sem hver sagði (hver vill mæta í vinnuna á mánudagsmorgninum og viðurkenna að hann hefi ekki farið neitt?) (á þessum tíma var sumarkrökkunum í fiskinum ekki gefið frí á mánudeginum)! Eina vandamálið á þessari ferð okkar var að við áttum ekkert tjald. Við höfðum áður fengið tjald foreldra minna lánað en nú voru þau að fara í útilegu með yngri systkinin mín þannig að þau ætluðu að nota tjaldið. Þetta varð nú ekki til að stoppa okkur, í versta falli finndum við bara Marín og fengjum að sofa hjá henni. Foreldrum mínum sögðum við að að við fengjum tjald foreldra hennar og öfugt. Síðan var það umferðamiðstöðin og rúta í Þjórsárdal!

Þegar við komum á staðinn var öllum sturtað úr rútinni og við stóðum þarna með svefnpokana okkar og nestið og þurftum að finna annaðhvort Marín eða einhvern annan sem við þekktum til að fá að vera hjá í tjaldi. Það skal tekið fram að við gerðum okkur enga grein fyrir því hvernig svæðið var eða hversu stórt það væri, ég held helst að við höfum haldið að um einhvers konar tún væri að ræða og þar væru allir en auðvitað var það ekki þannig. Þarna var múgur og margmenni og tjaldað allstaðar þar sem hægt var að koma fyrir tjaldi (þetta var fyrir tíma litlu kúlutjaldanna þannig að það þurfti soldið pláss fyrir hvert tjald).

Við röltum um svæðið skamma stund en sáum engan sem við þekktum, klukkan var að mig minnir komin yfir miðnætti og við vissum ekki alveg hvað við áttum að gera. Á endanum ákváðum við að við svæfum bara úti í svefnpokunum okkar og finndum Marín bara á laugardeginum. Við töltum eftir einhverjum smástíg þangað við fundum þetta fína rjóður og þar breiddum við úr pokunum okkar og skriðum í þá. Allstaðar í kringum okkur voru hróp og köll misdrukkinna ungmenna og hávær söngur. Okkur fannst við pínu yfirgefnar þarna sem við lágum tjaldlausar í svefnpokunum okkar en það stóð ekki lengi. Það leið ekki á löngu áður en hávær rödd sagði "Stelpur má ég benda ykkur á eitt? Þið hafið sko, nebbnilega gleymt að tjalda" Haha þetta var voða fyndið og eftir smá umræður hélt eigandi raddarinnar áfram en fljótlega heyrðist önnur rödd "Hey hey, þessar eru í nýja tjaldi keisarans hehe". Og svona gekk það alla nóttina, með reglulegu millibili alla nóttina komu menn og ræddu um augljóst tjaldleysi okkar vinkvenna og við vorum löngu búnar að gefa alla hugmynd um svefn upp á bátinn. Þetta reyndist hin ágætasta skemmtun en við skildum ekki fyrr en daginn eftir þegar birti aðeins meira afhverju svo margir höfðu verið að tjá sig við okkur, við höfðum nefnilega lagst niður á einum fjölfarnasta stígnum með pokana okkar. Þessi stígur tengdi saman tvö svæði og þarna var stanslaus umferð. Þegar ég hugsa til baka undrast ég samt eitt og það er að þrátt fyrir mikla umferð alla nóttina gekk enginn framhjá sem við þekktum og þeir sem gengu framhjá voru nær undantekningarlaust karlmenn. Eins gott að við föttuðum ekki að eflaust voru allir þessir að leita sér að stað til að pissa eða voru að koma frá því að ljúka því verki. Við vorum nefnilega soldið hrollgjarnar á þessum árum og þetta hefði okkur þótt í meira lagi ógeðslegt með tilheyrandi píkuskrækjum sem fylgir þessum aldri!

Þetta varð mjög skemmtilegt nótt en við vorum algerlega ósofnar og við viðurkenndum hvor fyrir annari að það hefði verið "soldið" kalt á tímabili (höfum aldrei viðurkennt það fyrir neinum öðrum). Við ákváðum því að við útilegufíklarnir tækjum rútu heim á hádegi á laugardeginum og við gátum þá allavega sagt í vinnunni á mánudeginum að við hefðum verið í Þjórsárdal. Það verður þó að fylglja sögunni að Marín leitaði okkar alla helgina (hún segist hafa leitað og leitað en ég er efins um að hún hafi nú munað eftir okkur nema af og til).

Við Hrannsan höfum ekki farið saman í útilegu eftir þetta og ég hef aldrei farið nema að hafa tjald og svefnpoka sem þolir 200° frost, til þess að vera við öllu búin! Mörgum árum seinna fór ég að vísu á eina útihátíð og það er önnur saga og varð til þess að ég hef ákveðinn hroll varðandi útihátíðir og get ekki hugsað mér að koma í meira en 200 km radíus frá einni slíkri! Mér skilst hinsvegar á gestabókinni hennar Birnu að Egill hafi ætlað að með Hrönnsuna í útilegu, við haukurinn erum heima!!!!!!

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger