Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

06 maí 2005

And**** er ég heppin að eiga svona blogg til að getað losað mig við tuðmaníuna. Ég held ég sé í andarslitrunum núna. Það er tvennt og aðeins tvennt sem kemur í veg fyrir að ég er ekki búin að fresta útskrift; annars vegar er það MAB sem er að fara að útskrifast og hinsvegar er það 40 þúsund kallinn sem ég verð að borga ef ég hætti við. Ef þessar tvær ástæður mundu ekki vega svona þungt þá væri ég hætt við og búin að leigja mér sumarbústað eða eitthvað annað mjög spennandi.

Einu sinni fyrir mörgum mörgum árum þá skrifaði ég ritgerðir fyrir frændur og búalið sem vantaði hjálp. Einn slíkur frændi skilaði sinni MA ritgerð til yfirlesturs fyrir tveimur vikum. Hann skrifaði hana sjálfur. Ég ætti kannski að fara að innheimta ritgerðarskuldirnar og fá hann til að skrifa mína? Það væri bara alls ekki svo vitlaust!

Nú bíð ég bara eftir því að frúin í Hamborg hringi og láti mig vita að hún sé búin að lesa. Ég bað MAB að lesa eina umferð yfir fyrir mig í gær og það gerði hún með glöðu geði þó hún hafi meira en nóg með sig. Hún kom með nokkrar athugasemdir við skrif mín og það skemmtilega (eða leiðinlega) er að athugasemdir hennar eru við atriði sem ég hef verið að breyta samkvæmt frúnni í Hamborg. ATH.semdir MAB voru að breyta í það sem ég var með áður haha ég er að verða lítillega taugaveikluð en mér létti samt að sjá að MAB er greinilega jafn vonlaus!!!!! í íslensku og ég sjálf en samkvæmt frúnni í Hamborg þá er það minn veiki hlekkur! Ég ætla ekki að segja frú Ingjbjörgu af þessu því hún mundi örugglega fara og skjóta hana því hún hefur óbilandi trú á íslenskukunnáttu frumburðar síns.

05 maí 2005

Mikið agalega er ég orðin leið á þessari ritgerð. Og ekki batnaði það í gær þegar ég mætti á fund með leiðbeinandanum og hún var bara búin að lesa tæpa tvo kafla. Arg hvað ég varð fúl. Hún afsakaði sig með því að ég væri svo kurteis og róleg að ég lenti alltaf aftast í röðinni. Halló er það sama sagan hér og allstaðar að ef maður er ekki með frekju og yfirgang þá er maður ekki með í leiknum. Djöfull getur það stundum pirrað mig!!! Ef ég gengi um með boxhanskana og stuðaði allt og alla sem ég mætti þá væri ég örugglega orðin forstjóri risa fyrirtækis í Ameríku í dag eða hvað.. stundum er ekki gaman að vera svona andskoti kurteis.. Núna sit ég sem sagt og er að reyna að eiga við það sem ég var að vonast til að fá komment á en fékk ekki þar sem kennarinn stóð sig ekki í stykkinu!

8 dagar eftir + nokkrir sem koma óhjákvæmlega af þessum seinkunum. Ég skila sem sagt ekki á föstudaginn eftir viku því hlutlaus kennari verður líka að lesa þetta og hann fær það ekki fyrr en á mánudag þar sem yfirlestri var ekki lokið. Er furða þó maður pirrist?

04 maí 2005

Er ekki komið sumar? Eða eru veðurguðirnir kannski bara með tillitssemi við mig og láta sumarið ekki byrja fyrr en eftir viku, ha? ha?

Annars er þetta nú bara farið að verða skemmtilegt aftur því ég er farin að sjá fyrir endann á þessu ritgerðarbulli. Er líka búin að sitja við eins og moðerfökker og varla staðið upp eftir næringu, má líka vel við því að sleppa því haha. Eina sem hefur orðið undan að láta er átaksverkefnið meinvill grönn fyrir sumarið.. en ég starta því bara aftur eftir skilin!

Í dag ætla ég að hitta kennarakvölina í næst síðasta skiptið. Hún veit ekki að þetta er okkar næstsíðasta skipti, hún heldur að ég ætli að koma oft í viðbót..haha verður hún hissa (þreytuglott)

9 dagar eftir

03 maí 2005

Það búa tvö lítil börn í stigaganginum hjá mér. Með lítil börn á ég við börn sem eru 4 ára og undir. Annað er bara rétt farið að standa sjálft. Þessi ágætu börn er ekkert ólík öðrum börnum nema þau virðast vera sérlega geðvond bæði tvö. Og þau vakna mjööööög snemma. Í morgun staulaðist ég fram rétt fyrir sjö og þá heyri ég ergelsisveinið í minni barnunganum (ég er að vísu sammála krakkasmáninni það er of snemmt að fara á fætur fyrir sjö og ég gæti líka hugsað mér að grenja soldið). Ég kom fram með stírurnar í augunum og sagði við minn ektamann "andskotans grenj er þetta alltaf í krakkaræflinum". Hann svaraði að bragði "segðu krakka********** að halda sér saman". Ég horfði á hann og snéri mér að bragði og brunaði fram á gang. Þar náði ég mér í kjól og buxur og þegar ég kom inn starði ektamaðurinn á mig spurði hægt "hvað varstu að gera?". Ég svaraði að eldsnöggt "nú varstu ekki að segja mér að fara að segja krakkaræflinum að þegja"

10 dagar eftir!

02 maí 2005

Undanfarið hafa reglulega farið símtöl á milli mín og MAB um ánægju okkar af verkefninu okkar. Sem sagt um gleði okkar og hamingju yfir því að fá að skrifa ritgerðir. Nú má alls ekki misskilja það sem að einhver hafi þvingað okkur í þessi skrif. Nei, hér er um enn eitt dæmið að ræða þar sem við hlaupum af stað og gleymum svo sannarlega að hafa með okkur fæturna. Því sitjum við núna og börmum okkur yfir því að vera ekki rannsóknarlega þenkjandi og ekki rannsóknarlega skrifandi. Þetta er sem sagt grátur og óhemjugangur og enginn til að kenna um nema okkur sjálfum og það er það VERSTA. Þetta er komið á það stig að um helgina svissuðum við um ritgerðir og ég tók hennar og hún mína. Svei mér þá þetta varð bara gaman eitt andartak og eg sökkti mér ofan í ritgerðina hennar af mikilli nautn. En sælan stóð ekki lengi (5 tíma) og á endanum urðum við að skipta aftur og gerði ég það með eftirsjá. Það eru sem sagt tvær vikur eftir og þá verður kálfunum hleypt út (ég segi ekki beljunum og þið skuluð ekki voga ykkur að hugsa það). Meira er það ekki í dag!


Powered by Blogger