Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

04 febrúar 2005

Ég brunaði inn í Össur í hádeginu til að kaupa á mig sérhannaða aumingjaskó til að vera tilbúin í ræktina. Það gekk nú ekki betur en svo að konan prangaði inn á mig göngugreiningu þannig að ég keypti enga skó heldur mun fyrst fara í greiningu og svo í skókaupaleiðangur. Alltaf jafn leiðitöm!

Hér gengu um stúlkur í gráum treyjum merktum risafyrirtækinu CocaCole og gáfu Coke Light. Mér finnst það nú frekar vont en hei, ég afþakka aldrei það sem mér er gefið heldur drekk það með bestu lyst!

Ég er að hugsa um að fara og heimsækja Össur hf á eftir og athuga hvort hann eigi æfingaskó fyrir bakveika aumingja eins og mig þannig að ég geti tekið þátt í áskoruninni með teinrétt bak.

Dr.Börn.is vill tala meira við mig. Ekki neitt varðandi börn því þar finnst honum ég vera vonlaus. Nei, honum finnst gaman að krukka í mig og þar sem það tókst svo vel síðast og vill hann endilega gera meira. Núna ætlar hann að fara í gegnum naflann, sem sagt ekki skera gat á mig miðja. Oj ég er búin að vera í hrolli síðan ég fékk símtalið vegna þess að ef það er eitthvað líffæri á fögrum líkama mínum sem mér finnst ógeðslegt þá er það naflinn. Og tilhugsunin um að Dr.börn.is ætli að stinga einhverju þar í gegn er ógeðfelld í hæsta lagi. Og svo er það eitt. Hvað veit ég nema hann skilji eitthvað eftir þar, eins og t.d. mar hefur séð í bíómyndum. Litlir kallar í geimförum að þeysast um í innri lífærum og iðrum manns..ojojojoj svo komast þeir kannski ekki út og þá þarf ég að vera með þessa litlu geimkalla um eilífð alla.. þetta er ekki skemmtileg tilhugsun..en bót er í máli að ég þarf að bíða eftir bréfi og þar sem ég er farinn að þekkja minn mann vel þá reikna ég með að ég þurfi ekkert að fara fyrr en í sumar einhverntíma.. og svo fæ ég bréf mánuði eftir aðgerðina þar sem mér verður boðið að koma í aðgerð á einhverjum tilteknum degi. Það gerðist síðast og þau hættu ekki að senda bréf fyrr en ég hringdi og sagði þeim að ég væri BÚIN að fara og mætt aftur í vinnu eftir 6vikur heima.. það er nefnilega þetta með skilvirka spítalakerfið okkar...

03 febrúar 2005

Tónlistarverðlaunin og önnur verðlaun
Þegar ég verð tilnefnd til tónlistarverðlaunanna ásamt einhverjum fjórum öðrum og fæ svo verðlaunin þá ætla ég EKKI að þakka fyrir mig með eftirfarandi orðum:
"Takk fyrir, ég BJÓST aldrei við því að fá verðlaunin"

Ef ég er tilnefnd ásamt einhverjum fjórum öðrum eru þá líkurnar ekki einn á móti fimm að ÉG fái þau??????? Mikið assgoti leiðist mér þessi uppgerðar hógmýkt í fólki. Sá sem er tilnefndur og MÆTIR í afhendinguna hann hlýtur að bera þá von í brjósti að hann vinni? Eða hvað? Ef ég er tilnefnd og mæti EKKI þá get ég alveg sagt "ég bjóst ekki við að vinna" Hinir eiga að reyna að koma með einhverja almennilega þakkarræðu sem hefst EKKI á þessum orðum!
Og hana nú!

Sem minnir mig á það að einu sinni vann ég verðlaun sem ég BJÓST ekki við að vinna. Vissi ekki einu sinni að ég væri með í keppninni. Sat því hin rólegasta á mínum bekk þó nafnið mitt væri kallað upp og síðan var það kallað upp aftur og MAB barði í bakið á mér til að reka mig á fætur og ég hrökklaðist fram til að taka á móti einhverri bók sem ég hef varla nokkurn tíma opnað nema til að furða mig á því að ég hafi fengið hana. Þarna hefði verið við hæfi að segja: "takk fyrir en ég bjóst nú ekki við þessu" en hinsvegar var þetta ekki sá staður og sú stund enda hef ég alltaf hálfskammast mín fyrir þessi verðlaun því þau komu mér svo á óvart. Kannski er það eins með þetta lið á verðlaunaafhendingunni í gær. Ég hef það mér þó til málsbótar að ég var ekki tilnefnd!

Fyrirtækið er búið að skora á mig í átak (og samstarfsmenn mína) sem hefst eftir nokkra daga. Nú vantar mig því bókina mína Líkaminn fyrir lífið.. getur verið að einhver ykkar sé með hana í láni? Ég nefnilega finn hana ekki í vel skipulögðu, stafrófsröðuðu hillunum mínum. Málið er að sá sem vinnur þetta átak fær 60 þúsund krónur. Ég sé það í hillingum!

Er að spjalla við Skjaldbökuna á msn, hún er mætt aftur til vinnu. Hún er hetja. En hún er að segja mér sögu af brjáluðum nágrönnum sínum sem héldu eitthvað sjóv úti á götu í nótt. Þetta sagði skajldbakan:
"systir þín var úti í glugga að fylgjast með, með sakamálabókina í hendinni og síkó í hinni"..
og ég spurði hvort Tótos hefði verið sofandi:
"nei Tóti var að fylgjast með líka, ég var ekki með linsur jú sí svo einhver varð að gjörasvo vel að segja mér hver væri í löggubúning og hver ekki"
Haha þau eru alveg brilljant. Sjáið hana ekki í anda með Arnald í annari hendinni og síkó í hinni og Totos að teygja sig yfir öxlina á henni til að útskýra hver væri með hnappa og hver ekki..hehe

02 febrúar 2005

Mér leiðist!

Týnda fjarstýringin
Þar sem ég hef verið afburða þreytt að undanförnu þá brá Skakki sér í hlutverk Tæjunnar í gær og ryksjúgaði alla íbúðina og þvottahúsið líka. Ægilega flott. Á meðan lá ég og las "Fólkið í kjallaranum" sem bæþevei er alveg brilljant bók og vel verðlaunanna virði. Ég vildi að ég gæti skrifað svona flott. En aftur að ryksjúginu. Hann djöflaðist um alla íbúðina og hávaðinn var gífurlegur. Það var einungis sökum eðlislægs lestraráhuga að ég gat slökkt algerlega á þessum hávaða og haldið áfram að lesa. Allt í einu varð hljóð í íbúðinni og ég leit upp úr bókinni til þess að athuga hvort ég þyrfti að fara eitthvað og reka á eftir manninum. Þá stendur hann yfir mér með fornfálega fjarstýringu í hendinni alveg gráa af ryki.
Skakki: Þú átt þetta!
Meinvill: Hvaða fjarstýring er þetta?
Skakki: Hugsaðu!
Meinvill hugsar...
Meinvill: Ekki er þetta..?
Skakki: Jú það held ég....
Meinvill: Wá, hvar var hún?
Skakki: Inni í Lata-dreng!

Ótrúlegt. Þetta var sem sagt fjarstýringin af sjónvarpinu mínu sem ég gaf Auði þegar ég flutti til Skakka. Auður henti sjónvarpinu fyrir ári (eða sko listmálarinn henti því þar sem það var svo lengi að hitna og hann vildi horfa á ALLAN fótboltaleikinn).. Auður fékk aldrei fjarstýringuna því hún var búin að vera týnd í nokkur ár. Nú gæti einhver hugsað "hva þrífur hún aldrei Lata-drenginn?" . En það er nefnilega málið! Það er ekki bara málið að annaðslagið bursta ég hann allan og allt það..heldur vill svo til að ég flutti hann sjálf til Skakk í Lödubílnum mínum. Til þess að stólgarmurinn kæmist fyrir í bílnum þurfti ég að rífa hann að einhverju leiti í hengla. Ég varð ekki vör við neina fjarstýringu á þeim tíma! En núna er hún fundin, hálfu ári eftir að lífi sjónvarpsins lauk!

01 febrúar 2005

Það er búið að klippa smá af strýinu sem flokkast undir hár. Fór heim með djúpnæringu í hausnum sem ég átti að vera með eins lengi og ég þoldi. Það voru fimm tímar þá var ég búin að fá nóg. Það er nefnilega eins og ég sé með þurrt hey á höfðinu, ægilega sætt sko!

Það streyma að mér beiðnir um meira starf þessa dagana: Viltu taka nema? Nei, nei nei..ég vil það ekki. Er búin að taka nema tvö ár í röð og ég vil fá frí þetta árið. Svo var ég beðin að vera varamaður í einhverri nefnd. Skil ekki hver er að stinga nafninu mínu allstaðar þessa dagana. Og til að kóróna allt saman þá var beiðni um að leysa markaðsdeildina af á framadögum. Gosh ég var að vona að við værum hætt þessu framadaga kjaftæði. Það er ægilega skemmtilegt í klukkutíma eða svo..en þegar mar er búinn að standa upp á endann í hálfan dag og bakið er farið gjörsamlega að æpa af kvölum þá er það hreint ekki skemmtilegt. Þessa dagana vil ég bara vinna vinnuna sem ég var ráðin til að vinna og ekki stafkrók meira. Núna í þessu augnabliki var ég að fá póst þar sem einhverjir nemendur vilja fá aðstoð við stórt verkefni í fræðslumálum. Hvað er eiginlega í gangi? Er búið að setja mig út sem TARGET? Eða hvað? Þetta er allt saman aukaálag og heilmikil vinna og ekkert borgað. Ég mundir eflaust segja JÁ við þessu öllu ef ég fengi greitt fyrir það aukalega.. meinvill nískupúki!

31 janúar 2005

Úps helgin er aftur búin! Mætti forstjóranum þegar ég var að koma í vinnuna og hann spurði hvernig helgin hefði verið og ég svaraði "fín en heldur stutt" og hann sagðist vera að alvarlega að pæla breyta í að helgunum í þriggja daga helgar í stað tveggja. Mér líkar vel við forstjóra minn og mun standa við hlið hans þegar hann leggur þessa tillögu fram!

Annars er það títt af mér að ég er enn ekki búin að fara í kjólaleit. Laugardagurinn var nefnilega kvalití tæm með Molanum þannig að ekki varð neitt úr kjólaleit. Er hins vegar búin að lesa Skytturnar þrjár nokkrum sinnum og horfa á Fuglastríðið tvisvar. Fín helgi það!

Sem betur fer fer ég í klippingu í dag því hárið er orðið að strýi. Það er eins og ég sé með hálm á höfðinu sem ekkert er hægt að eiga við.

30 janúar 2005

Sigrid á afmæli í dag Til hamingu með það hipp hipp húrræ
Noisemaker 3


Powered by Blogger