Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

06 nóvember 2004

Skakki er orðinn svo flinkur að stjórna vængjunum. Hann kom svífandi yfir hafið í gær í roki og rigningu. Hann trúir mér illa þegar ég reyni að segja honum að veðrið sé búið að vera svona síðan hann fór utan í september. Segið svo að mar hafi ekki áhrif á veðrið haha Hann færði mér meiri ull, að þessu sinni í formi tösku, alveg glæsileg. Ég er að verða algjört desæner frík

05 nóvember 2004

Nú stendur mikið til. Það er gustur á kellingu og hún er búin að þrífa alla íbúðina hátt og lágt og mætt í vinnuna og klukkan ekki orðin 9 að morgni. Ég sé það glögglega að ég er efni í stjórfjölskyldukonu: tíu börn og kall og foreldra og systkini. Ok verður ekki í þessu lífi enda ekki verið efst á óskalistanum. En Skakki flýgur heim í kvöld. Núna er hann um það bil að festa á sig vængina og virða fyrir sér töskuna með bræðslulyktinni. Síðast þegar hann kom var hundurinn á vellinum sérstaklega hrifinn af honum og við vorum viss um að það væri bræðslulyktin sem þar stjórnaði nefi hundsins.

04 nóvember 2004

Úff í morgun komst ég ekki inn í bílinn því hann var frosinn fastur, en af því hin nýja ég bregst vel við slíkum uppákomum þá var það ekkert mál. Ég kafaði bara inn í tilfinningabankann minn og fann þar góða tilfinningu fyrir slíkri uppákomu í frosti og myrkri og skrölti svo glöð upp á 3ju hæð og náði í frostlosarann minn. Sprautaði svo inn í lásinn og beið smástund. Síðan opnaði ég minn fjallabíl og keyrði syngjandi í vinnuna. Það svínaði einhver kall fyrir mig en ekki einu sinni það kom út á mér vonskunni, nei þessi tilfinningabanki er alveg að gera sig! Af hverju var enginn búinn að segja mér frá honum? Er þetta eitthvað alheimsleyndarmál sem ekki átti að hleypa mér inn í? En það er of seint því ég er búin að opna hann!

Og nú ætla ég að binda eitt stykki áætlun inn fyrir ástkæran yfirmanninn og fara svo glöð í bragði í tölfræðina mína. Tilfinningar mínar eru óræðar!

03 nóvember 2004

Verð að tjá mig um þetta:
DV 03. nóvember 09:01
Feitir fluttir til Íslands

Ég er sko ekki hissa á því. Við Íslendingar erum svoddar horræmur að auðvitað verðum að flytja feitt fólk inn frá útlöndum. Það eru engin offituvandamál hjá okkur!

Afskaplega er erfitt að lyfta steininum af setunni þegar mar er svona nývaknaður, en það venst! Í gærkvöldi horfði ég á regbogalitina á eldhúsborðinu mínu og óskaði þess að þeir rynnu saman í eitthvað listaverk sem ég þyrfti ekki að eiga meira við. Ullin var enn á borðinu þegar ég skrölti í morgunsárið fram í eldhús að tékka á brauðristinni.

Ég söng hástöfum með hárri og fagurri röddu allt gærkvöldið (á milli þess sem ég las athugasemdir við rannsóknina, talaði við Ásdísi dönsku á MSN og alla aðra í símann). Með þessu horfði ég á mæðgurnar í Gilmore sem er ákaflega væminn og lítt krefjandi þáttur sem ég er alveg dottin ofan í. Ég er sem sagt fjölhæf kona eða það finnst mér. Veit ekki hvort nokkuð af þessu var vel gert nema auðvitað söngurinn, hann er frábær. Edda Björgvins sagði að allir ættu að syngja og þar sem námskeiðið er ekki ókeypis þá er um að gera að nýta öll ráðin.

Annars er ég eitthvað mjög úldin þessa dagana. Ég bara næ ekki nægum svefni, sama hvað ég reyni. Geng um eins og svefngengill alla daga og sit hálfsofandi heima á kvöldin (og stari á ullina).

02 nóvember 2004

Feng Shui er mál málanna er mér sagt. Listmálarinn vill hinsvegar meina að þetta sé húmbúkk og bækurnar um þetta efni taki of mikið pláss. Í hjarta mínu er ég örlítið sammála honum en þegar ég heyrði hvað hægt væri að gera tilað stöðva að fjármunir lækju úr hýbýlum mínum gat ég auðvitað ekki staðist mátið. Ég veit að vísu ekki alveg hvaða fjármunir þetta gætu verið en halló ekki tek ég sénsinn. Þess vegna er ég búinn að hafa 5 kg stein OFAN á kósettsetunni í heila viku. Það er svolítið erfitt þegar manni verður mikið mál að hlaupa inn og þurfa að byrja á því að fjarlægja steininn en þetta hefur góð áhrif á upphandleggsvöðvana. Ástæðan fyrir þessu er sú að samkvæmt Feng Shui (ef ég hef skilið það rétt en ég kann auðvitað ekki kínversku) þá má ekki skilja klósettsetuna eftir uppi því þá streymir fjárflæði úr íbúðinni. Til þess að vera með allt öruggt setti ég steininn á setuna. Það hafa engir peningar stoppað! Það hafa heldur ekki komið neinir peningar inn! Hvað er að gerast? Getur verið að listmálarinn hafi rétt fyrir sér og þetta sé allt bara húmbukk?

Fór á námskeið í morgun og geng núna með tappa milli tannanna og æfi framburð á tungubrjótum. Frank Zappa á Svampfrakka og svo framvegis. Þetta er ægilega skemmtilegt námskeið og ég hef fulla trú á því að þegar því verði lokið þá geti ég ekki hamið mig á mannamótum vegna ákafrar tjáningarþarfar.

01 nóvember 2004

Helgin bara búin og gott betur en það. Ég er búin að vera svo þreytt í dag að það er eins og ég hafi verið í mörgum partýum um helgina og vakað báðar næturnar. Annars var ég með stærðar matarveislu um helgina í stóru íbúðinni í sveitinni. Það var matur og fólk um allt. Og uppvaskið eftir því. Ég þarf að eignast uppþvottavél, ég skil ekki fólk sem nennir að vaska svona alltaf upp. Ég nenni því ekki þó ég neyðist til þess.

Við systur fórum og keyptum okkur ull til að byrja að þæfa. Við þurftum fyrst að leita að búðinni og þvílík sveitastemming, hver vill búa í Mosfellsbæ? Spyr sá sem ekki veit. En við komum heim með sitt hvorn pokann; minn er í regnbogans litum en Skjaldbökunnar er svartur og grár. Skyldum við vera alsystur? nema hvað hún er auðvitað byrjað að þæfa og gengur vel. Ég er búin að dreifa úr minni ull um alla hreinu íbúðina og mikla þetta fyrir mér. Prufaði smábút og það gerðist ekki það sem átti að gera. Ég þarf greinlega aðeins meiri leiðbeiningar. Af hverju er ekki hægt að finna eitthvað skrifað um þetta á netinu? Og hey hvað gerði fólk áður en netið kom?
Computing


Powered by Blogger