Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

01 október 2004

Árshátíðir eru fyndið fyrirbæri. Ég er að fara á eina slíka á morgun. Það er ekki mikil stemming í fyrirtækinu, eflaust af því hve snemma hún er. Ég er t.d. ekkert voða spennt en fer samt, það er nefnilega eiginlega skyldumæting í minni deild enda förum við öll. Ég er tilbúin því ég tími ekki að kaupa mér ný föt þannig að ég ætla bara að nota gömul. En mig vantar skó! Í lengri tíma hef ég ekki þurft á spariskóm að halda og allt í rann upp fyrir mér að ég á enga skó sem passa við síðan kjól! Hvað gera bændur þá? Fara í gúmmístígvélunum eða berfættir? (bændur úr sveitinni hennar ömmu hefðu valið gúmmískó af þessu tvennu). Skakki á gúmmístígvél sem ég held að hann hafi skilið eftir. Þau eru hinsvegar aðeins of stór (alltof). Ég á líka fullt af þykkbotna skóm en einhvern veginn koma þeir skringilega út við kjóldrusluna. Ætti kannski bara að sleppa kjólnum og þá á ég nóg af skóm haha. Það er greinilega liðin sú tíð þegar ég átti meira af sparidressi heldur en almúgaklæðnaði sem ég klæðist hversdags. Skakki á ekki bara gúmmístígvél, hann á líka spariskó en þeir passa heldur ekki vel við kjólinn. Hmmmm þetta er umhugsunarefni!

Í gær leiddist fiskunum alveg svakalega mikið. Þeim leiddist að svamla alltaf í sama búrinu með sama gamla vatnið og alltaf sami kastalinn með dularfulla grasinu. Ég var því góð sál og tók þá út að hjóla. Ég setti þá í barnasætið á hjólinu og var nú varla að þeir kæmust fyrir því þeir eru þrír. Þessi litli (sem svarar nafninu "litli Ræfill") hékk hálfur út úr. Við hjóluðum um alla sveitina. Mættum Sjaplin á gönguferð (hann er nú vanur að vera hjólandi þarna í sveitinni) og hann starði öfundaraugum á útgerðina. Við hjóluðum ekki langt því fiskarnir eru vanþakklátir og voru farnir að æpa að þeir væru að "drukkna". Hvernig geta fiskar drukknað þegar búið er að taka þá úr vatninu og setja þá á hjól? Að vísu var rigning en ekki nóg til að þeir ættu ekki að hafa gaman af ferðinni. Þrýstingurinn var svo mikill að ég fór heim og setti þá aftur í búrið og tilkynnti þeim að það yrði bið á því að ég tæki þá aftur út að hjóla.
Mér leiðist ekki!

30 september 2004

Það var viðtal við Dr. Gumma í sjónvarpinu í fyrrakvöld. Það var frábært. Ef ég hefði ekki verið búin að hitta manninn oft og tengja mig inn á talbylgjulengdina hans þá hefði ég ekki skilið orð af því sem hann sagði. Hann er frábær! Honum finnst legið í mér fallegt. Það eru ekki allir sem geta státað af því að hafa fengið hrós fyrir þessa innviði sem maður sér aldrei. Hins vegar skil ég hann ekki þegar hann talar en flinkur er hann þó hann hafi ekki getað lagað mig!

Skakki er enn í Föraujarna. Það er lækur við gluggann hans. Ég heyri í lækjarniðnum þegar hann hringir í mig. Mjög róandi hugsa ég. Hjá mér er ekki lækjarniður. Hjá mér er það niður í díseldruslu sem þyrfti að laga og það þyrfti að benda eigandanum á það að klukkan sex er EKKI kristilegur tími til að vakna. Bót í máli er auðvitað að það er ekki hægt að sofa yfir sig með þennan hávaða á hverjum morgni.


29 september 2004

Hrágildið er líf mitt. Staðalfrávikið er plús einn þegar litið er á z-gildið en t-gildið er annað. Normalkúrfan reynist skekkt þannig að ég verð eflaust að líta á hundraðstöluna. Hjálp, hjálp ég er farin að tala í tölfræðiskömmtum... eða er mér ekki viðbjargandi og hér eftir hugsa ég um alla hluti út frá því hvernig þeir dreifast? Sjálf er ég dreifð um allt, spurning hvort lendi í normalkúrfunni eða betra sé að nota allt annað?

Kennarinn í tölfræðinni er greinlega viss um að ég sé vonlaust keis. Svo vonlaust að hún reyndi ekki einu sinni að lesa yfir fyrsta verkefnið heldur henti því ólesnu hrrrmp Er þetta hægt? Spurning hvað hún hafi gert við möppuna sem ég hélt að væri græn en samhópkona mína sagði að hefði verið appelsínugul (hún hafði rétt fyrir sér því ég fann grænu þegar ég kom heim). Langaði hana svo mikið í möppuna að hún henti innihaldinu? Ég hefði alveg getað gefið henni svona möppu!

Í morgun skilaði ég öðru verkefni, setti það í grænu möppuna núna þar sem kennarinn hirti þessa applesínugulu. Í hvaða möppu á ég að skila ef hún hirðir þessa líka? Hvað sannar þetta máli mínu tilstuðnings að ég sé vonlaus í tölfræði?

Í rauninni ekkert, bara að kennarinn er slóði sem týnir verkefnum hehe

28 september 2004

Virðulegur tengdafaðir minn á afmæli í dag. Til hamingju með daginn Maggi. Vonandi færðu köku eða eitthvað gott að borða þarna í Danmörkinni í tilefni af deginum!

Hitti eina sex ára upprennandi tískudömu í gær. Ég var varla búin að segja ?halló? þegar hún sagði ?þetta eru flottir skór. keyptir þú þá í útlöndum?? Nokkrum sekúndum síðar sagði hún.. ?ég verð nú ekki lengi að komast í þína hæð!? og nokkrum sekúndum eftir það ?ég eeeeelska bleikt en fjólulátt er nú samt uppáhalds núna?

Mér þykja svona skýrleiksbörn skemmtileg. Sem vita hvað þau vilja og gera sér grein fyrir að ég er töff! Þó ég sé dvergur!

Að öðru leyti hefur fátt drifið á daga mína. Ég dansa ein fyrir framan spegilinn af því ég á ekki pening til að fara á ball og kemst ekki í nein föt heldur (sem sagt, ekki bara dvergur, heldur feitur dvergur) en það hlýtur að lagast þegar ég er búin að dansa svoldið meira við spegilinn. Er að vísu með marbletti um allan líkamann því ég rek mig alltaf í hurðina þegar ég geri stóra sveiflu en bjútí is pein segir Armour vinkona mín um leið og hún hvetur mig áfram. Ég hef að vísu órökstuddan grun um að hún sé að hlæja að mér þegar ég sé ekki til, en ég hef enn ekki gripið hana svo ég get ekki verið viss!

27 september 2004

Strembin helgi en helgi uppgötvana samt! Laugardagurinn var nefnilega sviðsdagur. Það þýðir að það þarf að vakna fyrir allar aldir, æða eitthvað upp í sveit og hlusta á fyrirlestra allan daginn. Fá svo gott að borða um kvöldið og detta ærlega í það (fyrir þá sem hafa tíma til þess)!!

Ég er auðvitað félagsskítur þannig að ég ákvað að mæta ekki í rútuna klukkan 7.45 (hvaða guðsvolaði tími er það á laugardagsmorgni????) heldur fara bara á bláa fjallabílnum með grænu ljósunum! Þetta var ágætt (!). Fyrirlestrarnir voru brotnir upp með línudansarakennara. Jamm, Meinvill stóð og dansaði cha cha með línudansaraívafi klukkan 3 á laugardagseftirmiðdegi! Eftir 2 dansa var ég farin að fækka fötum. Eftir 3 dansa sendi ég SMS til leigubílstjórans að ég væri búin að ráða gátuna um þvð hversu vegna við hefðum fitnað á síðustu árum! Hún taldi mig með óráði! Hún var enn vissari þegar ég sagðist vera að dansa á miðjum degi. Hún spurði hvort ég væri með fráhvarfseinkenni þar sem Skakki er í burtu. Hún sagðist nú skilja málsháttinn "þegar kötturinn er í burtu leika mýsnar sér". Ég skráði mig hinsvegar á dansnámskeið um leið og ég komst til byggða aftur (ég lýg því auðvitað en það hljómar vel).

Vinnufélagar mínir sem tóku rútuna fóru síðan á stuðmannaball. Ég vissi ekki að Stuðmenn væru enn með böll. Mikið assgoti er ég dottin út úr þessu. Frú leigubílstjóri, má bjóða þér í dans?


Powered by Blogger