Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

19 september 2004

Mig dreymir ekki! Eða kannski dreymir mig en ég bara gleymi draumunum áður en ég vakna. Þeir stoppa stutt við. Í nótt dreymdi mig hinsvegar draum sem var athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Ég var nefnilega með þann hæfileika að geta gert mig ósýnilega. Til þess að ég yrði ósýnileg átti ég hvíta blúnduslæðu sem ég festi í efstu tölu á skyrtu sem ég var í og voila enginn sá mig lengur. Ég var á ferð um einhver ókunn lönd og þar kom að ég fann búð sem mig langaði mjög mikið að skoða. Vandamálið var hinsvegar að það var ekki ætlast til að hvítingjar væru að þvælast þar inni. Ég setti því upp klútinn góða og sveif inn. Þarna voru dýrindis gersemar til sölu, bæði föt og hlutir til að skreyta hýbýli (eins og allir vita þá er ég ekki minimalisti þannig að ég komst í feitt). Vandamál mitt inni í þessari búð var hinsvegar að þegar ég var komin með fangið fullt af fínum klæðum þá sást fatabunkinn hreyfast um búðina en enginn vera með þar sem ég var auðvitað ósýnileg. Ég reyndi því að láta lítið fara fyrir mér og tróð mér bak við fatarekkana og slárnar þannig að ég væri minna áberandi. Þegar ég fór að skoða hýbýlaskrautið lagði ég fatabunkann frá mér á borð svo aðrir í búðinni tæku ekki eftir mér. Í gleði minni yfir öllum þessum vörum lagði ég líka blúnduslæðuna góðu í bunkann. Fór síðan að skoða eins og mér einni er lagið en þegar ég leit næst við var ein afgreiðslukonan komin með blúnduslæðuna mína og var að spyrja hvort einhver hefði týnt slæðunni. Það kom heilmikið fát á mig því ef ég vildi verða sýnileg aftur varð ég að fá slæðuna en ég gat ekki náð henni nema koma upp um að ég væri að þvælast þarna í leyfisleysi. Ég fór því að elta afgreiðslukonuna með von um að ég sæi hvar hún legði slæðuna og í því vaknaði ég. Í draumnum kom hinsvegar ekki fram hvernig ég ætlaði að greiða fyrir vörurnar án þess að gera mig sýnilega aftur. Og fyrir hverju er þetta? Finnst mér ég vera svona ósýnileg að enginn taki eftir mér? En í draumnum var það mitt val að vera ósýnileg til þess að ég kæmist inn á stað sem var mér annars lokaður. Samferðamenn mínir í draumnum biðu fyrir utan en gátu ekki komist inn því þeir áttu ekki svona fína slæðu og það kom ekki fram hverjir það voru sem eg var með. En landið var eitthvað Afríkuríki með fallegum skærum litum og dökkum feitum konum sem allar brostu í hringi hver við annarri.

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger