Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

25 mars 2004

Í gær tóku læknar af skarið og lýstu því yfir að frekari meðferðir væru gagnslausar því ég væri ekki að svara neinum lyfjum. Við erum því officially hætt á Landspítalnum sem er auðvitað gott út af fyrir sig. Það þýðir að ekki eru fleiri sprautur en svona ykkur að segja þá var mér nú bara farið að þykja vænt um sprauturnar því ég var búin að gera þetta svo lengi að þetta var orðið partur af morgunverkunum. Í morgun var fyrsti sprautulausi dagurinn í langan, langan tíma og það olli því að ég var allt í einu með heilmikinn tíma lausan um morguninn. Var ekki á síðustu stundu eins og alltaf. Það er sem sagt alltaf eitthvað gott ef maður hugsar eins og fíflið hún Pollýanna.

Í augnablikinu er ég hinsvegar ekki í Pollýönnu stuði. Við erum nefnilega bæði í svona lofttómi og vitum ekki alveg hvað við gerum næst. Kannski gerum við bara ekki neitt en það er hinsvegar slæmt val samkvæmt Intrum sem auglýsir grimmt "Ekki gera ekki neitt" og ekki nóg með að þeir auglýsi það heldur eru ráðgjafar um allan bæ búnir að stela þessu slagorði og tauta það á hverju námskeiðinu á eftir öðru. Næs.

Ég ætti kannski bara að fara á fyllerí. Ég hef ekki farið á fyllerí mörg, mörg, mörg ár. Kannski er bara kominn tími á eitt gott svoleiðis og hreinsa út gamla drauma sem eru dánir hvort eð er. Þetta er kannski bara ekkert slæm hugmynd hmmmm

En læknar eru samt fyndnir. Þegar hann var búinn að þylja upp allt sem við átti s.s meðferð ekki að gera neitt, best að hætta núna, gætir gert þetta eða hitt og ég að reyna að meðtaka það..þá segir hann "áttu eitthvað af lyfjum eftir?"
Ég alveg dofin og get varla hreyft varirnar segi "ha, já tvo kassa af XXX og svo þetta sem ég fékk í morgun"
Og hann segir, "það er fínt, gætir þú skutlað því niður á deild við tækifæri"
Ég áfram jafn dofin "Jájá ég skal gera það"

Ég veit að lyfin eru dýr og ég veit að enginn tími er betri en tíminn í dag. En halló var þetta alveg rétti tíminn til að segja mér skila lyfjunum? Hann er t.d. með emailinn minn. Hefði hann ekki getað sent mér email eftir smátíma? En kannski var hann hræddur um að ég færi heim og henti öllu draslinu.

Eftir nokkur ár á ég eftir að hlæja að þessu öllu saman ég veit það en í augnablikinu get ég ekki sagt þetta upphátt án þess að það opnist einhverjar táragáttir. Drengirnir hérna frammi halda ábyggilega að það sé búið að reka mig því ég geng um rauðeygð og þrútin. En þetta gengur yfir eins og annað.

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger