Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

23 ágúst 2003

Jarðskjálftapælingar
Klukkan tvö sváfum við eins og þeir sakleysingjar sem við erum þegar haukurinn hentist á mig. Hann rak upp hálfkæft öskur:
"Hvað var þetta?"
Ég svaraði því sem mér fannst fullkomlega eðlilegt á þessari stundu
"Rólegur, þetta var bara jarðskjálfti"
Smá þögn og síðan
"Nú, nú ég hélt að þú hefðir fengið eitt kastið þar sem þú hrekkur svona við"

Huh hvað heldur maðurinn að ég sé? Ég veit ég er taugaveikluð með afbrigðum en það hristist EKKI heil blokk þegar ég hrekk upp úr svefni. Bara svona rétt nánasta umhverfi!

Í nótt svaf ég samt betur en ég hef sofið í lengri tíma. Haukurinn heldur því fram að í skjálftanum hafi ég hristst ofan í einhverja fellingu í rúminu og skorðast þar föst. Hver sem orsökin er þá vaknaði ég ekki í eitt einasta skipti þegar ég þurfti að snúa mér við. Kannski snéri ég mér bara ekkert við!

Þegar ég var lítil (minni en ég er núna) var ég hrædd við allt. Ég er að vísu enn hrædd við allt en get notað einhverskonar rökfræði til að sýna sjálfri mér að oft er hræðslan ástæðulaus og óttans er bara að leita í ofvirku ímyndunarafli mínu. Eitt af því sem ég var mjög, mjög hrædd við var jarðskjálfti. Ég var þess fullviss um að ég ætti eftir að deyja (rökrétt ágiskun) en dauða minn mundi ekki bera að með eðlilegum hætti. Nei ég mundi annaðhvort deyja í jarðskjálfta eða vera étin af ísbirni (alls ekki þetta tvennt á sama tíma). Það var nefnilega sýnd einhver mynd í svarthvíta Blaupunkt sjónvarpinu okkar þar sem heila borgin var í rústum eftir jarðskjálfta. Fólk gekk kallandi og grátandi um göturnar og leitaði ættingja sinna. Ímyndunarafl mitt tók vaxtarkipp og ég sannfærðist um að þetta ætti eftir að koma fyrir mig. Það tók mörg ár að læknast af þessari fóbíu.

Hin dauðafóbía mín tengdist því að ísbjörn gekk á land í Grímsey og var drepinn þar. Ég hafði séð ísbirni í svarthvíta blaupunkt sjónvarpinu okkar og einnig læf í Hafnarfirði. þar voru tveir grútskítugir ísbirnir sem væfluðust fram og til baka í einhverri holu. Alls ekki ógnandi. Ísbjörninn í Grímsey virkaði hinsvegar ógnandi, alla vega þá var hann skotinn. Ég lokaði glugganum á herberginu mínu í mörg ár til þess að þurfa ekki að vakna við það eina nóttina að ísbjörn væri að reyna að komast inn til mín. Þessi fóbía læknaðist ekki fyrr en ég flutti til Reykjavíkur því ég taldi víst að erfitt yrði fyrir ísbjörn að finna mig þar!

Jarðskjálftinn í nótt svæfði mig það hefði hann ekki gert fyrir öllum þessum árum á Húsavík!

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger