Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

26 janúar 2007

Nornakvöld eru skemmtileg. það voru þvílíkar umbreytingar og fjör í vændum hjá okkur öllum að það hálfa væri nóg. Ársspáin mín var að vísu ekki að gera sig því nýafstaðnir atburðir vildu yfirkeyra allt. Það er bara í fínu lagi.

Annars sá ég skoffínið álengdar í gær. Hún er eins og ég að þvælast á atvinnuleysingjastöðum borgarinnar (mollin). Ég verð að viðurkenna að um mig fór torkennilegur fiðringur og ég hefði vel getað hugsað mér að sparka í hana. Það hefði nú verið saga til næsta bæjar: Kona á besta aldri ræðst á konu í molli í Kópavogi. Ekki er vitað hvað konunni gekk til en henni hafði nýverið sagt upp störfum..hehe flott grein sem þetta hefði verið.

25 janúar 2007

Í kvöld er nornakvöld. Ég ætla ekki að spyrja neitt út í vinnu eða slík mál. Á síðasta nornakvöldi spurði ég sérstaklega út í vinnumálin þar sem þau voru mér býsna hugleikin og fékk ekkert svar. Ekki bara það að ég fékk ekkert svar, heldur neitaði draslið gjörsamlega að gera nokkuð. Var bara eins og dautt sem okkur þótti fáranlegt á þeim tíma og ég tilkynnti hátt og snjallt að þetta væri drasl og ég tryði hvort eð er ekki á þetta! Já, já í kvöld ætlar engin okkar að spyrja um vinnuna haha

Ég er búin með fyrsta daginn á námskeiðinu og þetta lítur vel út, afskaplega vel. Ég fékk nýja skólatösku frá SPRON og fíla mig eins og eitthvað sé að gerast. Ægilega skemmtilegt. Hópurinn virðist vera fínn en við eigum eftir að vera saman í 15 vikur. Soldið fyndið samt að sitja á einum námskeiðshlutanum en það efni hef ég kennt sjálf í nokkur ár og gjörþekkti því efnið. Hefði getað staðið upp og tekið við í pásunni. En ég reyni að hemja mig haha. En ég sá alla vega að mín efnistök eru ekkert svo slæm þannig að ég get alveg haldið þetta námskeið með höfuðið hátt.

Annars er aðeins farið að róast núna eftir mikið stress undanfarnar 3 vikur og svefninn er að skríða í lag. Vakna að vísu óhóflega snemma en held það sé lítið við því að gera annað en að reyna að nýta tímann í eitthvað uppbyggilegt.

24 janúar 2007

Í dag byrjar nýr áfangi hjá mér því ég er að fara á námskeið sem mig er búið að langa soldið lengi að fara á. Meðan ég var í vinnu var hinsvegar ekki alveg hægt að réttlæta að vera hálfan dag í viku í burtu að læra eitthvað sem ekki snerti fyrirtækið neitt. En þar sem ég er svo heppin að vera atvinnulaus þá gat ég fundið réttlætinguna sem mig vantaði og flýtti mér að skrá mig. Ég verð þarna á miðvikudögum næstu 15 vikurnar. Alveg brjálað að gera sko!

Og þar sem ég er byrjuð nýtt líf þá ákvað ég að flikka aðeins upp á fataskápinn minn enda hann orðinn frekar tómlegur (AS IF) og fór og keypti mér nýjar hermannabuxur. Það er nefnilega ekki neitt dress code heima hjá mér. Eða það er að vísu ekki alveg rétt. Það er dress code fyrir utanaðkomandi en það felst eingöngu í því að mér finnst æskilegra að gestir séu í fötum sínum meðan þeir stoppa við. Það eru ekki allir sem fara eftir því og Molinn t.d. byrjar alltaf á því að rífa sig úr buxum og peysu og kvartar svo yfir kulda. Aðrir hafa yfirleitt farið eftir dress codinu.

Ákvað líka að einn þáttur í nýju lífi væri að byrja að ganga með úr og keypti það alflottasta úr sem ég hef séð lengi. Er svo smart að ég geng með útrétta hendi fyrir framan mig svo allir sjái nýja úrið mitt!

23 janúar 2007

Í gamla daga var til bók sem hét Litla nornin Nanna. Mér fannst það alltaf skemmtilegur titill og þar sem ég samsvara mig við þessa Nönnu þá er titilinn Litla feita nornin Anna alls ekki óskemmtilegur. Ég hef ákveðið að taka smá hlé á bölbænum en á þó eftir að gera eina fyrir Svalbarðafólkið en held að það flokkist kannski frekar undir verndarbæn heldur en bölbæn því ísbirnir eru jú skepnur líka en ég skil vel að enginn vilji hafa þær alveg í næsta nágrenni við sig. Byssa eða ekki, held það sé samt ósæskilegt að vera mjög nálægt þeim. Aðallega vegna stærðar og þyngdar og óstöðvandi hungurs. Ég hef oft verið hungruð. Samt aldrei eins og ísbjörn. Í gær sagði ég nokkrum fyrrverandi vinnufélögum að mig vantaði skrifstofu til að skrifa metsölubókina mína. Þau stungu upp á lausu skrifstofuherbergi fyrrverandi yfirmanns míns og töldu það henta vel til skrifta. Mér leist vel á það og er að hugsa um að sækja um að fá að leigja það í nokkra mánuði. Hljómar í alla staði vel. Þetta er stórt og lokað herbergi, engir gluggar þannig að ekki er hætta á að tefja sig frá skriftum með því að liggja og glápa út um gluggann. Og svo væri hægt að fara í mat með skemmtilegu fólki, þeas ef hægt væri að semja við kokkinn um einhverskonar áskrift fyrir fyrrverandi starfsmann. Ohhhhhhh nú fatta ég að ég á eftir að sakna mötuneytisins. Og það besta við þetta tiltekna herbergi er að það er ekki í notkun lengur þar sem fyrrverandi notandi þess "ákvað" að fara eitthvað allt annað öllum öðrum að sársaukalausu en það er súrt að svona stórt og gott herbergi standi ónotað. Hverjir ætli séu möguleikar mínir til að leigja það?


Powered by Blogger