Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

13 janúar 2006

Jæja þá er komið að því að þeir sem hafa verið að væla um snjóleysi hafa fengið ósk sína uppfyllta. Þetta er ekki mín ósk. Ég hata sjó á götunum og hata að þurfa að skafa bílinn á morgnana. Svona þá er ég búin að koma því frá. Að öðru leyti er allt tíðindalaust á vesturvígstöðvunum. Eplið braggast vel og jólaskrautið næstum komið ofan í kassa. Ó já!

12 janúar 2006

Framhaldssagan um snigilinn heldur áfram. Skakki kom þjótandi heim úr vinnunni og mátti ekki vera að því að heilsa því hann var svo upptekinn af því skoða hvort Eplið hefði étið kálið. Það reyndist ekki vera enda erfitt fyrir lítinn snigill að komast upp á yfirborð vatnsins í miðju búrinu þar sem kálið flaut í sakleysislegu skeytingarleysi fyrir svengd lítils snigils. Ég brá mér í S30 í gærkvöldi til að hitta Molann eitt augnablik og þegar ég skaust út heyrði ég Skakka hrópa:
"Ath. hvort þau eiga gúrkubita"
Haha hló ég, hann er fyndinn mætti halda að hann hefði lesið bloggið mitt sem nota bene hann var ekki búinn að. Nema hvað, ég kem heim gúrkulaus því ég hélt í fávisku minni að um grín væri að ræða. Það liðu ca 10 mín þar til Skakki spratt upp og muldraði að hann langaði í ís. Jájá ég hef nú aldrei slegið hendinni á móti slíkum kræsingum og beið spennt. Hann var örsnöggur í búðinni og kom þjótandi upp með ís í poka sem hann henti annarshugar á borðið og gúrku í hendinni sem hann byrjaði strax að skera niður... fyrir hvern? Jú auðvitað Epplið!

Á mínu heimili fáum við ekki þráhyggju. Það bara kemur ekki fyrir!!!!

11 janúar 2006

Styttist í helgina. Hún verður að vísu stutt hjá mér núna þar sem það er námskeið í gangi og ég þarf að opna og loka hurðum...en ég nota tækifærið og breyti þessu í jákvæða upplifun og fer í salinn á meðan ég bíð. Gosh mar er svo jákvæður svona á nýju ári.

Annars erum við Skakki mjög upptekin þessa dagana af nýjasta fjölskyldumeðliminum: Hinum flotta eplasnigli en Skakki kynntist frændum hans í fiskabúri Röggu. Hún segir sinn vilja borða kál og það varð til þess að Skakki endasentist út í búð til að kaupa kál handa Epplinu. Hann sagði mér að þetta væri kvöldmatur dagsins í dag og ég verð að viðurkenna að mér fannst hann ægilega skipulagður þar til ég vaknaði í morgun og sá allt kálið sem aumingja fiskarnir voru að reyna að krafla sig í gegnum. Þeir horfðu á mig ásökunaraugum en Skakki sagði mér að vera ekki svona taugaveikluð: Eplinu þætti þetta gott og það yrði að hugsa um hag þess líka..af því það væri nýkomið í fjölskylduna og svona. Jájá ég reyndi að ignora ásakandi augnaráð fiskanna sem fylgdu mér fyrir hornið inn í eldhús. Eins gott að Eplið hafi klárað allt kálið þegar ég kem heim því annars fer Skakkinn eflaust að kaupa gúrkur eða eitthvað annað. Ég held mér lítist ekki á tilhugsunina að hafa svamlandi gúrkur í búrinu. Svo ég tali nú ekki um hvað það er dónalegt!!!

10 janúar 2006

Úti er alltaf að snjóa...því kólna fer á... já nú snjóar. Í morgun rigndi. Spurning hvernig þetta verður við heimför. Agalega er ég eitthvað löt. Ég nenni lítið að gera en er þó að gera fullt því ég kemst ekki hjá öðru. Er t.d. með tvö námskeið á morgun og eitt stutt á föstudag.

Ég byrjaði að laga til í geymslunni í gær. Skakki var búinn að undirbúa komu mína þannig að það var lítið sem ég gat gert. Fann þó drasl í tvo poka sem ég get hent. Fann líka fullt af garni sem ég auðvitað tímdi ekki að henda þó ég geri ekkert úr því. Held ég sé með einhverskonar garnsyndrom. Held alltaf að það verði eitthvað úr öllu þessu garni sem er í kringum mig en svo gerist ekkert.

Um helgina kláraði ég bók sem heitir Skuggi Vindsins. Mikið assgoti er það skemmtileg bók. Þetta var eins og að borða konfekt, hver flotta málsgreinin eftir aðra. Ég las hana auðvitað ekki á frummálinu því það er spænska en þýðandinn hefur gert góða hluti held ég. Alla vega gleymdi ég mér í unaðinum við að lesa þessa bók. Ég get nefnilega pirrað mig endalaust yfir þessum hraðþýðendabókum sem vaða uppi allstaðar. Held stundum að þýðendur hljóti að fá borgað í akkorði því verkin eru svo hroðvirknislega unnin.

09 janúar 2006

Oh celebration, oh..tralalalalla
Mikið er gaman að vera til! og það er engin ástæða fyrir þessum skyndilegu gleðilátum heldur líður mér bara stórkostlega vel í augnablikinu Oh celebration..tralllalllllalala..

Skakki gerir tónleikunum mjög góð skil þannig að ég þarf ekkert að segja nema ÞAÐ VAR ROSALEGA GAMAN oh celebration, tralalala

Fór og keypti eplasnigil í fiskabúrið. Þetta er stærðarinnar kvikyndi og það æðir um búrið á fullri ferð. hvað er verið að segja að sniglar fari sér hægt. Þessi gerir það sko ekki. Maður má hafa sig allan við að fylgjast með honum. Og fallegur er hann haha. Fiskarnir urðu svo hræddir (rolur eins og eigandinn) að þeir þorðu ekki að hreyfa sig úr einu horni búrsins. Þorðu varla að éta. Andskotans rolur.


Powered by Blogger