Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

06 mars 2004

Þegar ég mætti í klippinguna mína í gær var klippikonan veik. Ekki náðist í mig því þær voru ekki með símann hjá mér. Ég fór næstum því að gráta og bað þær að horfa vel á mig, ég gæti ekki litið svona út (eins og það væri þeim að kenna). Þær mölduðu eitthvað í móinn, sögðu mér að bæjarárshátíðin væri á morgun og allt BRJ'ALAÐ hjá þeim að gera! Ég varð svona eins og aumingi og tveim mín seinna sat ég í stól og var að fá klippingu. Ég skammaðist mín ekki einu sinni fyrir að troða mér svona að. Eftir allt saman þá bera þær ábyrgð á hárinu á mér eða er það ekki? Gott að varpa ábyrgðinni á útliti sínu yfir á aðra haha

Meðan ég var stödd hjá klippunum hringdi Kristín í mig og bauð mér í bíó. Henni höfðu áskotnast tveir miðar á "Love is in the Air" heimildamyndinni um Rómeo og Júlíu í London. Þetta var skemmtilegt og það besta við það var að það kom svona óvænt. Fín heimildamynd um flínkt fólk í London. Mikið assgoti geta sumir verið hæfileikaríkir. Það er bara alveg stórkostlegt.

05 mars 2004

Í dag fer ég í klippingu. Ég lít ut eins og púddla sem ekki hefur verið klippt lengi, sem sagt illa! Ég get varla beðið eftir að klukkan verði fjögur svo ég geti farið. Annars er svona snúsnú eða teyjó veður úti. Spurning að draga það fram og byrja að æfa
ég á ekki rauða stigaskó en að öðru leyti gæti þetta verið ég!

það eru allir að velta sér upp úr komandi helgi nema ég. Mér finnst eins og allir séu að fara eitthvað eða gera eitthvað nema ég
Þetta er ekki normal. Ég ætla bara að skrifa soldið í ritgerðinni minni. Mig er farið að langa til að gera eitthvað ærlegt bull en veit ekki hvað það ætti að vera buhuhu

Heimsyfirráð eða dauði!
Þetta hugsaði ég í gær þegar ég sat og gladdist yfir fréttunum. Við erum nefnilega í fyrsta skipti í sögunni orðin stærri en SAMKEPPNISAÐILINN

HÚRRA

Heimsyfirráð eða dauði og hana nú og best að halda áfram að vinna

04 mars 2004

Tækniundur
Ég fékk heimsókn í gærkvöldi. Þetta var vinkona mín og spúsi hennar (þau lifa í synd og hórdómi eins og á mínu heimili) og sagði vinkonan farir sínar ekki sléttar (alveg skakkar farir þar). Málið er nefnilega að eins og algengt er um karlmenn þá þjáist spúsinn af tækniundradellu. Þetta háir vinkonu minni ekki neitt því hún hefur líka gaman af tækjum. Nú hinsvegar er hún farin að kvarta lítilsháttar.

Vinkonan hefur geypigaman af því að horfa á sjónvarp og á stórt og fínt tæki með heimabíógræjum. Mjög skemmtilegt tæki sem ég hef nokkrum sinnum horft á í góðu tómi (eini sinni kviknaði í við hliðina á okkur vinkonunum þar sem við sátum og störðum í ofvæni á þetta fína sjónvarp en við urðum ekki varar við það fyrr en kofinn var næstum brunninn ofan af okkur en það er önnur saga).

Nú fær spúsinn þá fínu hugmynd að fá lánaðann skjávarpa í einhverri búð og sjá hvernig hann kemur út í höll þeirra. Vinkonan mótmælir eitthvað og bendir á að höllin sé í minna lagi fyrir svona tæki og svo sé það líka dýrt. Spúsinn blæs á svona máttleysisleg mótmæli og til að sannfæra hana endanlega segis hann ísmeygilega:
"Við getum prufað að horfa á Two Towers í þessu og tengja heimabíóið við"

Hver stenst svona gylliboð? Ja, ekki vinkona mín og hún settist glöð í sófa sinn meðan spúsinn græjaði skjávarpann (reif í ofvæni málverkin af veggjunum, naglhreinsaði hann á mettíma og málaði hvítan). Þau horfðu á Two Towers og mikil hamingja ríkti í höllinni.

Hamingjan ríkti í tvo þrjá daga eða þangað til vinkonan kom heim úr vinnunni einn daginn. Þá var spúsinn búinn að hreiðra um sig í sófanum, búinn að tengja tölvuna við heimabíóið, kominn með þráðlausa lyklaborðið sitt og þráðlausu músina og fullan styrk á græjunum. Á veggnum var Internetið í allri sinni dýrð og spúsinn með sælusvip.

Vinkona stóð stjörf í dyrunum og reyndi að meðtaka þetta og þegar spúsinn varð hennar var æpti hann (varð að æpa svo heyrðist yfir hávaðann):
"Er þetta ekki flott, ég ætla sko ekki að skila þessu tæki, ég ætla að kaupa hann. OKKUR vantar svona tæki"

Hún starði orðlaus á móti og loks þegar hún fékk málið reyndi hún að fá svör við því hvar hún ætti að horfa á sjónvarpið?

Hann var búinn að redda því. Á tölvuborðinu lá síminn hans og er hann með litlum skjá:

"Þú mátt fá símann lánaðann"

Mælti hann höfðinglegur í lundu.

"Passaðu bara að stólinn renni ekki til því gólfið er svo misslétt".

Síðan snéri hann sér aftur að lyklaborðinu þráðlausa og tölvumynd skjávarpans á hvítum veggnum.

03 mars 2004

Veðrabreytingar! hmmm! Mér finnst þær skemmtilegar NOT! Ástæðan? Jú hún er sáraeinföld, á dögum sem þessum þar sem skyndilega er komið hásumar um miðjan vetur verður fallegu andliti mínu um og ó og sýnir vanþóknun sína á undraverðan hátt!

FRUNSUR

Já, frunsur eru verkfæri djöfulsins til að minna mann á að vera ekki að sýna neina ofsakæti yfir að veturinn sé að verða búinn. Nú er ég með eina stóra á vörunum og nefið lýtur út eins og ég sé búin að drekka í nokkrar vikur samfleitt, rautt og þrútið. Ég er sem sagt enn meiri hryggðarmynd en vanalega og er þá mikið sagt.

Þetta væri allt í lagi ef frunsum fylgdi ekki þessi gífurlega vanlíðan og er ég þá ekki að tala um vanlíðan yfir slæmu útliti því ég er búin að hylja alla spegla með svörtum dúk meðan þessi ósköp ganga yfir. Nei ég er að tala um sársauka og kláða. Nú er það svo með frunsur á nefi að þær geta verið hættulegar því alltaf er hætta á að smit berist í augun ég má því ekki vera með linsur þegar svona ósköp ganga yfir. Mikið er ég heppin að linsurnar eru hvort eð er orðnar að tveimur þurrum druslum í glasinu!

Ég HATA frunsur

Ég þoli heldur ekki þegar fólk er búið að spyrja "oh ertu með frunsur?" (sem er skemmtileg spurning þegar hálft andlitið er þakið sárum) þá kemur þessi setning: "Ég fæ ALDREI frunsur"
Já og???? Á mér að líða betur við það???? Ef einhver heldur að svo sé þá veður sá hinn sami í villu og svima. Djöfulsins frunsur

02 mars 2004

Systir mín Skjaldbakan fer stórum í blogginu sínu í gær. Hún er þar að ræða uppáhaldsumræðuefnið sitt sem er "sokkar". Huh, mér hinsvegar finnst sokkar leiðinlegir og reyni að forðast að þurfa að nota svoleiðis fyrirbæri. Af því ég bý á Íslandi þá er það samt hluti ársins sem ég hreinlega neyðist til að nota slíkan búnað. Ég geri samt mitt besta og heima hjá mér er ég t.d. alltaf berfætt. Af hverju vill fólk fela fallega fætur sína í sokkum ef það kemst hjá því?? (Hrönn þú ert beðin að kommentera ekki á þessa athugasemd því ég man þá tíð er þú sast í tjaldi og grést úr hláti yfir því hve tærnar mínar væru ljótar, þær hafa lítið breyst).

Einn ágætur vinur minn (hann heitir Árni og er úr járni) þoldi ekki sokkafælni mína og hafði alltaf tilbúna háa hvíta ullarsokka þegar ég kom í heimsókn. Alveg sama hvort það var sumar eða vetur. Það virkaði nú soldið skrítið að vera í stuttu pilsi og háum ullarsokkum en það á kannski bara vel við á Íslandi.

En mér finnst að fólk eigi að leyfa fótunum sínum að anda, ekki troða þeim í sokkaplögg allan sólarhringinn nema kannski rétt á meðan það sefur.

01 mars 2004

5stelpur.com var fínasta skemmtun. Á tímavili voru kallar að vísu dissaðir heldur mikið. Það var svo neikvætt að ég var löngu hætt að hlæja en það lagaðist fljótt og þegar upp var staðið var þetta hin besta skemmtun. Er hinsvegar ekki viss um að körlum svona almennt finndist þetta skemmtilegt. Þetta er svona konumiðað leikrit enda voru svona 95% áhorfenda konur.

Annars eyddum við helginni í að skoða skrifstofustóla (ekki skrifBORÐSstóla) og enduðum með nýja kommóðu. Góð skipti það. Það versta er að hún er svo há að þó við viljum sitja á henni fyrir framan skrifborðið (tölvuna) þá gengur það ekki upp

Við erum búin að fá nokkrar fyrirspurnir og núna síðast frá Hörpu, hvort eitthvað hafi breyst í sambúð okkar hjónaleysanna þar sem hann er nú hr. Meinvill. Ég get svarað því neitandi með gleði, okkar samband einkennist af synd og h****** rétt eins og áður. Ef aðstæður okkar hefðu breyst þá hefði hann aldrei orðið hr Meinvill heldur hefði Meinvill orðið Frú Haukurinn sem sýnilega er ekki góð samsetning. Get því glatt ykkur öll með að samband okkar er enn hið sama þó hann sé hr. Meinvill á köflum.


Powered by Blogger