Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

15 október 2005

Ég var á Egilsstöðum í gær og fór líka til Reyðarfjarðar að skoða álversframkvæmdina. Nóg um það. Flugið heim var skemmtilegt fyrir margar sakir. Það var nefnilega að ókyrrast veðrið og því voru óskapleg læti í upptaki (heitir það ekki upptak þegar vélardruslan hefur sig á loft?). Við hentumst til og frá í flugvélinni. Ítalirnir fyrir framan mig (hópur) kölluðust á með æsingi í röddunum en þar sem ég skil ekki ítölsku þá veit ég ekki hvort þeiru voru að biðjast fyrir eða hvetja flugmanninn. Ég hallast þó að hinu síðara þar sem þeir voru brosandi og æptu í hvert skipti sem vélin datt ofan í holu. Stelpan sem sat hinum megin við ganginn var á góðri leið með að gera gat í gólfið með fætinum þegar allt í einu vélin skaust út úr þessu veðri og í lognið. Meðan á þessu stóð tilkynnti flugfreyjan að borið yrði fram kaffi og vatn. Konan við hliðina á mér hnussaði lágt og sagði: "hvernig ætla þær bera fram kaffið? Og hvernig á liðið að halda á því?" En svo var það allt í lagi. Svipuð læti urðu svo í lendingunni á Reykjavíkurflugvelli. Þetta truflar mig lítið að öðru leyti en því að ég er ekki með maga fyrir svona læti. Fer t.d. aldrei í tæki eins og rússíbana því maginn á mér færi á hvolf. Þetta var svipuð tilfinning reikna ég með.

Og á meðan ég er að spjalla um þessar flugvélar. Hvað er þetta eiginlega með að flugmennirnir tilkynni hvað þeir heiti. Alveg er mér andskotans sama hvort maðurinn sem flýgur vélinni heitir Jón eða Barði eða eitthvað allt annað. Mér er líka sama hvað rútubílstjórinn heitir ef ég fer í rútu í klukkutímaferð. Mér finnst þetta sambærilegt. Þar að auki þá eru flugmennirnir svo til óskiljanlegir hvort eða er, maður heyrir bara orð og orð á stangli og þessi sem flaug til Egilsstaðar hann dæsti í míkrófóninn þegar hann var hálfnaður með ræðuna sem ég heyrði ekkert í. Ég heyrði hinsvegar dæsið MJÖG vel. Þeir ættu kannski að taka námskeið hjá flugfreyjunum hvernig eigi að tala í míkrófon?
Plane 3

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger