Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

26 febrúar 2005

Ég er á lífi! Á tímabili hélt ég að ég væri að deyja en það stóð sem betur fer ekki mjög lengi yfir. Ég er hins vegar öllu þrútnari en ég var á miðvikudag og tilfinningin er sú að ef einhver kemur of nálægt mér með oddhvassan hlut þá komi gat og úr mér leki loft. Sem er náttúrulega annað og öllu erfiðara mál. Það er ekki skrítið þó mér hafi liðið hálf illa. Ég hef farið í gegnum lífið full af himnesku þingeysku lofti. Í þessari ferð á Lansann var sprautað í mig glás af sunnlensku lofti. Tilgangurinn mjög óskýr, eitthvað um að lyfta magaveggjum frá líffærum eitthvað sem mér fannst vægast sagt loðið.. ég held að tilgangurinn hafi verið sá og hinn eini að reyna að eyða mínu þíngeyska lofti. Það tókst ekki og ég finn hvernig mitt loft er að hafa yfirhöndina og hrekja hið sunnlenska aftur út. Það er kominn flótti í liðið.

Áður en ég fór í aðgerðina var mér sagt að það kæmi stundum fyrir að aðgerðir tefðust og ástæðan væri sú að það kæmu inn bráðakeisarar sem gengu fyrir öllu öðru. Ég skildi það. Umræddan morgun var ég fyrst í aðgerðaröðinni og mér var brunað upp á skurðdeild þar sem hver aðilinn kom á fætur öðrum og kynnti sig eins og við værum í kokteilboði og að einhverjar líkur væru á því að ég myndi annað hvort þekkja þau aftur eða muna nöfnin þeirra. Sem er ekki raunin, man að vísu nöfnin en ekki andlitin. Þetta er grænklædd andlistslaus fyrirbæri. En sem sagt, það er skellt á mig svartri súrefnisgrímu og þar anda ég nokkrum sinnum að mér og líður bara þokkalega, eða eins þokkalega og manni getur liðið á örmjórri spýtu með rassinn ofan í einhverri dæld, ber að neðan og ókunnugt fólk vofrandi í kring. Sem sagt alveg konunglega líðan. Það næsta sem ég veit af mér að ég heyri háan titrandi barnsgrát og fólk á þönum. Heyri konur tala um litla keisarann og að hann sé ekki ánægður með nýja lífið. Ég fyllist gleði inn í mér þegar ég opna augun og held í einfeldni minni að þetta hafi bara ekkert verið æxli sem að mér var heldur lítill keisari sem enginn vissi um. Púff, þið getið ímyndað ykkur gleðina þegar ég uppgötvaði að það var þarna önnur kona og HÚN átti keisarinn en ég var einni blöðru fátækari. Kannski eins gott, því eins og Skjalbakan sagði "þú hefðir bara þurft að koma til Sirrý og útskýra að þú hefðir haldið að þetta væri blaðra..frekar bjánalegt svo sem" Það er rétt og ég er því bara glöð að vera komin heim og get farið að snúa mér að öðru bara
Bunny Suit

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger