Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

25 janúar 2008

Í morgun var brjálað veður eins og þeir vita sem vöknuðu nógu snemma. Ég var ein af þeim. Á leiðinni í vinnuna heyrði ég tilkynningu um að fólk ætti að vera heima nema það ætti brýnt erindi út. Hvað er brýnt erindi? Er það vinnan? Ekki veit ég það enda var ég að þvælast úti. Veðrið var á tímabili svo dimmt að ég keyrði framhjá afleggjaranum í Kópavog haha þarna sat ég kreppt í bílnum og reyndi að komast leiðar minnar og fór framhjá... varð að keyra inn á Breiðholtsafleggjarann til þess að komast aftur á rétta braut.

Fór og hitti Megagellurnar í gær. Þær eru alltaf jafn gellulegar og JJ var auðvitað með flott meðlæti handa okkur sísvöngum gellunum. En það sem hæst bar á þessum fundi var að þangað mætti spákarl og lagði fyrir okkur spil. það var athyglisvert en ég hefði nú svo sem alveg getað lagt þetta eins vel og hann. Hann vildi samt meina að það væru hræringar í vinnumálum og að við Skakki myndum eignast annað barn eftir tvö ár... jahá og ehemm annað barn bara og þetta bara ungi enn.

Og talandi um ungann, eitthvað var hann órólegur í nótt og vildi bara sofa í faðmi elskulegrar móður sinnar sem við það lenti út á brún í rúminu sem nota bene er RISA stórt. Ég varð því að sofa upp á rönd í smátíma og það varð til þess að ég var óvenju geðstirð er ég vaknaði alein í morgun og druslaðist út í óveðrið. Eins gott ég var búin að fjárfesta í þessari úlpu!

24 janúar 2008

Í tilefni þess að ég er aftur farin að vinna þá fór ég og keypti mér dúnúlpu dauðans. Hún er svo hlý að það liggur við að ég taki bara alla bílaröðina og skafi á morgnana þegar ég fer út. Og þegar ég er komin á vinnustaðinn þá bara sit ég áfram í bílnum og hreinlega að neita að fara inn því þá verð ég að fara úr úlpunni. Ákvað að kaupa ekki kvennmannstýpu því þær eru alltaf svo penar eða þannig. Aðsniðnar og með belti og eða skósíðar eða eitthvað annað kjaft æði sem mér lýst ekki á. keypti þess vegna bara gamaldags karlmannaúlpu sem nær niður fyrir rass og er HLÝ!!!

Voðaleg veikindi eru þetta á öllum þessa dagana. Ég sit hér og bóka viðtöl fram og til baka og færi þau líka fram og til baka því viðmælendur mínu eru undantekingarlaust veikir. Eins gott þeir smiti mig ekki því þá tefst ég í öllum þessum breytingum á fundahöldum!

21 janúar 2008

Klukkan er ekki orðin átta og ég er sest niður með coke með sykri. Ég sem drekk ekki einu sinni svona coke. Þetta er sem sagt tilvísun á komandi dag! Litli unginn svaf nefnilega ekkert í nótt. Hún var sko vakandi frá því einhvern tíma fyrir klukkan þrjú (en þá vaknaði ég) til klukkan að verða sex (en þá sofnaði ég). Nú eru sko alls ekki læti í þessari dömu. Ó nei, hún bara byltir sér og lemur fótunum í rúmið og það verður til þess að þessi svefnlétta hér getur ekki sofið. Ég prufaði allt. Tók hana til mín og knúsaði og strauk bakið og magann. Strauk höfuðið en þá skríkti hún og hélt hendinni þar. Úff, ég er þreytt. Best að skella í sig þessari coke og gá hvort ég lagist ekki!

Í gær fórum við í móttöku því við erum að leggja línurnar fyrir framtíðina. Daman er ekki orðin tveggja ára og hefur nú mætt í tvær sendiráðsmóttökur. Geri aðrir betur! Sendiráðsstarfsmennirnir staðfestu það sem ég hef áður lesið, að það er mjög sjaldgæft að svona ung börn eins og Unginn ráði við matprjónana að nokkru ráði. haukur sýndi þeim myndbrotið þar sem hún er að borða og þau áttu ekki orð. Sögðu hana halda hárrétt á prjónunum og hún væri greinilega mjög bráðger. Jájá segið mér eitthvað nýtt hihi


Powered by Blogger