Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

21 júlí 2007

Ég er loksins byrjuð að þvo öll litlu fötin sem ég er búin að strjúka í mörg ár. Skakki vill meina að ég þurfi að endurnýja hluta þeirra strax þar sem ég sé búin að handfjatla þau svo mikið að þau séu orðin slitin!!!! DÓNI!!!!!

Við erum búin að fá svo mikið af ráðleggingum varðandi kerrukaupin að það verður ekkert mál að kaupa eins og eina slíka. Gæti farið í kerruráðgjöf eftir þessi flottu ráð.

Ég keypti voða fínt stelpuljós (dökkbleikt kristalsljós hvað annað) í vor einhvern tíma og í gær reif ég allt plastið utan af því og lagði það svo til hliðar. Ákvað að Skakki fengi heiðurinn af því að raða og setja upp. Ég ákvað þetta í ljósi þeirrar minningar er ég kippti síðasta ljósinu niður úr kofanum mínum á Borgó þar sem ég endaði með því að kippa svo rækilega í ljósið að rafmagnið fór og það varð að fá rafvirkja til að laga málin. Já já ég veit að við höfum aðgang að góðum rafvirkja en það er samt ágætis hugmynd að ég bara láti svona hluti vera. Það sparar tíma.

18 júlí 2007

Nú þurfum við að fara að spýta í lófana. Við þurfum að barnverja heimilið því hér eru lausar glerhillur og geisladiskar og skraut um allt. Ábyggilega mjög freistandi fyrir litla konu. Við þurfum líka að fara að kaupa hluti eins og kerru og bílstól og ekki gleyma því að okkur vantar líka svona einfalda hluti eins og sæng. Við erum svo græn að við vitum ekkert hvað svona börn þurfa. Held að kerrubúðarkonunum finnst ég mjög skrítin þegar ég er að prufa kerrur fyrir 18 mánaða og spyr eins ég hafi aldrei komið nálægt svona apparati áður (sem ég hef ekki gert). Þetta er fyrsta erfiða ákvörðunin sem þarf að taka: Hvernig kerru? Á þetta að vera kappaksturskerra (molinn vill það), á þetta að vera kerra með þremur hjólum eða fjórum, hörðum dekkjum eða dekkjum með lofti, rauð eða græn, þetta er nóg til að maður fái ákvörðunarfælni á háu stigi.

Og svo er það herbergið. Ég fór að skoða húsgögn fyrir litlar stelpur og í fyrstu búðinni var ein einföld bókahilla dýrari en öll bókasamstæðan sem við keyptum fyrir okkur haha þetta er ekki alveg normalt. Að vísu var hillan flott en komm onn, við erum að tala um húsgagn fyrir smábarn!

Og það þarf að þvo fötin og kaupa svona hluti eins og rúmföt og handklæði og svona. Þetta er mjög skemmtilegt, mér finnst sérstaklega skemmtilegt að fara að þvo öll þessi litlu föt. Ég held ég eigi sokkabuxur þar til litla Yun verður 10 ára haha og samfellur fyrir öll börn sem fæðast í fjölskyldunni næstu 60 árin! Yun heppin að þurfa ekki að kaupa neitt svona fyrir sín börn í framtíðinni því ég er búin að því! Sko mig ég er allt í einu stokkin mörgum áratugum fram í tímann!

17 júlí 2007

Doktorinn átti fertugsafmæli í gær og bauð okkur í grill. Molinn settist niður og teiknaði að eigin frumkvæði þessa mynd fyrir okkur Skakka:

15 júlí 2007

Við erum að lenda aftur! Við erum búin að vera í einhverri sæluvímu síðan á fimmtudagskvöld og í gær hittum við hópinn okkar og fórum að ræða væntanlega ferð og þá sökk þetta endanlega inn. OH MÆ GOD! Við eigum litla dóttur í Kína. Litla dóttur sem er þegar orðin all sjálfstæður persónuleiki og er t.d. sögð mjög mannblendin og ÞVER! Ha? Þver? Skil það nú ekki alveg eins og við Skakki erum nú lítið þversum haha. Hún virðist vera mjög dugleg og fer t.d. seinna að sofa á kvöldin en við (ok smá orðum aukið en hún fer samt mun seinna að sofa en íslensk smábörn, verður gaman fyrir þverkálfa fjölskylduna tilvonandi að díla við það hihi).


Stressið sem fylgdi símtalinu góða var ólýsanlegt. Meðan ég beið eftir að Skakki HJÓLAÐI heim þá þeyttist ég um íbúðina og leitaði að einhverju sem skipti engu máli, ég vissi ekkert hvað ég var að gera. Ég mundi samt eftir myndavél en það er bara af því ég beið svo lengi eftir honum. Á myndinni hér að neðan erum við að bíða eftir að vera kölluð inn til að fá myndirnar okkar og eins og sést erum við EKKERT stressuð að sjá. Bæði með samanherpta líkamstellingu og úti að aka. Þegar við vorum svo loksins kölluð inn og G spurði hvort við vildum fyrst fá upplýsingarnar eða fá að sjá myndirnar. Myndirnar takk! Og þegar hún lagði þær á borðin þurrkaðist herbergið út og það hvarf allt nema myndirnar á borðinu. Þetta litla alvarlega andlit sem starði á okkur af myndunum og á þessari stundu varð mér ljóst að ég mundi ganga í gegnum eld og brennistein fyrir þetta barn. Og samt hef ég aldrei séð hana nema á mynd ;) Hvernig verð ég þegar við fáum hana í fangið?


Það eru 8-9 vikur þar til við förum út. Það þarf ýmislegt að gera áður en lagt er af stað þannig að ekki veitir af tímanum. Við þurfum að kaupa fleiri föt. Hún er eldri en við reiknuðum með þannig að minnstu fötin passa ekki en það er allt í lagi. Við kaupum bara önnur. Það verður skemmtilegt að fara og kaupa föt á barn sem ekki er lengur bara til í huganum á mér heldur er komið andlit og persóna. Sjálfstæður lítill einstaklingur.


Já og eitt enn. Við förum í september. Nákvæmlega einu ári síðar en við reiknuðum með. Ekki september 2006 heldur september 2007 og... í Kína er misheitt þar sem þetta er ógnarstórt land. Það eru samt þrír staðir sem eru taldir þeir allra heitustu og... og þetta er einn þeirra haha það verður gaman fyrir okkur rauðþrútnu albínóana sem förum inn þegar hitinn fer yfir 15 stig...Anna og Skakki bíða eftir að komast að:


Powered by Blogger