Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

03 júní 2005

Náði í Molann á leikskólann í gær. Mamma hans var að stefnumótast eitthvað uppi í sveit. Hann fór á kostum. Hann tók t.d. eina yfirferð á skrautmunum frænku sinnar og rakst þar á meðal á allsbera karlmannsstyttu. Hann starði lengi á kynfæri styttunnar og leit svo niður eftir sér og síðan á mig. Ég svaraði auðvitað "já hann er alveg eins og þú" og við það brá engum togum drengurinn reif niður um sig buxurnar, niður með sokkabuxurnar og reif í bleyjuna þar til hún losnaði og byrjaði að bera saman. Karlmenn eru sem sagt uppteknir af þessu líffæri og samanburði frá upphafi...

Þegar við fórum heim tókum við með okkur poka úr leikskólanum sem innihélt listmuni úr leikskólanum. Við tókum hann með inn og hann tók allt upp og sýndi mér og Tóta og þá hringdi mamman. Tóti setti hana á spekaer og þá var það sem sonur hennar fór á kostum. Hann byrjaði á því að segja henni að hann væri með myndir úr leiksólanum. Hún hljómaði hrifin og þá greip hann myndirnar eina af annari og setti þær upp að símanum og beið eftir viðeigandi hrifningarhljóði. Það þýddi ekkert fyrir okkar Tóta að reyna að stoppa hann því hann urraði á okkur og hljóp undan. Eftir smástund kallaði ég að ég væri að fara heim aftur og skipti þá engum togum að drengurinn tók símann og kyssti innilega á skjáinn. Ég fékk ekki svona fínan koss eins og símaskjárinn!

02 júní 2005

Nú fer alveg að líða að því að ég fái að vita hvort ég náði í skólanum eða ekki. Mér skilst að prófdómarinn eigi að skila á morgun og ég vona að það sé rétt þannig að ég geti notað helgina til að eyða sorgum mínum ef ég hef ekki náð. Tók jeppann í tog í gær og dró hann um sveitina. Mjög gaman og Skakki fílaði sig eins og hann væri að jeppast. Kannski er það bara nóg að setja band í drusluna (jeppann, ekki Skakka) og draga hann svona einu sinni í mánuði? haha Honum á ekki eftir að finnast þetta svara vert.

01 júní 2005

Rosa langaði mig að vera í fríi í morgun. Sól í heiði og allt það. En af annáluðum dugnaði reif ég mig upp og skellti mér í vinnu eftir að hafa tekið soldið til í eldhúsinu meðan ég hlustaði á fréttir. Ég er nefnilega á leið til Selfoss. Það ætti nú að vera gaman. Ég ætti kannski að kíkja á hús í leiðinni? Það eru allir að segja mér að það sé ekkert langt að keyra frá Selfossi í vinnuna í Rvík. Að vísu trúi ég því ekki en það er önnur saga!

30 maí 2005

Í gær gerðist bóndinn ofvirkur mjög og vaknaði fyrir allar aldir og brá sér til veiða. Hann varð ekki var og kom því heim aftur (enn var klukkan fyrir allar aldir) og vakti þreytta konu sína og rak hana á fætur og sagði þau vera á leið í fjallgöngu. Ég, undirrituð vaknaði því við illan draum og hrökk fram úr og í gönguskóna. Við brunuðum upp í Hvalfjörð með smá viðkomu í sumarbústaðalandi til að skoða hvar við vildum eiga bústað og enduðum við Glym. Þar er hægt að labba nokkar leiðir og valdi minn ástkæri eiginmaður að labba UPP fjallið og UPP og UPP. Þetta var mjög gaman. Ég staulaðist hægt og rólega meðan Skakki þeyttist tindilfættur um alla stíga og veinaði reglulega eitthvað um fallegt útsýni og fuglasöng. Ég stoppaði eitt skiptið til að hlusta á sönginn og fannst hann eitthvað skrítinn: "Hvaða fugl er þetta?" ..."Hvað meinarðu, þetta er lóa og spói"
Hmmm ég hlustaði og skildi ekki alveg hvernig hann heyrði í lóu þegar ég heyrði bara dunk dunk dunk, uns ég fattaði að þetta var hjartað sem var fast í hálsinum á mér. Þar sem ég másaði á eftir honum leit hann við og sagði "er þér heitt?" ég umlaði eitthvað til svars og þá sagði hann mér að ef ég fækkaði eitthvað fötum þá yrði þetta ekki eins erfitt. Ha? Fækka fötum? Þegar hann hélt áfram göngunni reif ég mig úr öllum fötunum og skokkaði á eftir honum, svei mér ef þetta er bara ekki rétt. En mikið assgoti var skrítinn svipurinn á fólkinu sem við vorum að mæta.....


Powered by Blogger