Nýjustu fréttir af Bootcamp tímanum sem ég rétt lifði af þarna um daginn. Einn af félögum mínum (háttsettur í fyrirtækinu sko) lifði armrétturnar ekki af og það leið yfir hann haha ég var ekki svo slæm þó ég viðurkenni að ég var alger hryggðarmynd. Og það skal tekið fram að ég átti svo gjörsamlega nóg með mig og mínar æfingar að ég tók ekkert eftir því að einn af vinnufélögum lá þarna í dauðateygjunum. Segið svo að maður geti gert tvennt í einu!
Og í gærdag (laugardag) var ég varla með réttu ráði vegna þess að harðsperrur miklar og ógurlegar höfðu heltekið líkama minn. Ég var með verki í neðri OG efri maga, lærvöðvum framan og aftan, upphandleggjum, brjóstvöðvum og einhverjum fleiri sem ég veit ekki hvaða gagn gera en ég fann til í þeim öllum. Því miður komst ég ekki tímann á laugardeginum þar sem það var vinnuferð sem stóð allan daginn (en við vorum í leikjum í tvo tíma sem komu smá í staðinn fyrir þetta) en laugardagstíminn var víst það versta sem menn höfðu lent í leikfimilega séð.