Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

09 mars 2007

Ég get ekki lengur hugsað mér að laga til, ég er nefnilega að fara að flytja. Ef íbúðin fæst ekki laus fyrr en 01 júní verður draslið orðið all svakalegt!

Ég er á fullu við að búa til viðskiptaáætlun fyrir ímyndaða fyrirtækið mitt og eftir einn fund í gær fékk ég óformlegt tilboð um samstarf við stóran aðila. Púff það endar með því að ég verð að gera eitthvað í þessu. Ég átti ekki alveg von á þessu eða að hugmyndin mín þætti góð því í rauninni eru til mörg svipuð fyrirtæki þó ekkert alveg á sömu nótum og það er auðvitað það sem sker úr. Næsti mánuður sker úr um það hvort ég læt slag standa.

Við Skakki erum farin að þræta um málningu. Já já það er svo gaman hjá okkur alltaf og nú er það eina sem hrjáir okkur að við getum ekki komið okkur saman um liti. Annað okkar er litaglatt með eindæmum (ég segi ekki hvort og veit að enginn getur giskað) meðan hitt vill ekki liti (segi heldur ekki hvort það er). Þetta stefnir því allt í skemmtilegan mánuð þar sem við getum þrætt í rólegheitunum um liti og ýmsa smámuni. GUNZ ætlar að breyta einu herberginu fyrir okkur (salerni) og gera það krúttlegra en nokkuð sem sést hefur á þessari jörð (þetta er engin pressa haha). Gott að eiga systur sem er innanhúshönnuður skal ég segja ykkur!

08 mars 2007

Í janúar hringdi einhver frá Mogganum og bauð kynningaráskrift. Skakki ákvað að mér þætti skemmtilegt að lesa Moggann svona í atvinnuleysinu og sagði já. Ég settist niður og byrjaði að hlakka til. Tilhlökkunin stóð ekki lengi yfir því það kom bara eitt blað... einn laugardag. Þetta var sem sagt kynningaráskriftin. Skakki sagði mér að hringja og kvarta en ég nennti því ekki því mig langaði ekkert í þessa áskrift hvort eð var. Nema svo líður og bíður og í vikunni hringdi einhver kona til að athuga hvernig mér hefði líkað kynningin. Ég sagði sem var að þetta eina blað hefði verið fínt en ég gæti náttlega ekkert dæmt um hvernig blaðið hefði verið hina dagana. Nema konan verður svona fjúkandi reið og haugskammar mig fyrir að hringja ekki og láta vita. Hvrning þeir eigi að vita að blaðið komi ekki ef enginn láti vita. Ég sagði henni á milli skammanna að mér væri eiginlega alveg sama og hvort það væri virkilega mér að kenna að blaðið hefði ekki komið? Þetta hefði verið kynning frá þeirra hálfu og fyrir mig væri það ágætis kynning til að kaupa EKKI blaðið, ef þeir gætu ekki sent það til mín þegar um kynningu væri að ræða og þeir að reyna að lokka mig til sín hvernig í ósköpunum ég ætti þá að draga þá ályktun að blaðið kæmi eitthvað frekar þó ég borgaði fyrir það? Þetta væri kynningin sem ég þyrfti. En þetta gerði konuna bara reiðari og hún var virkilega ósátt við mig. En í lok samtalsins sagði hún samt: Jæja en við erum með kynningartilboð þar sem fólk borgar bara xxx hefður þú áhuga... nema þarna greip ég fram í fyrir henni og spurði: "helduru virkilega að ég hafi áhuga???" ... Ég sem sagt kaupi ekki Moggann í dag!

07 mars 2007

Við erum búin að skrifa undir og borga fyrstu greiðslu!! Læf is bjútífúl. Og það getur verið að við fáum afhent fyrr en til stóð, fáum að vitað það síðar í þessum mánuði. Nýja íbúðin okkar verður á hæsta hólnum hérna í sveitinni þannig að við getum fylgst með öllum okkar nágrönnum (og ættingjum Skakka) að ofan. Ég hef nú fjárfest í forláta kíki svo þetta verði auðveldara!

Ég fékk nú smá taugaveiklunarskrekk varðandi það að flytja kannski eftir einn mánuð og sé fram á að þurfa að hafa hraðar hendur við að henda úr geymslunni! Góðu fréttirnar eru þær að þá er fólk ekki farið í sumarfrí og hefur ekki afsakanir með að geta ekki hjálpað (Einsi minn þetta er dapur dagur fyrir þig) hehe

06 mars 2007

ÉG GLEYMDI EINU: Kínverjarnir eru búnir að afgreiða umsóknir til og með 24. okt 2005. Styttist óðum í okkar umsókn (14.nóv2005).

Smíðanámskeið í gærkvöldi og það stóð til 23.30!!! Já read this and weep... bara fram eftir öllu kvöldi. Ég held að almennt hafi enginn þorað að fara heim af því ég skammaðist yfir síðasta námskeiði þegar allir nema einn fóru heim klukkan 22. Nú þorði engin að fara fyrst hehe enda lauk þessu á skemmtilegum nótum og ef við hefðum ekki hætt á þessari mínutu sem við hættum þá hefðum við látið Hrefnu logga upp tölvu svo við gætum pantað okkur miða í húsmæðraorlof til Döblin, eða Amsterdam eða bara til London með MAB. Hættum við þá ráðgerð þegar við gerðum okkur ljóst sjokkið sem Thor fengi er við birtumst allar í mótórhjólabúðinni og færum að hjálpa þeim að velja föt. Við erum nefnilega vænar konur svona innst inni. Vorum líka soldið hræddar um að það yrði erfitt að útskýra fyrir okkar öðrum helmingum hvers vegna við ættum orðið þetta líka fína mótorhjólaátfitt en engin hjól (nema Freydís ofcourse sem þeysir um allar heiðar í skjóli nætur).

Ég lofaði að herða mig við bloggskrif eftir miklar skammir og þó ég reyndi að verja mig með því að segja að það gerðist ekki margt hjá mér í augnablikinu (atvinnulaus grasekkjuhúsmóðir) þá var mér sagt að það væri nákvæmlega ENGIN afsökun ég gæti bara skrifað "ég er enn á lífi". Sem sagt ég er enn á lífi hehe

Skakki er að vísu kominn heim, birtist á glugganum seint í gærkvöldi og bað um að vera hleypt inn. Ég var að nærri búin að hringja á lögguna til að láta hirða þennan gluggagæi þegar ég fattaði að ég þekkti röddina. Hann heppinn þar!

05 mars 2007

Nýr dagur nýir vinningar!

Agalega getur verið erfitt að setja niður markmið. Hvernig fer fólk að því að skella fram markmiðum með tímasetningum og fleira án þess að blikna? Ég er gjörsamlega lost í þessu drasli! Markmiðin út af fyrir sig eru ekkert svo erfið en allt sem þarf að fylgja þeim... ú la la best að halda áfra, þetta vinnur sig ekki sjálft !


Powered by Blogger