Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

17 mars 2006

Ég er í sjokki!!!!!!
Algjöru sjokki!!!!!

Hérna sat ég í algeru letikasti og nennti ekki að vinna. Ekkert athugavert við það og slæ því á þráðinn til SM vinkonu minnar. Við erum nefnilega að fara í bústað og þurfum ýmislegt að græja.. kokteila og kakó og bubblur í pottinn og svona fleira smáræði. Við röbbum svona saman eins og kvenna er siður, fórum út um víðan völl: Töluðum um bústaðinn, og pottinn og almenn kvenlegheit og kokteila. Þegar hún fer að flissa og flissið breytist í geðveikishlátur. Ég veit náttúrulega ekki hvaðan á mig stendur veðrið og spyr hvað sé svona fyndið og hún hlær og hlær. Ég verð að viðurkenna að það fór að fara um mig undarlegur hrollur því ég heyrði greinilega að hún var að hlæja á minn kostnað. Loksins gat hún stunið á milli hlátursroknanna.. "lífstílsbreyting hahaha"

Ég: ????
SM (hlær áfram): JÁ
Ég: Hjá hverjum? og hvernig?
SM (er greinlega að deyja): Á þér fíflið þitt.. hlustaðu á sjálfa þig...
Ég: ?? ha?
SM: Já.. þú og leikfiminn.. þú ert farin að vakna á undan klukku til að fara í LEIKFIMI og þú tekur ákvörðun að mæta ekki einn morgun og færð EKKI samviksubit af því þú veist að þú ferð næsta mánudag..
Ég: Oh mæ GOD! ohmægod.. getur það verið..hvað gerir maður?
SM: HAHA þú verður bara að lifa með því að þetta er orðið lífstill hjá þér HAHA og þú hefur alltaf sagt að þú GÆTIR þetta ekki

Ég er skelfingu lostin. Getur þetta verið? Hefur orðið lífsstilsbreyting og þykir mér nú sjálfsagt að mæta fyrir allar aldir í leikfimi????

15 mars 2006

Ég er kominn með lykilinn minn dýrmæta. Við Skakki lögðum land undir bíl í gærkvöldi, stilltum GPS tækið og keyrðum inn á frumskóga Kópavogsbæjar og fundum nýju íbúðina hennar Mundu. Við höfðum heyrt að það tæki leigubílstjóra um 1,5 tíma að finna húsið þannig að við þorðum ekki öðru en tæknivæðast. Og þetta var ekkert mál: tækið pípti við hverja beygju og allt í einu vorum við stödd við rétt hús. Pís of keik. Ég gæti leibeint ykkur á hvaða góðviðrisdegi sem er (as if)!

Og nú ætla ég að snúa mér aftur að fyrirlestrinum mínum og reyna að klára hann!

14 mars 2006

Það eru engin takmörk fyrir brjálsemi minni. Ó nei! Í gær býsnaðist ég yfir því að þurfa að vakna klukkan 5.30 til að fara í leikfimi, í dag vaknaði ég SJÁLF klukkan 5.30. Reyndi að sofna aftur en eftir að hafa bylt mér í 15 mínútur gafst ég upp og fór fram. Af vana fór ég í íþróttafötin, drakk mitt vatn og gleypti í mig vítamín og át bananadruslu. Áður en ég vissi af var ég á leiðinni út í bíl með bakpokann á öxlunum, alveg til í slaginn. Dekkið á bílnum var hálfvindlaust og þurfti ég að byrja á því að fara og pumpa. Ég sá konuna á Stöðinni leggjast á rúðuna til að sjá hvort ég væri einhver brjálæðingur sem ætlaði kannski að sprengja loftið og dæluna (hvaða fífl er á ferðinni rétt um sex að morgni að pumpa í bílinn sinn???).

og þetta er ekki allt!

Nei brjálsemi mín felst ekki bara í því að ég vakna af sjálfsdáðum meðan fuglarnir sofa enn og langt er í sólina. Nei í gær fann ég ekki minnislykilinn minn. Ég þarf að nota hann því ég er að fara að halda einhvern þrumu fyrirlestur á ráðstefnu á fimmtudag. Ég snéri öllu við. Leitaði í draslinu í vinnunni, skoðaði fiskabúrið ef ske kynni að einhver hefði hent lyklinum þar ofan í, leitaði allstaðar. Var orðin verulega pirruð á þessu og farin að hafa smá áhyggjur þegar Skakki hengslaðist fram hjá mér og ég hvessti á hann augunum og krafði hann sagna um lykilinn minn. Sem hann auðvitað hafði ekki hugmynd um, hvernig á hann að vita hvað ég geri við dótið mitt? Hann sagði hinsvegar: "Ég hef ekki séð hann í lengri tíma"
Ég hnussaði nú yfir því, þar sem ég er alltaf að nota þetta apparat og get ekki verið lengi án þess. Ég fór samt að hugsa um hvar ég hefði notað hann síðast og allt í einu mundi ég það!!!
OH MÆ GOD!!!!

Ég notaði hann síðast 7.febrúar í FG þar sem ég var með fyrirlestur og GLEYMDI honum í tölvunni! Og ekki nóg með það heldur hafði ég hringt í skrifstofuna og beðið kellurnar að kippa lyklinum til sín, hafði síðan komið skilaboðum til B.Rebekku og beðið hana að kippa honum með sér þar sem hún er samviskusamur nemandi í skólanum (samviskusemi hennar kemur að vísu þessari sögu ekkert við). og hvað hafði gerst næst? Jú frúin hafði samvikskusamlega GLEYMT öllu málinu þar til 13. mars. Rúmum MÁNUÐI síðar. Ég spyr enn, er hollt að vera í líkamsrækt???

13 mars 2006

Mars að verða hálfnaður! Fyndið að telja svona niður vikurnar og bíða eftir haustinu. Á morgun erum við búin að bíða í FJÓRA mánuði (+ auðvitað allan hinn biðtímann). Held ég hafi aldrei beðið eftir einhverju með svona svona mikilli óþreyju og lítilli einbeitingu á lífinu í kring en mér skilst að ég sé ekki ein um það. Hitti fólk í gær og þar er líka þetta gríðarlega einbeitingarleysi og BIÐtilfinning. Tekur auðvitað allt enda en suma daga er biðin miklu verri en aðra daga. Held ég ætti kannski að fá mér morgunmat núna og reyna að skrifa aftur þegar ég er búin að fá smá orku...


Powered by Blogger