Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

01 júlí 2005

Þá eru bara tvær vikur þar til ég fer í langþráð frí. Ég er meira segja svo langþreytt á því að vinna að ég er farin að skoða atvinnuauglýsingar á fullu þó ég viti að ég geti ekki skipt um vinnu núna. Það skrifast því bara á löngun að komast í frí held ég. Í gær reyndi ég að búa til rice krisp köku handa fermingarbarninu. Ég veit ekki hvernig það tekst en það leit hálfsorglega út í morgun þanig að ég skellti öllu í ísskápinn í morgun og vonast eftir því að eitthvað lagist meðan ég er í burtu. AS IF..

Núna langar mig í prinspólo, spurning hvort ég eigi að stelast í bæinn og sækja hringinn minn og fá mér póló í leiðinni. hmmmm

30 júní 2005

Hornhöfði 4 vindstig, veðurskeyti vantar frá Máná!
Mig vantar sumar og sumarfrí!
Ég er þreytt!
Ég er búin að fá hundleið á ræktinni!
Ætti ég kannski bara að fá mér hund?
Það gengur ekki því ég bý í blokk þar sem hundahald er bannað ásamt öðru dýralífi. Ég slapp samt, en kannski hefur enginn fattað hvernig ég er!

Hvernig er það með ábyrgð foreldra á börnum sínum? Nær þessi ábyrgð út yfir gröf og dauða eða bara fram að þeim tíma? Hversu lengi þurfa foreldrar að vera til staðar til að samþykkja það sem börn þeirra eru að framkvæma?

Í næsta lífi ætla ég að vera stjórnmálamaður ég er hætt við að ætla að vera fluga!

29 júní 2005

Þriðjudagsgönguvinafélagið hélt í þriðjudagsgönguferð að venju í gærkvöldi. Bættist einn gönguvinur með í för Hjartað og hélt hún af einhverjum misskilningi að gönguför okkar yrði stutt og hugguleg og hafði hún ekki einu sinni með sér vatnslögg sem er lágmarksviðbúnaður í þriðjudaggönguvinaklúbbnum. En sem sagt við gengum í 2 tíma og 40 mínútur og afrekuðum að leggja að baki 5,70 km sem telst nú bara allgott hjá sófakartöflum eins og minn annars ágæti heimilislæknir segir. Ferðalýsingin sést betur hjá Hjartanu þannig að ég fer ekkert að endurskrifa það. Vildi þó koma því að að þetta blessaða merki sem við leituðum að á nokkurra ferkílometra svæði ku vera innan við 100 metra frá hinu næsta við hliðina huh
Málið er hinsvegar að meðlimir þriðjudagsgönguvinaklúbbsins eru ekki (understatement) mjög flinkar að lesa á kort. Þegar kortin eru dregin upp þarf að byrja á því að taka mið af Hafnarfirði, leita síðan að Esjunni sem af alkunnri hógværð felur sig bak við einhverja hóla, snúa sér síðan í nokkra hringi eða snúa kortinu á hvolf og þá fyrst er hægt að fara að leita að kennileitunum. En við erum samt nokkuð ánægðar með okkur því á þessum ferðum erum við þegar búnar að kryfja landspólitíkina eins og hún leggur sig og fara yfir helsta slúðrið í fjölmiðlum og leggja á það blákalt mat. Sem sagt árangursríkar ferðir!

28 júní 2005

Þriðjudagsgönguvinaklúbburinn fer af stað í kvöld að venju þrátt fyrir rok og aðrar hrakspár. Ekki er búið að ákveða hvert stefnan verður tekin en það kemur í ljós. Skórnir eru tilbúnir ásamt stuttuxum því það er við hæfi í göngum sem þessum. Félagar klúbbsins mundu sóma sér flott í svissnösku Ölpunum í tríólabuxum með hatta með fjöðrum. Jahá!

Það eru allir að fara á Duran Duran tónleika. Undirrituð verður að viðurkenna að hún hefur aldrei hlustað á þessa hljómasveit og veit næsta lítið um hana annað en tveir meðlima heita Taylor en eru þó ekkert skyldir að öðru leyti. Það var því aldrei nein spurning um að sleppa þessum tónleikum. Ég man þó að á tímabili var Kjötsúpan ægilega æst yfir Duran Duran best en ekki Wham. Ég náði hinsvegar aldrei að setja mig neitt inn í þennan æsing.

27 júní 2005

Í vinnunni er verið að venja mig við víndrykkju. Ég fékk í afmælisgjöf kerti með kampavínslykt og áðan komu þau færandi hendi með kampavínsflösku. Þetta heitir að þjálfa fólk upp. Næst fæ ég koníaksflösku sögðu þau en hættu snarlega við þegar ég sagði að það væri gott því við notum svo mikið koníak í sósur.

Ég er hinsvegar haldin miklu eirðarleysi því ég veit ekki hvað ég áð að gera næst. Þetta er erfitt. Ég nenni ekki að læra meira, allavega ekki strax, best að leyfa þessu að sjatna aðeins fyrst. Eirðarleysið stafar sem sagt af því að ég sé fram á að veturinn er að nálgast og ég hef ekkert að gera. Allar tillögur eru vel þegnar en ég nenni hinsvegar ekki einhverju megaföndri. Það er ekki alveg ég þannig að allar tillögur sem ekki leiða til mikils föndurs verða skoðaðar. Mig vantar verkefni!


Powered by Blogger