Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

26 júlí 2003

Í dag ætla Guðný og Sævar, vinir hauksins, að gifta sig. Til hamingju með það.
Dagurinn er annars búinn að vera ágætur fram að þessu (ekki það að hann sé neitt verri þótt þau séu að gifta sig), ég er meira segja búin að baka eina köku (er ekki viss um að margar konur sem búa með bökurum mundu gera það). Þetta er svona skúffukaka úr pakka (hehe) ægilega góð, þó ég hafi hvorki nennt að gera kremt né tímt að kaupa það í pakka.
Talaði við ástkæran bróður minn í Svíþjóð í morgun og lá svona ljómandi vel á honum. Dóttirin atorkusama var komin með kúst og byrjuð að þrífa bílinn því hana langaði að kaupa pez í pezkallinn sem segir wúha þegar hann opnar ginið! Og þetta er ekki hægt að gera nema í hreinum bíl. Annars talaði égvið fáfnisbanann líka og þá heyrðist mér sú stutta vera búin að gefast upp á bílnum (hmm svona erfitt að þrífa hann??) og farin að biðja um pönnukökur. Svona er lífið þegar mar er ungur.
Ég þarf hinsvegar að fara að spá í hverju ég ætti svona helst að vera í þessu brúðkaupi. Miklu auðveldara fyrir kallmenn. Ég er að hugsa um að versla mér eins og ein svona jakkaföt og nota þegar ég þarf að fara eitthvað svona í sparifötum! Þá þarf ég bara að passa að þau séu pressuð og fín í fataskápnum, eiga eins og eitt eða tvö bindi og ég gæti mætt hvar sem er. Ég á svo sem fullt af fínum fötum (að mínu mati) en mér er sagt að þau passi yfirleitt ekki við! Assgotans vitleysa, þau passa vel við. Annars á ég líka fullt af flottum fötum sem hafa hlaupið um nokkur númer (ég held að þvottavélin geri þetta). Ég tími ekki að henda þeim og er að reyna að velja í hverju ég verð jörðuð því eins og ég hef áður sagt ykkur þá liggur mar þannig í kistunni að ekki skiptir máli þó fötin séu klippt í tvennt því það er bara framhliðin sem sést. Ætla því að geyma þessi "hlaupnu" föt aðeins lengur en það lagar ekki vandamál dagsins í dag, í hverju á ég að fara í brullaupið?
Annars er ég nokkuð ánægð með hárið mitt þessa dagana, ég vaknaði einn morguninn orðin alveg ljóshærð (sofnaði að vísu þannig líka) og það var ljómandi fínt að vakna þannig, og hárið passar við þótt fötin geri það ekki, haha.
Haukurinn er að skríða upp úr baðinu (ætli vatnið hafi verið svona heitt) og liggur nú magnvana fram á handklæðarekkann (jöfla lygi í mér en þetta hljómar soldið skemmtilega og er líka myndrænt, finnst ykkur ekki?). Best ég hunskist í "gangandi fataskápinn" minn (walking closet) eða er það (walk in closet?) damn ég hef aldrei vitað hvort þetta er og er það eingöngu þess vegna sem ég á ekki svoleiðis fyrirbæri því maður verður nefnilega að vita hvað solleis heitir ef mar á einn. Nei minn er sko ekki gangandi, hann er grafkyrr og yfirfullur af "hlaupnu" drasli sem ég af einhverjum ástæðum kemst ekki í og fötum sem ekki passa við!

25 júlí 2003

Þá erum við komin til baka úr sumarfríinu okkar. Ég veit ekki hvort nokkur hefur tekið eftir því en við erum búin að vera í burtu í heila viku. Heila viku. Við fórum í sumarbústað í Borgarfirði bara tvö ein ;) og það var alveg rosalega fínt. Við erum búin að vera á fullu að gera ekki neitt þessa viku. Búin að skoða Borgarfjörðinn (við bæði), lesa fullt af bókum (ég), veiða fisk (haukurinn) og eitthvað smá svona fleira. Þetta var rosalega fínt. Veðrið var svona lala en hverjum er ekki sama. Kyrrðin í Borgarfirðinum, fuglasöngur og náttúra. Hvers fleira getur maður óskað? Ég veit það ekki, við erum mjög ánægð með þetta og fórum meira segja að leita að rótum hauksins (afi hans fæddist í Borgarfirði og er staðurinn í eyði í dag). Þar upplifðum við einstaka stund. Það tók okkur smá tíma að finna hvar býlið hafði staðið á mýrunum í Borgarfirði. Við gengum upp á hól til að horfa yfir landið alveg grunlaus um það hvað biði okkar. Þegar upp á hólinn var komið horfðum við yfir mýrlendi, það var þungt yfir, eiginlega einskonar þoka, mörg lítil vötn birtust okkur og yfir þeim sveimaði fuglager og hljóðin sem þeir gáfu frá sér voru ekki af þessum heimi. Þetta var eins og að horfa inn í mynd Hitckock "The Birds". Fuglamergðin var óendanleg og hljóðin ólýsanleg. Við stóðum heillengi alveg eins og nelgd niður og drukkum í okkur þessa sýn. Þegar við gengum niður af hólnum aftur, sömuleið og við komum hljóðnaði fuglahávaðinn um leið og þegar við vorum komin að bílnum sem var nokkra metra í burtu var ekki að sjá eða heyra að það þarna rétt hinum megin við hólinn væri allt annað líf!


Powered by Blogger