Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

27 janúar 2009

Það var eins og mig grunaði. Sá eini sem kemur til með að segja af sér er Björgvin G. Hinir ætla að sitja sem fastast enda eiga þeir enga sök á neinu. Þetta er bara eins og olíumálið þar sem Þórólfi einum var fórnað, hinir sátu og hreyktu sér áfram.

26 janúar 2009


23 janúar 2009

Það eru aldeilis tíðindin. Sjálfstæðisflokkurinn vill kjósa í maí. Og formenn greinast með æxli hægri og vinstri. Ekki langt síðan Davíð var á sjúkrhúsi, Ingibjörg Sólrún er í meðferð og núna Geir. Ég held ég fari ekkert inn á þessa línu í starfsframanum.

Nú er spurning hvað gerist. Ef það verður kosið, hvar stöndum við þá? Ég sveiflast hér fram og aftur, skipti um skoðun eftir hvern ræðumann. En hinsvegar verður eitthvað að gera því mér finnst þessir menn ekki standa sig og enginn sætir ábyrgð eins og oft hefur komið fram. Ekki eins og í Olímálinu þar sem einum var fórnað fyrir heildina og hinir sátu áfram í peningahrúgunum sínum.

22 janúar 2009

Er ekki mál til að fara að opna tuðsíðuna mína að nýju? Hefur verið í pásu í lengri tíma því ég hef ekki haft neitt til að tuða yfir (jeah ræght). Núna er ég hinsvegar í miklu tuðskapi og ætla að nota þetta, hvort sem það verður í einn dag eða fleiri.

Ástandið á Íslandi er hörmulegt þessa dagana. Það eru ólæti og það sem ráðamenn kalla skrílslæti alla daga. Lögreglumenn slasaðir og svo framvegis. Við þessu mátti samt búast. Ef við horfum til annarra landa þá er þetta nákvæmlega þetta sem gerist þegar fólk verður langrþreytt. Íslendingar eru seinþreyttir til mótmæla. Yfirleitt tuðum við bara heima og gleymum okkur svo. Og það er það sem ráðamenn reiknuðu með að gerðist núna. það sem þeir virðast hinsvegar ekki hafa fattað er að tímarnir í dag eru ekkert venjulegir. það er ekkert venjulegt við það að í hverri einustu fjölskyldu eru einn eða fleiri að missa vinnuna. Það er heldur ekkert venjulegt við það að fleiri manns eru með svo háa greiðslu á lánunum sínum að það er margföld útborguð launin þeirra. það er ekkert venjulegt við það að í hverjum mánuði rýrna eignir fólks hægt og sígandi þar til ekkert er orðið eftir og fólk er allt í einu farið að borga með eignum sínum. Svo segja þessir háu herrar "við skiljum bara alls ekki þessi læti". nei einmitt, við skjum það bara ekki. Ég er farin að hlusta á útvarpið á morgnana á leiðinni í vinnuna og það hef ég aldrei gert áður. Í morgun hringdi einhver besservisserinn og taldi það aldeilis fráleitt að verðtryggð lán hækkuðu neitt að ráði. Þetta væri bara vitleysa. Það er á hreinu að hann er ekki með nýlegt lán ef hann er þá með nokkuð. Fáviti!

12 september 2008

Unginn er áskrifandi að blóðnösum. Þær koma undantekningarlítið á nóttunni. Vægast sagt mjög pirrandi því það verður allt útatað í blóði og við lítum báðar út eins og vel mettar vampýrur (blóðið fer yfir á mig líka). Við erum búin að reyna ýmislegt og tala við marga en ekkert virðist hafa áhrif á þetta. Í gær sá ég mér til mikillar gleði hvað er að: Það vantar í hana ying. Ó já, hún hefur of mikið af yangi! Þessa töfralausn sá ég í kínverskum matreiðsluþætti en stjórnandinn þar er frá Taiwan og lét þess getið í framhjáhlaupi að sem barn hefði hún alltaf verið með blóðnasir og amma hennar hefði uppgötvað þetta með yingið. Nú förum við bara að prufa. Mér finnst mjög merkilegt að geta slegið þessu svona fram: Unginn fær blóðnasir því hún hefur ekki nóg ying! Og til þess að laga þetta á hún að borða mikið af matvælum sem innihalda ying: Gúrkur (ojabara), tómatar (ok), melónur (já ok þó lyktin sé nú frekar vond) og svo framvegis. Nú er bara að fara að prufa!

11 september 2008

Það er nákvæmlega eitt ár í dag síðan við lentum á Ísllandi með þreyttan unga í fanginu. Þetta var daginn sem ég var svo þreytt að þegar ég var spurð í flugstöðinni um nafn Ungans þá gat ég ómögulega munað það. Mundi samt að það voru tvö nöfn og annað var kínverskt. Já, já hef oft verið þreytt en þarna toppaði ég sjálfa mig.

Unginn er búinn að sýna það og sanna að hún er enginn aukvisi og hún á eftir að plumma sig vel.

10 september 2008

Í gær hefði ég þurft að laga til heima hjá mér en ... ég heyrði af væntanlegum heimsendi og ákvað að ég ætlaði ekki að síðustu mínútunum í þessum heimi í það að laga til. Ætli ég neyðist þá ekki bara til að gera það í kvöld? Annars var nóttin frekar erfið. Unginn er enn í stuði yfir þessu leikskólamáli og sefur illa og út um allt. Það er ekki gott að vakna með hælana á einhverjum ítrekað í síðunni. Ég skal segja ykkur að það venst ekki einu sinni, manni bregður alltaf jafn mikið.

Það er maður á hjóli sem hjólar úr sveitinni á sama tíma og ég á morgnana. Ég næ honum efst á Kringlumýrarbrautinni! Ég ætti kannski bara að fá mér hjól, set ungann í kerruna sem keypt var í vor og hjóla....jei ég held ekki. Sá einn gaur áðan á svona liggjandi hjóli. Hvernig virkar það eiginlega? Verður maður ekki drulluþreyttur á að hjóla þannig? Og hvernig virkar það í brekkum, ég meina upp brekkur sko?

09 september 2008

Það tekur fjörutíu (40) mínútur að keyra í vinnuna á morgnana! Ég gæti alveg eins átt heima á Suðurnesjum, það myndi bara vera svipað. Allt í allt tekur það mig sem sagt tæpan klukkutíma frá því ég fer út úr dyrunum heima hjá mér og þangað til ég stimpla mig inn. Velkominn í heim raunveruleikans!

19 júní 2008

Ég er farin að hallast að því að ég sé alger blúnda og eigi bara að snúa mér að því alfarið. Í gærkvöldi var tiltektardagur í húsinu og ég mætti galvösk með ungann í annarri og hrífu í hinni. Þegar verkinu lauk var ég búin að kroppa eitthvað lítillega í hitt og þetta og komin með stóra blöðru á einn fingurinn. Ég er líka dofin í einum fingri (ekki blöðrufingrinum) og þessi dofi er búinn að vera síðan í gærkvöldi. Þetta er svona tilfinning eins og þegar maður setur blöðru og reyrir fast í lengri tíma, tekur hana svo af og þá líður manni hálfskringlega (ekki að ég sé alltaf að reyra um mig teygju en hef samt gert það hér á mínum yngri og vitlausari árum).

Ég er búin að fara og kíkja á nýju vinnuna og reyna að komast til botns um það hvað ég verð að gera. Hmmm, held ég verði að fara að æfa mig aðeins í markaðsfræðinni og sölumennskunni. Það er eiginlega bara gott á mig því ég hef alltaf sagt að ég sé nginn sölumaður en nú er ég sem sagt að fara að selja fiskibollur með öllu til vantrúaðra. En það verður engin ráðgjöf haha sem er eins gott því ég réð mig ekki í það. Fékk lánaða eina bók sem ég er að glugga í núna um btri kennsluhætti í háskólum, jájá fínar þessar fiskibollur bara!

13 júní 2008

Suma daga taka morgnarnir bara heilmikið á... þetta er einn af þeim dögum:

jei og vei... Það er síðasti dagurinn í vinnunni í dag. Hálf skrítið að koma ekki aftur eftir frí en nú tekur við næsti kafli og hann er líka spennandi. Næsta fiskibolluverksmiða haha

Sumarfríið hefst sem sagt mánudaginn 16.júní og því lýkur einhvern tíma í ágúst.

11 júní 2008

Ég hætti í þessu starfi eftir tvo daga. Áðan fékk ég risa blómvönd í tilefni af því. Ég er búin að vinna hér í 5 og 1/2 mánuð. Á síðasta vinnustað var ég í 8 ár og þar fékk ég ekki einu sinni 1 rós, hvað þá þakklæti þegar ég hætti. Spáið í því. Hvor staðurinn haldið þið að skori hærra í mannlegum samskiptum hjá mér? Einmitt!

Hjólreiðagarparnir hjóluðu niður að læk og sendu mér þessa mynd. Greinilega heilmikið jobb að gefa öndunum svo vel sé....

06 júní 2008

Sól, sól skín á mig (og það er kalt). Skólinn að verða búinn. Ég enn að heimsækja hina og þessa skóla. Skemmtilegt. Fíla mig bara eins og það sé ég sem er að fara að byrja í framhaldsskóla. Uss ég ætti nú í ljótu vandræðunum ef ég þyrfti að velja. En ég þarf þess ekki því ég hef lýst því yfir að ég sé hætt. jahá eða allvega þar til ég þarf að fara að læra grunnskólann með dótturinni.

03 júní 2008

Á milli viðtala hef ég legið yfir auglýsingum um ferðir til sólarlanda. Held að það sé bara vegna þess að það er sól úti og ég er inni. Sé okkur samt alveg í anda í sólinni með kaldan drykk og barnið undir sólhlíf að leika sér...mmmm.. notaleg tilhugsun.

Núna eru bara tæpar tvær vikur eftir fram að sumarfríi og þá verður legið í leti í margar vikur. Eða sko kannski ekki leti þegar maður er með einhvern sem pressar stöðugt á út-ferðir en svona það sem kemst næst því að vera leti.

30 maí 2008

það skal alveg viðurkennast að mér varð pínulítið um og ó í jarðskjálftanum í gær. Ég held að ástæðan sé sú að ég hef fylgst mjög vel með jarðskjálftunum í Kína og þetta var einhvern veginn einum of nálægt. Eftir á hugsaði ég náttúrulega mest til vinanna á Selfossi og í Þorlákshöfn. Það er óhugnanlegt að horfa á fréttir og sjá fréttamennina spyrja grátandi fólk um líðan þess og enn óhugnanlegra er náttúrulega að ég skuli sitja sem fastast og horfa áfram þó mér blöskri hvernig þeir láta. Svona er maður illa samsettur.

Nú er ég farin í yfirsetu á enskuprófi!

29 maí 2008

Agalega langar mig í eitthvað gott að borða. Ég er sem sagt ekki að tala um salat eða samloku. Samlokan væri kannski ágæt ef hún væri gerð af öðrum en mér. Ég er að bíða eftir úrslitum samræmdu prófanna en þau koma örugglega ekki í dag. Það er verið aðopna einhverjar risabúðir í Lindum í dag og ég sagði við minn ektamann í gær að það yrði örugglega örtröð þar, hvað svo sem allri kreppu líður. Íslendingar láta ekki einhverja kreppudruslu hafa áhrif á kaupgleði sína. Skakki var að senda mér sms en hann átti leið fram hjá og sagði að það hefði verið hópur fólks sem var þar fyrir utan að bíða eftir að komast inn. Jahá, og svo förum við bara og kvörtum við ráðgjafastofu heimilanna að við séum bara að fara á hausinn yfir háu lánunum okkar.

28 maí 2008

það eru greinilega ýmis kvekyndi þarna í skóginum


Unginn og pabbi eru í skógarferð og það er greinilega ekki leiðinlegt

Ég held ég hljóti að vera með síþreytu. Er hún ekki þannig að mar er alltaf þreyttur? Ég er þannig! Svaf í gær meðan unginn spilaði á tvö hávær pínaóspil við eyrað á mér og heyrði ekki nema einn eða tvo tóna af því. Mjög notalegt. Kannski var hún bara að spila vögguljóð?

27 maí 2008

Ég hef verið illa haldin af bloggsýki. Það lýsir sér þannig að ég hef bara ekkert að skrifa um. Það er nú ekki svo gott að ég hafi það nú svona dagsdaglega en þessa dagana er ég samt verr haldin af þessu "hef ekkert að segja" dæmi heldur en áður. Núna eru tæpar þrjár vikur í sumarfrí (voru 5 Hrönn ;) ) og síðan fer að styttast í næsta verkefni. Það var verið að boða mig á nýliðakynningu. Mikið ofsalega er gaman að fá svona boð og eiga að mæta en þurfa ekki að halda hana. Ég mun fara hoppandi og dansandi á þessa kynningu með bros aftur á hnakka.

Annars er ég þessa dagana að heimsækja skóla í fylgd verðandi nema við viðkomandi skóla að skoða hvað er í boði. Úff ef ég væri að byrja upp á nýtt væri ég með valkvíða á hæsta stigi og þó ekki. Ég myndi velja allt annað en ég valdi á sínum tíma. Fara allt aðra leið. Nú er ég svo sem ekkert leið yfir minni leið en ég skal samt viðurkenna að ef ég ætti að byrja aftur þá myndi ég gera annað.

Mikið langar mig annars í ný föt! Mig langar að henda öllum mínum fötum og endurnýja allt að nýju. Verst er að það kostar eflaust mikla mikla peninga huh... en maður má láta sig dreyma.

13 maí 2008

FIMM VIKUR
Fimm vikur
5 vikur

Jess...

09 maí 2008

Ohhhhh það er að koma löng helgi. Eftir ca 1 klukkutíma byrjar hún!!!! og þá eru eftir FIMM!!!!
Fór í sund með Beitluna í gær og hún tónaði alla leiðina: "mamma, Beitla, ba, kúha (nei það er ekki að kúka heldur kútar.. fer eftir samhenginu)" Hún hefur aldrei fyrr farið í sund en það var eins og hún vissi nákvæmlega hvert við værum að fara. Barnið er náttúrulega snillingur. Hún fór í sturtu eins og hún hefði ekki gert annað en fara í sturtu með fullt af fólki og svo brunuðum við í laugina þar sem hún naut sín í botn. Við förum sem sagt oft í sund í sumar, það er á hreinu.

Við erum líka búin að heimsækja leiksólann hennar og hún var í pössun á meðan og það var ekkert mál. Bara eins og hún hefði oft verið pössuð.

Jei hvað ég er fegin að það er komin helgi, var ég búin að nefna það?

29 apríl 2008

Þá eru samræmdu prófin loksins byrjuð. Fyrsta prófið í dag og það síðasta eftir rúma viku. Gott að þetta er byrjað og langt komið (sko Pollýanna mætt). Fegin er ég að ég þarf ekki að taka svona próf, ég væri ekki vel upplögð í dag. Unginn var nefnilega veikur í gær og nótt og við fjölskyldan sváfum því frekar illa (frekar er kannski pínulítil einföldun). Alltaf verið að hósta og gráta. Mig langaði á tímabili líka til að hósta og gráta en mar er nú svoddann töffari að það var bitið á jaxlinn og haldið áfram að hugga.

Ég er að skipuleggja seminar og mig vantar fyrirlesara. Ef þú hefur gaman af því að tala um sjálfan þig þá ertu velkominn að tala á þessu móti. Hafðu bara samband og ég skrái þig haha ég veit að nú á fólk eftir að slást um að fá að vera með!


Powered by Blogger