Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

28 janúar 2004

Ég er orðin gömul og grá. Að vísu veit ég ekki hversu grá, þar sem hárið hefur ekki verið ólitað síðan á árunum sem Gorbi kom til landsins, en það er hins vegar önnur saga. En ég er samt að komast að því eftir allan þennan tíma að ég er meira en lítið brengluð tilfinningalega. Ef ég fæ sjokk þá fer það ekki inn fyrr en mörgum vikum seinna eða ég þarf annað sjokk til að skilja hið fyrra. Þetta hljómar nú algjörlega óskiljanlega en svona er þetta bara. Þetta verður yfirleitt til þess að þegar ég svo bilast þá skilur fólk ekki hvað er í gangi því akkúrat á þeirri stundu á allt að vera komið í lag aftur.

Núna er ég búin að hafa þvílíkar áhyggjur af minnsta frændanum mínum, Gullmolanum. Það er nú komið í ljós að þetta er ekkert alvarlegt, lungnabólga og RS-vírus og ofan á asmann hans þá virkaði þetta enn verra en þetta var. Hann er í einangrun þar sem RS-vírusinn er svo smitandi og það getur verið lífshættulegt fyrir ungabörn að fá þetta. Það þýðir að stofan hans er lokuð og hjúkrunarfólkið verður að fara í gula sloppa þegar það kemur inn. Við erum beðnar að vera ekkert að þvælast frammi og vera í gulu sloppunum ef við förum fram. Það er sprittvökvi í herberginu til að þvo sér um hendurnar og við eigum að þvo okkur þegar við komum inn og aftur þegar við förum út. Þetta er allt saman soldið scary og ég held að ég sé á síðustu mánuðum að verða búin að kynnast spítölum betur en ég hefði viljað. Miklu betra að lesa bara í blöðunum hvað er að gerast í heilbrigðismálunum heldur en upplifa það sjálfur.

Og svona til að slá á léttari strengi þá verð ég að lýsa gleði minni með matinn sem Molinn fær spítalanum. Við erum að tala um eins og hálfs árs barn sem ekki hefur borðað síðan á laugardag. Hann er auðvitað með næringu í æð en fær samt matarbakka í von um að hann fáist til að borða. Í gær var á bakkanum hans tvær risa kjötbollur, 6 eða 7 kartöflur og rófur. Jamm mjög hvetjandi fyrir smábarn að borða soldið bara. Kjötbollur sem lyktuðu svo sterkt að það var eins og stigagangur í fjölbýlishúsi þar sem allir íbúarnir hefðu sameinast um að borða kjötfars og kál.

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger