Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

07 nóvember 2003

það er nú meira fúlviðrið úti. Við Armour vorum svo sykurskertar að við lögðum á okkur hlaup í rigningunni og alla leið í Bónus þar sem starfsmaður leiddi okkur í allan sannleika um það hversu góð kaup væru í mars eða snickers. Við ákváðum strax að kaupa ekki solleis því það væri örugglega að renna út á tíma. Hann (starfsmaðurinn tók sér þá dágóðan tíma til að lesa á fullt af stykkjum til að sýna okkur hversu rangt við hefðum fyrir okkur. Eiginlega höfðum við rétt fyrir okkur, sum renna út eftir mánuð. En þá má svo sem líta á það þannig að við ætluðum að eta það í dag (á eftir) en ekki eftir mánuð, so..en ég ákvað að kaupa frekar staur.

Ég er búin að vera að skemmta mér yfir mismunandi draslaragangi hér í deildinni hjá okkur. Borðið mitt er eins og það hafi orðið fyrir loftárás og það er alveg sama hvað ég geri til að reyna að laga það, það fer alltaf í sama form 5 mín síðar. Þetta er gjörsamlega óþolandi.

VIÞ samstarfsmaður minn er ekki með svona sjálfdraslerandi borð. Nei aldeilis ekki. Hans er alltaf alveg gríðarlega snyrtilegt og ég hef stundum verið að hugsa um að setjast frekar við hans borð (það er þegar mér ofbýður sjálfri draslið). Það sem kom mér til að hlæja var að í gær flýtti hann sér heim eða þannig. Konan sem skúrar kom meðan ég var enn að leita að einni týndri milljón í gögnunum mínum og hún ákvað að skúra þó við værum þarna (sem er hið besta mál auðvitað). Hún kallar til mín: „Var VIÞ að flýta sér eitthvað heim í dag?"

Ég fylltist þessum spenningi sem maður finnur til þegar maður fattar að samstarfsmennirnir eru ekkert skárri en maður sjálfur og inn í mér þá ljómaði ég af gleði yfir því að hann skyldi skilja eftir drasl. Ég kalla á móti: „ Ha, afhverju spyrðu? Er drasl hjá honum?" Uss það hlakkaði í mér, en ekki þegar svarið kom:
„Já það er TALA á reiknivélinni hans!"

Halló halló, þó það væri kveikt á minni reiknivél þá sæi konan ekki muninn. Hún sæi ekki einu sinni muninn þó ég færði bunkana til á borðinu. Hvert er réttlætið í svona?

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger