Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

28 júlí 2004

Afskaplega held ég að ríkisskattstjóri sé feginn að ég er til. Ef ég væri ekki til þá væri örugglega halli á "ríkissköttum". Ég er líka afskaplega fegin að geta greitt í framkvæmdasjóð aldraðra. Ég hef að vísu ekki hugmynd um hvað það er en það hljóta að vera framkvæmdir fyrir aldraða og þar sem ég verð öldruð einhvern tíma í ekki svo ónáinni framtíð þá tel ég ljóst að ég muni njóta góðs af þessum framkvæmdum. Mikil gleði ríkir því í hjarta mínu!

En hvar er rigningin sem ég er að bíða eftir svo ég get prufað hattinn minn? Ég var á tímabili að hugsa um að fara í sturtu með hattinn bara til að prufa en hætti við þegar ég hugsaði um svipinn sem hefði komið á Skakka. Nógu var hann rasandi á svipinn um daginn þegar hann sá sundbolinn minn hanga til þerris:

Skakki: "Kva, varstu í sundi?" (gleðisvipur því hann hélt ég væri að þjálfa minn fagra líkama)
Meinvill: "Sundi? Nei, nei.."
Skakki: "Nú, varstu þá að þvo bolinn?" (gleðisvipur horfinn en smá hissa svipur kominn í staðinn)
Meinvill með þolinmóðri röddu: "Nei ég var ekkert að þvo hann, ég var að máta hann"
Skakki: "Máta? En..." (skilningssljór svipur)
........
Skakki: "Afhverju er hann þá blautur?"
Meinvill (MJÖG þolinmóðri röddu) " Ég fór í bað í honum"
(Nú skal viðurkennast að svipurinn á Skakka var ekki lengur undrandi, hann var frekar eins og hann skildi ekki lengur íslensku og væri að reyna að skilja útlent tungumál þar sem mikilvægt væri að öll orðin skildust rétt)
........
Skakki: "Í bað?? Í bolnum?.. Ég..."
Meinvill (komnar smá rifur í þolinmæðina) "Já auðvitað fór ég í bað. Hvernig átti ég annars að vita hvort hann passar?"
Skakki er enn á svipinn eins og hann sé að íhuga að hringja á mennina í hvítu fötunum sem mæta með vesti þannig að fólk geti ekki hreyft hendurnar.
.......
Meinvill hnussar: "Auðvitað máta ég hann blautann. Hvernig á ég annars að sjá hvort hann passar? Ekki ætla ég að fara í sund í bol sem er alltof stór á mig. Það er ekkert að marka að máta þurra sundboli"

Það sem eftir var kvölds var Skakki þögull. Sá samt að öðru hvoru gaut hann augunum á mig og var  á svipinn eins og hann ætlaði að segja eitthvað en þegar ég leit á hann þá flýtti hann sér að líta undan.

Ég held ég máti hattinn ekki undir sturtunni!

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger