Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

06 mars 2008

Frúin er komin aftur í vinnuna og búin að taka á öllu í sambandi við innri líffæri. Enda búin að lifa á vatni og brauði til að laga draslið. Enginn sterkur matur eða feitur og það sem verra er ekkert pepsi light. Úlala enda hausinn búinn að vera í poka og er þar enn!

Unginn var ánægður að hafa mömmuna heima þó hún gæti ekki klifrað neitt á henni, skipti ekki máli svo lengi sem hún er í sjónmáli.

04 mars 2008

Í gærkvöldi "skaust" ég á uppáhaldstofnunina mína hér í bæ en það er Læknavaktin í Kópavogi. Ég þurfti að sannfæra mig um að ég væri ekki að dauða komin og þetta var eini staðurinn sem sér um slíkt á þessum tíma (eftir kvöldmat). Það var auðvitað brjálað að gera á færibandinu. Alls konar fólk sem beið en samt mest útlendingar og svo einstaka auðnuleysingi með kaupstaðarlykt og fötin sín í poka. Úff þetta lið er ekki öfundsvert að vinna þarna og þá er ég að meina vegna liðsins með kaupstaðarlyktarinnar. Einn var búinn að prufa alla stóla og reyna að tala við alla sem biðu. Heimsóknin kostaði mig 2.200 krónur og læknirinn potaði í mig með putta og lét mig fara að gráta. Sagði mér svo að fara heim og borða léttan mat. HUH? Já, já ég hefði getað lesið þetta sjálf á netinu og sparað mér 2.200 en ég treysti ekki minni sjúkdómsgreiningu, spurning að ég geri það samt næst. Lækninum fannst samt ástæða til að segja mér að fara með sýni næsta morgun og láta athuga hvort þetta væri ekki örugglega kannski bara allt í lagi (hún gleymdi að láta mig fá beiðni og þetta kostaði 1200 kall í viðbót). Lauk svo samtalinu með því að segja að ef mér versnaði mikið í nótt þá skyldi ég hringja og þá kæmi læknir í vitjun. JEAH ræt. Ég fór sem sagt aftur heim og gekk um gólf aðra nóttina í röð eða alveg þar til ég fann út að ég gat setið og sofið í lazyboy án þess að finna neitt rosalega mikið til. Vinnustaðurinn verður samt að vera án krafta minna í dag þar sem tvær nætur með ca 2 tíma svefni er aðeins of mikið til að ég geti funkerað rétt, plús að það er leiðinlegt að staulast um með harmkvælasvip eins og ég sé á grafarbakkanum.

Unginn er ánægð með að ég er heima og það er því einhver gleði í þessu öllu.

03 mars 2008

Við eigum 6 mánaða fjölskylduafmæli í dag og í tilefni þess verður eldaður matur sem ungfrúin elskar: Íslensk kjötsúpa. Annars elskar hún allar súpur, sérstaklega ef þær eru glærar eins og kjötsúpur. Við keyptum Kínamat á föstudagskvöldið og þar fylgdu með tveir skammtar af svona glærum soðsúpum með eggi út í (úuuuu ekki gott) og hún kláraði báða skammtana. Að vísu setti hún núðlur og hrísgrjón út í ásamt djúpsteiktum rækjum þannig að undir það síðasta var hún ekkert svo glær.

Ég fór í leikfimina með þeim feðginum á laugardag og það hafa ekki orðið neinar smáframfarir hjá henni. Móður hjartað fylltist stolti skal ég sega ykkur. Hún er bara sannur íþróttaálfur rétt eins og mamman haha


Powered by Blogger