Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

22 september 2006

Ég er komin með krónískan höfuðverk held ég. Ég vakna alla daga með hann og hann er að ergja mig meira og minna allan daginn. Hvað gerir fólk í svona tilfellum fyrir utan það augljósa að bryðja verkjatöflur eins og smartís?

Fór í fyrsta Bootcamp tímann í gær. Þegar 5 mín voru búnar af tímanum var ég komin með blóðbragð í munninn og lærin titruðu svo mikið að fólk hélt að það væri byrjað að hvessa. Og það versnaði eftir því sem leið á tímann. Hins vegar leið mér bara nokkuð vel í lok tímans. Í dag er ég með strengi en ekkert samt geðveikislegt. Þjálfararnir lofa því að eftir 5 vikur verði ég helmössuð eins og Magga Massi og Skakki heldur því fram að röddin hafi verið heldur dimmari í gærkvöldi en venjulega. Ég held hinsvegar að það hafi kannski bara verið kvef!

20 september 2006

Skjaldbakan stingur upp á Færeyjum sem áramótferð. Færeyjum! Jahérnamegin! Ég var nú sko meira að hugsa um eitthvað í tengslum við einhverja stórborg eða sólarströnd eða bara eitthvað allt annað en Ísland og Færeyjar er einum of nálægt Íslandi til að teljast með til útlanda. Huh!

Annars er ég með allan hugann við hengirúm þessa dagana. Við hjúin fórum á fyrirlestur síðasta fimmtudagskvöld og þar ráðlagði fyrirlesarinn okkur áheyrendum að hengja upp hengirúm (færeysk hvað annað!) til að örva ýmsa hreyfingatækni. Mér finnst þetta mjög spennandi og ætla að fá mér eitt slíkt en sé bara ekki alveg hvar það kemst fyrir. Það er þó þetta með suðurálmuna, hún er algerlega ómótuð í huga okkar þannig að kannski væri sniðugt að staðsetja hana þar... ásamt trambolíninu og hjólabrettinu. Já við erum að verða all tækjavæn og getum brátt sett upp sýnishorn af ýmsum hlutum sem æskilegt er fyrir foreldra ættleiddra barna að eiga (og klunnalegra sem eru flest öll börn í minni fjölskyldu og þar með talin ég sem er ekki lengur barn!). Ég hefði nú haft allgott af því að hanga einhvern veginn öfug úr hengirúminu og djöflast með einhvern bolta... hefði kannski læknast af boltahræðslunni og þar sem mitt barn á ekki að vera hrætt við neitt sem ég var (og er) hrædd við þá verða öll þau úrræði notuð sem minnsti möguleiki er á að geti hjálpað!!

Já og við eigum líka að kaupa bursta og erum búin að leggja inn pöntun fyrir einum slíkum. Hann er notaður til að gera eitthvað sem ég man ekkert hvað var en hljómaði mjög skynsamlega. Þegar ég verð komin með þessi tæki og tól mun ég setja upp auglýsingu um að einhver komi og kenni mér!!!!

19 september 2006

Við Skakki erum byrjuð að skoða útlandaferðir. Okkur langar að vera í útlöndum yfir áramótin. Það urðu nefnilega gífurleg vonbrigði svo ekki sé meira sagt þegar í ljós kom að barnunginn yrði ekki kominn heim fyrir jólin. Svo mikil að í rauninni get ég ekki hugsað mér að vera heima yfir þessi tímamót. Við vitum hins vegar ekkert hvar við viljum frekar vera. Í borg eða sveit eða hvar. Hinsvegar þurfum við að taka ákvörðun fljótlega svo við fáum flug þangað sem við förum eða þannig!

18 september 2006

Spurning dagsins er einföld en ég held að svarið við henni sé ekki eins einfalt: Er hægt að breyta eðli manna með einföldum hætti?

17 september 2006

Mikið agalega varð ég glöð yfir að það væri komin helgi. Föstudagur var dagur mikilla átaka og "confronteringa" og ég var svo gjörsamlega eins og undin tuska að það var engu lagi líkt. Hausinn var bara alveg tómur og hausverkurinn barði á dyrnar en ég hleypti honum ekki inn. Um kvöldið fór ég svoá stofnfund gellufélagsins þar sem markmið félagsins er að næra líkama og anda á einvherju góðu og skemmtilegu. Það var mjög gaman og bætti daginn algerlega upp.

Í gær var ég svo annarshugar og þreytt og hafði enga orku nema til að reika um Kringluna og toga í fataspjarir sem ég hvorki passaði í né hafði áhuga fyrir að eiga. En... ég rakst samt á góða konu sem leit svo vel út að ég féll algjörlega marflöt... Hrönn vinkona mín er búin að raka af sér allt hárið og ef ég væri karlmaður þá hefði ég fallið alveg mega fyrir fætur hennar. Í stað lét ég mér nægja að segja henni 10 sinnum hvað hún væri flott..forðaði mér svo áður en hún héldi að ég væri komin með afbrigðilegan áhuga haha Mig langar líka í svona en ég er bara með of feitan haus (ásamt öllu hinu).
SmileyCentral.com


Powered by Blogger