Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

09 maí 2006

Fyrir mörgum árum gekk ég Esjuna ásamt góðum vinum mínum Eldfinnu og húsasmiðnum. Þetta var einhver gönguhópur í leikfiminni hjá henni og þau máttu bjóða vinum sínum með. Það vildi enginn af þeirra vinum (okkar) koma með, nema ég að sjálfsögðu. Við fengum þetta fína stimplaða blað með hamingjuóskum að göngunni lokinni. Þetta var 16 maí 1996.

Í minningunni hefur þessi ferð verið ein sú al erfiðasta sem ég hef farið. Ég var auðvitað ekki í neinni þjálfun (frekar en venjulega) og er þar fyrir utan alltaf lafmóð ef ég þarf að fara upp eina tröppu. Það hefur ekkert breytst. En sem sagt, þetta var erfið ganga og ég komst upp eingöngu fyrir tilstilli þeirra hjóna því þau biðu eftir mér á hverri einustu þúfu á leiðinni og það þótt allir aðrir væru löngu komnir upp. Næstu dagar á eftir voru líka erfiðir því það lá við að ég væri rúmföst vegna harðsperra og almenns aumingjaskapar.

EN.. ég fann þetta plagg um daginn og sá að við svo búið mátti ekki standa og þó mér hefði tekist með undraverðri fimni að forðast Esjuna undanfarin 10 ár þá sagði ég óvart já við Skakka síðasta laugardag þegar hann sagði "eigum við ekki bara að labba Esjuna á eftir" Ég var eitthvað að vesenast með Molanum og vissi ekki fyrr en "jáið" hafið hrokkið út úr mér og þá var ekki aftur snúið.

Þegar við sátum í bílnum og horfðum upp eftir fjallsdruslunni fékk ég sting fyrir hjartað. Ég var viss um að ég yrði úti í þessari ferð, en ég var búin að segja já... Það er skemmst frá að segja að þetta var ekkert mál. Þetta er bara eins og GÁP segir "göngubretti með útsýni" (hann segir að vísu að þetta sé EKKI göngubretti með útsýni). Ég brunaði þarna upp (ok brunaði er kannski aðeins orðum aukið) en ég fór upp og það eina sem var að bögga mig var gamla góða mæðin. Mætti halda að ég væri gömul stórreykingakella þegar alþjóð veit að ég hef aldrei reykt og það er því eitthvað annað sem að mér er.

Ég er að hugsa um að fara aftur. Þetta tekur um 1100 hitaeiningar og það er bara gott svona í erli dagsins.

Þá eru tvö af tíu fjöllum sumarsins búin!!!

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger