Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

23 september 2005

Ég mætti í vinnuna til að stjórnast í einhverju námskeiði en þá var kennarinn veikur og ég er bara að hugsa um að fara heim líka. Ekki samt heim til hans því ég veit ekki hvar hann á heima. Fer bara aftur heim til mín, skríð undir nýhreinsuðu dúnsængina mína sem kostaði lungann úr vinstra auganu að hreinsa. En hún er góð eftir hreinsunina. Við erum eins og tveir litlir kjúklingar með þessar fínu dúnsængur. Vil bara helst ekki fara úr rúminu og fer því bara heima aftur hahaSick

22 september 2005

Ég held ég þurfi að fara að líta í kringum mig eftir annarri vinnu. Ég er orðin svo snúin og viðskotaill við fólk að það er ekki fyndið. Það er sko ekki lengur svarað með "ekkert mál ég skal athuga þetta" nei núna hreyti ég ónótum í fólk og þakka þeim kærlega fyrir að láta mig vita seint og illa af forföllum því heilt námskeið bíði eftir viðkomandi. Ég er eiginlega farin að skammast mín og finn að ég er komin með gubbu fyrir þessu öllu. Hvað gerir maður þá? Þó ég færi á annan vinnustað í samskonar starf þá er það sama sagan, almenn skynsemi segir mér það. Kannski er ég bara að brenna yfir. Hmmm hef einu sinni gert það áður og fór þá í þetta starf og núna er ég að verða búin að vera hér í sjö ár. Það er bara nokkuð mikið. Ég er meira segja farin að skoða atvinnuauglýsingarnar þó ég viti að þær hafi ekkert upp á sig eins og er. Ég bara nenni þessu ekki.

21 september 2005

Æi nú er bara eitt skipti eftir af göngunámskeiðinu og ég er alveg að verða búin að læra að ganga. Chili
Ég væri alveg til í að halda áfram.Það er boðið upp á framhaldsnámskeið og ég er að væflast með það hvort ég eigi að fara á það en það fer hinsvegar alveg eftir kennaranum. Það eru nefnilega tveir kennarar og ég sá í gær að það var STÓR munur á hópunum tveimur. Minn hópur rigsar um allt og sveiflar stöfunum eins og honum sé borgað fyrir það (eða hópurinn borgi), hinn hópurinn læðist áfram og virðist ekkert nota stafina. Ég vil því ekki fara á annað námskeið nema ég fái kennarann MINN. Svona getur mar orðið frekur með aldrinum, bara farin að gera kröfur í líkamsræktinni haha öðruvísi mér áður brá.

Annars er ég að fara á kajak á laugardag með vinnunni. Hlakka ægilega til þess. Við Skakki höfum nenilega verið að tala um að það gæti verið gaman að eignast svoleiðis fyrirbæri þegar við verðum búin að eignast bílskúrinn (einhvern tíma í framtíðinni). Það er ekki hægt að eiga kajaka nema eiga stað til að geyma þá yfir veturinn. Held þetta sé svakalega skemmtilegt og hlakka mikið til að prófa.
Lagoa Rodrigo De Freitas

20 september 2005

Fyrsti snjórinn er kominn! Fyrst byrjaði ég á því að pirra mig aðeins yfir því en svo fylltist ég gíga mikilli gleði því nú fer að styttast í sumarið og ferðinni til austurlanda. Er þetta ekki bara rétti Pollíönnu hugsunarhátturinn?

19 september 2005

Í upphafi sumarfrís voru sett ákveðin markmið sem átti að ljúka í sumar, sumt í fríinu og sumt eftir frí. Í gær lauk ég næstsíðasta markmiðinu og þá bara eitt eftir: Það var að labba 100 km, prjóna eina lopapeysu, labba a Helgafell og labba Esjuna. Í gær fórum við Skakki á Helgafell í frábæru veðri. Þetta tók enga stund en mikið svakalega finn ég til í rassinum. Ég notaði nefnilega stafgöngutæknina þegar ég labbaði niður aftur og það er að skila sér í geypimiklum verkjum. Mamma mia ég vissi ekki einu sinni að nákvæmlega þarna utan á rassinum væru vöðvar. Hélt þetta væri bara fitulag til að verjast harðri byltu. En sko markmiðið er auðvitað kúlurass þannig að ég hlýt að vera á réttri leið!

Þá getum við byrjað að hlakka til og mér líður nákvæmlega svona:
Girl 3
Það er alls ekki það að ég sé að dansa á táskónum í kringum einhvern heldur er ég bara svona glöð. Umsóknin okkar er komin á sinn stað með myndum af okkur við hin ýmsu störf (ekki berfætt, ekki með glös og engin dýr), allir stimplar komnir á sinn stað (nema auðvitað frá sendiráðinu en við þurfum ekki að sjá um það) og við vorum ekki síðasta fólkið í hópnum til að skila inn umsókn. Þannig að núna getum við byrjað að bíða og byrjað að hlakka til.


Powered by Blogger