Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

02 september 2005

Viðburðarík helgi fer nú í hönd. Molinn verður nefnilega 3 ára eftir helgi og það á að halda upp á það á sunnudag og hann er arfa spenntur kallanginn. Sem þýðir náttúrulega að við erum öll orðin spennt líka. Við ætlum að auki að skella okkur í grillveislu á morgun þar sem verður hoppukastali og trúðar úlala ég get varla beðið.

01 september 2005

Það er mikill gleðidagur í mínu lífi!!!! Núna fyrir stundu borgaði ég síðustu greiðslu af mínu hataða námsláni!!! Frá og með þessari stundu er ég skuldlaus við LÍN! Er ég búin að hlakka til þessa dags í fimm ár og ég verð að segja að þetta er góð tilfinning
Bravo

31 ágúst 2005


Ég fann hjá mér hvöt til að setja inn mynd frá golfmótinu. Glæsileg sveiflan hjá mér náðist aldrei á mynd en hér sést glögglega þreytusvipurinn þar sem ég sit á bekk og bíð eftir að röðin komi að mér

30 ágúst 2005

Afskaplega er erfitt að vera svona mikið íþróttafrík. Ég er að átta mig á því núna af hverju ég hef ekki verið mikið að hreyfa mig fram að þessu. Svona er staðan: Ég fer í salinn og lyfti lóðum. Til þess þarf ég íþróttaföt og skó fyrir salinn. Við erum með skvasssal í vinnunni og til þess þarf spaða og samkvæmt sölumannininum "er afskaplega gott að vera í svona skóm" og auðvitað stuttbuxum við. Þarna eru komin tvö outfit og græjur. Ég fer í golfið. Þar þarf ég kylfur og sérföt því það má ekki fara í hverju sem sem er inn á völlinn. Þriðja outfittið. Stafagangan. það eru útiföt og "vinsamlega ekki svona gönguskó því þá hreyfast ekki ökklarnir rétt og plís ekki gallabuxur" sem sagt fjórða outfittið og til að kóróna allt saman: "ekki þessa stafi, þetta eru fjallgöngustafir!!!" Já já ég geri mér grein fyrir því að ég hef aldrei verið íþróttavæn en en er þetta ekki rugl??? Þetta er fimmta outfittið og tvær gerðir af stöfum eftir því hvort ég er að arka um borg og bæ eða fjöll og hraun. Og tvær gerðir af skóm. Og svo ef mig langar í sund þá þarf ég sundbol.Hann tekur kannski ekki mikið pláss svona einn og sér, en í samhengi við allt hitt! Þegar fólk er í tveggja herbergja íbúð eins og ég með MJÖG litlu skápaplássi þá er bara ekki pláss fyrir allar þessar íþróttagræjur. Heyrðu ég gleymi einu. Ég á líka línuskauta og einhvern hlífðarfatnað þar við. Og einu sinni átti ég skíði og erum við þá að tala um allt aðrar græjur og allt önnur föt. Spáið í þessu bara, hvað ef ég hefði gaman af því að hreyfa mig? Hver væri þá staðan á íþróttagræjum heimilisins? Ég kæmist bara ekki fyrir lengur og hana nú!!

29 ágúst 2005

Þetta var svo góð helgi að leitun er að öðru eins. Helgin hófst með bréfi frá ráðuneytinu þar sem ráðuneytismenn samþykkja að við stækkum fjölskylduna okkar. Nú fer því í hönd rosa vinna við að safna vottorðum frá hinum og þessum stofnunum. En það verður bara gaman. Síðan skelltum við okkur að sjá Kabarett á föstudagskvöldið og mér fannst það frábært, alveg frábært. Á laugardaginn spilaði ég síðan á mínu fyrsta golfmóti og vann þar til verðlauna. Að sjálfsögðu! Þetta voru verðlaun fyrir besta nýtingu á vellinum í kvennaflokki. Fyrir þá sem ekki skilja golfmál þýðir þetta að ég hafi slegið flest höggin af öllum, nýtti sem sagt allan völlinn. Þetta var fínt.


Powered by Blogger