Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

26 ágúst 2004

Ægilega var ég þreytt í morgun, ætlaði bara ekki að hafa mig fram yfir rúmstokkinn. Tókst það að vísu eftir nokkrar tilraunir og náði að mæta sjálfri mér þrisvar áður en ég komst endanlega í fötin. Það er hámark þreytunnar!

Er enn að dásama það hvað Línan er mikið snilld. Við höfum verið að treina okkur að horfa á hana og tökum bara nokkra þætti á kvöldi og alltaf skemmti ég mér jafn vel. Þar að vísu að reyna að heyra betur hvað hún segir þegar hún er að rífast því mér finnst hún brilljant þegar hún tekur frekjuköstin. En samt er hún einna best þegar henni mislíkar eitthvað, hún snýr upp á sig og mar sér alla leið til Íslands hvað henni sárnar skilningsskortur teiknarans. Bara brilljant!

25 ágúst 2004

Assgoti var gaman að horfa á Þórey Eddu í sjónvarpinu í gær. Þegar antinörd eins og ég er farin að horfa á ólýmpíuleikana með öndina í hálsinum þá er eitthvað að eða hvað? En hún stóð sig vel þó það hefði verið gaman ef hún hefði komist á pall.. en hins vegar eru þessar rússnensku stúlkukindur hálfgerð ofurmenni eða það sýndist mér. Erfitt að keppa við slíkt. Ekki eitt bros fyrr en sigurinn var í höfn, þvílikur vilji.

Hún frænka mín í Sænska konungsríkinu á afmæli í næsta mánuði. Hún er búin að gera langan óskalista sem nær allt frá sápukúlublásara til fimm katta (fimm kisur 1 stór og 4 litlar). Hún vill líka litla hunda en þau eiga einn stóran. Úff það verður erfitt að koma þessu dýraríki frá Íslandinu byggilega yfir til Sænska konungsríkisins.

Ég hafði með mér sundfötin í vinnuna, það er svo ég geti farið í golf í dag þegar ég er búin að vinna. Ég var alveg búin að gleyma að það væri nokkuð til sem heitir "rigning" og var nærri komin of seint í morgun því ég gleymdi mér úti í glugga við að dást að þessu fyrirbæri. Lenti hinsvegar í vandræðum með klæðnað því blómakjóllinn er alls ekki viðeigandi í svona bleytuveðri.

24 ágúst 2004

Línan er snilld! það er bara einfalt mál. Af hverju var ég ekki búin að fatta að kaupa hana fyrr?Annað sem er hrein snilld eru þættirnir "Spaced" en við vorum að horfa á þá aftur núna því okkur var sagt að myndin "Shaun of the Dead" væri byggð á einum þættinum. Það var auðvitað alveg rétt og þar sem við vorum dottin ofan í þættina þá hreinlega urðum við að klára seríuna. Þessir þættir batna við frekari áhorfun!

Það er vika í að skólinn byrji. Uss mar verður nú stressaður á minna en því. Ég er nefnilega að fara í uppáhaldsfagið mitt sem er tölfræði! Klever að enda námið á því. Rétt eins og í FB á mínum yngri árum þegar ég átti síðasta stærðfræðiáfangann eftir á síðustu önninni ásamt 3 íslenskuáföngum, 3 enskuáföngum og frönsku utanskóla. Haha þetta heitir "living on the edge".

Þetta er sama prinsippið og með bensínið. Ég er nefnilega ein af þeim sem keyri þangað til allt bensín er búið og fer svo síðustu tvær ferðirnar í vinnuna með öndina í hálsinum og ef bíllinn gefur frá sér púst held ég að hann sé að verða bensínlaus. Alltaf jafn spennandi. Hélt ég fengi magasár síðasta vetur en get samt ekki vanið mig af þessu. Kannski er bara ekki nóg spenna í lífi mínu? Komm on það getur ekki verið, hér er ég búin að sitja og hekla eitt sjal á einni viku. Er það ekki spennandi? Hmm þegar ég les þetta yfir átta ég mig á því að spenna er eitthvað annað en þetta, held að bensínferðirnar standi upp úr! Skil samt ekki þessa áráttu hjá mér því nógu oft hef ég orðið bensínlaus. Er nýhætt að vera með standard búnað í bílnum (bensínbrúsa og vatnsbrúsa ef skyldi sjóða). Vatnsbrúsinn nær til þess tíma er ég átti SkódaLjóta en það eru mörg ár síðan, ég er bara svo lengi að tengja. Að vísu er ég enn með kaðal í bílnum því það er aldrei að vita nema ég þurfi á drátt að halda!

23 ágúst 2004

Þá er allri menningu lokið fyrir mér. Mun ekki fara í aðara menningareisu innanlands fyrr en að ári. Skil ekki að þetta fari í taugarnar á fólki, ég skemmti mér alveg konunglega. Verð þó að viðurkenna að hápunktur dagsins var í Jólahúsinu þegar ég fékk að vita að það væru 125 dagar til jóla og þegar ég var búin að kaupa mér eitt jólaskraut svona í tilefni af því, þá var mér óskað gleðilegra jóla. Jamm það var hápunkturinn.

Ég keypti mér líka Línuna á DVD og síðan sátum við Skakki fram eftir nóttu og öskruðum af hlátri. Línan er betri en mig minnti. Mikið assgoti er hún geðvond og tuðið! Maður lifandi ég held að Línan sé gerð eftir mér á góðum degi! Og þegar hún (hann) fær hlátursköstin og frussar í allar áttir, úff ég átti bágt með mig á tímabili. Svona er það, lítið gleður vesælan og allt það!

Annars er hamingjan að deyja hjá okkur Skakka!!!!!!

Við fengum nefnilega svona Kína hamingjutré fyrir 2 árum og með því fylgdi að svo lengi sem okkur tækist að halda því á lífi þá héldist hamingjan á heimilinu. Trjádruslan er að DEYJA! Ég gjörsamlega finn hvernig hamingjan lekur út og fram á gang, í gærkvöldi mætti ég henni í forstofunni. Er að spá í að drífa þetta bara af og henda trjárræksninu svo ég þurfi ekki að vera í þessari kvöl lengur.


Powered by Blogger