Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

16 júlí 2004

Harpa, heldur þú að það geti verið að Sara spákella af netinu sé skurðlækirinn sem við erum að leita að? Þetta var í bréfi frá henni í morgun:
I have seen it! Yes, I came at last upon the "REMEDY" you need! Yes, I found the "Miracle Remedy", and I know it is going to be for you the solution to all your problems!
Þetta hljómar eins og lækningin eina og sanna, er að velta fyrir mér hvort ég eigi að renna yfir þetta bréf og sjá hvernig hún ætlar að lækna öll mein
 

hey hey hrífa hrífa hey hey síðasti vinnudagur fyrir frí hey hey hrífa hrífa.. verst að ég skuli ekki vinna í Vinnuskólanum þá gæti ég farið í þessa keppni og unnið.. hey hey hrífa hrífa...
 
Annars á skurðlæknirinn  Brynhildur afmæli í dag til hamingju með það. Hún er nú stödd í Danmörku að hjálpa systur sinni að losa einn gám eða svo.. þetta er kjarnorkukona.. milli botnlanga og brisa jafnhendir hún húsgögnum úr gámum.. Gott að vita af því ef ég skyldi ákveða að flytja líka eins og allir aðrir virðast vera að gera (systir hennar til Danmerkur og verkfræðineminn til Svíþjóðar).
 
Skakki var eitthvað að kvarta yfir plássleysi í rúminu. Honum finnst illskiljanlegt að golftrén þurfi að vera þar hjá okkur. Þau eru hinsvegar viðkvæm og þarf að passa þau vel, hvar er betri staður en í rúminu? Ætti kannski að geyma þau í geymslunni með allskonar drasli? Nei ég held ekki, þær verða á milli okkar áfram!
 
Á morgun kemur sænski nýbúinn og þá að vera búinn að losa þennan gám í Danmörku. Mikið ægilega verður það gaman. Það er nú komið nákvæmlega eitt ár og ein vika síðan ég sá hann síðast. Það er of langt! Í gamla daga þegar við vorum lítil (minni en í dag) þá varð hann alltaf veikur ef ég fór í sveitina. Hann fékk í magann og ældi líka. Þetta gerðist í hvert skipti. Hann hefur greinilega læknast af þessum kvillum, alla vega þá hef ég ekki hert neitt af því að hann sé með króníska magapest þarna í ríki Svíanna. En hann er náttúrlega með skurðlækni á heimilinu, kannsi hún hafi læknað hann? Sem vekur upp þá minni hátttar spurninu hvort hægt sé að skera burtu söknuð og kvíða? Það væri nú gott ;))

15 júlí 2004

Sumir dagar eru bara hreint út sagt betri en aðrir dagar. Meira segja miklu betri en margir aðrir dagar! Á eftir ætla ég að kaupa mér nýja kylfu og það hringdi í mig kona í morgun bauð mér að vera með næst þegar hún og vinkona hennar spila golf. Sumir dagar eru bara hreint út sagt frábærir og stundum þarf ekki mikið til að gleðja mann eða þannig haha

Á morgun er síðasti dagur fyrir frí og það er líka frábært. Og á eftir fæ ég burritos mmmm Armour er að sækja þær og deildin mun eiga matarsamverustund!!!!!!

14 júlí 2004

Þá er sænski nýbúinn búinn að tilkynna komu sína á ylhýra móðurlandið. Hann ætlar að birtast á næstkomandi laugardag eftir að hafa hjálpað mágkonu sinni að tæma einn gám í Danmörku. Duglegur drengur og gott að vita að hann fer milli norðurlandanna að tæma búslóðargáma, aldrei að vita nema maður þurfi á því að halda!

Þetta er fyrsta sumarið sem ég skrifa ritgerð þegar allt skólafólk á að vera í fríi og það er bara nokkuð merkilegt hvað mér gengur vel. Ég er byrjuð að velta mér upp úr rannsókninni minni sem mér þótti nú ekki merkileg þegar ég var að byrja en hún er öll að koma til. Þetta er bara að verða þrælskemmtilegt!

13 júlí 2004

Í dag eru fjórir vinnudagar eftir í frí. Mikið afskaplega er það gaman þó ég sé að vísu í panikk kasti yfir öllu sem átti að vera lokið ÁÐUR en ég færi af vinnustað mínum og slugsaði í leti í nokkrar vikur. En það þýðir ekkert að fá kast því þetta verður bara enn hér þegar ég kem til baka. Það er gott að geta treyst á ákveðna hluti í tilverunni!

Mig langar að taka hurðirnar í gegn. Það er að segja hurðirnar heima hjá mér. Þær eru svo snjáðar og ljótar greyin. Veit einhver hvernig hægt er að gera þær eins og nýjar? Ég er búin að liggja á netinu en það eina sem ég finn er leiðbeiningar um hvernig eigi að smíða pall! Ég er með svalir og þarf því ekki á palli að halda.. er heldur ekki viss um að nágrannar mínir verði hrifnir þegar ég verð búin að smíða pall fyrir utan, sérstaklega þar sem ég bý á þriðju hæð! Gæti samt verið soldið grúví, ætti kannski að hugsa þetta aðeins betur.. það eru stillasar í brotum í kringum blokkina þar sem verið er að fjarlægja nærbuxnableika litinn sem á blokkinni hefur verið síðast liðin allt of mörg ár. Núna verður hún bara hversdagsleg og venjuleg. Veit ekki hvernig ég kem til með að rata heim því nógu oft keyri ég fram hjá blokkinni þó hún sé eina bleika húsið í hverfinu! En ég verð bara að reyna að aðlaga mig að því.. ég gæti notað þessa stillasa við að byggja mér pall, hann yrði þá í lausu lofti.. ég þarf aðeins að hugsa það betur hvernig ég fest hann svo hann detti ekki alltaf niður.. mar er svo assgoti lengi að hlaupa af þriðju hæð, hringinn í kringum blokkina og niður í garð. Ég ætti að vita það því Molinn missti (lesist #henti#) einhverju dóti trekk í trekk niður í garð og gamla frænka (lesist #ég#) mátti skrattast til að ná í það!

Einu sinni átti ég heima í Kópavoginum (eða tvisvar eða þrisvar). Þá var steinn í garðinum og blikkmerki ofan á honum. það var gott! Ég rataði alltaf heim. Enda hvernig er annað hægt þegar rauð blikkandi ljós vísa manni veginn? Ættikannski að setja svoleiðis ljós á pallinn hérna á þriju hæðinni, við hliðina á heita pottinum?????

12 júlí 2004

Að komast á séns
Ég komst á séns á föstudagskvöldið og hann hélt áfram að reyna við mig alla helgina. Þetta var sms-séns og kom í formi myndskilaboða, að vísu var aldrei nein mynd því ég er ekki með svoleiðis símagræju. Skakki var orðinn jafn spenntur og ég og við vorum alvarlega að spá í að senda Nóra mynd af mér (sénsinn heitir sem sagt Nóri)!

Fyrsta sms-ið var ákall um mynd af mér. Næsta var annað ákall. Þriðja eða fjórða (ég man það ekki alveg) sagði eftirfarandi: "Komm onn sendu mer mynd af ter, tetta er nori vinur hans haffa".

Ég var nú ekki miklu nær því ég þekki engann Haffa en nú fóru hlutirnir að gerast og næstu 12 eða 13 tímana fékk held ég um 18 skilaboð með beiðni um mynd. Síðasta skilaboðið sagði þetta: "komm onn tetta er nori, tu hefur oft sed mig a handboltaleikjum, mer finnst tu flott og Venna finnst thad lika to hann munir ekki hvernig tu litur ut"

Já einmitt! Honum finnst ég flott en hann man samt ekki hvernig ég lít út. Á hvaða handboltaleikjum ætli ég hafi verið að flækjast á? Á þessari stundu varð mér fulljóst að ég var ekki á séns heldur var hann að senda einhverri annarri þessi boð en mikið er ég fegin að hún fékk þau ekki. Mér var löngu hætt að lítast á þennan dreng (og sá ég hann þó aldrei). Mér finnst nefnilega að það sé ekki efnilegt að senda 20 sms með beiðni um mynd og fá aldrei svar til baka... hljómar desperat og frekjulega. Hann er örugglega ekki við hennar hæfi og hana nú.


Powered by Blogger