Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

24 janúar 2004

Besta lækingin við sorg og amstri hins venjulega dags er að fara og versla! Með þetta í huga brunaði ég í Kringluna og keypti mér eina skó á útsölu og fína sokka í sockshop. Þetta er kannski ekki lækning sem endist en hún virkar samt, svona eins konar instant plástur

23 janúar 2004

Haukurinn heldur að fólk geti misskilið síðustu skrif mín sem svo að ég hafi legið grátandi í allan dag. Fyrir hans hönd vil ég leiðrétta það, það er ekki alveg svo slæmt. Hann fór að kaupa handa mér bragðaref þannig að fátt er svo með öllu illt.

Annað sem er skelfilegt er að nú get ég ekki lengur frestað því að koma mér í form
Uss nú verða kílóin að fjúka enda fékk ég nýja gönguskó og jakka í ammilisgjöf

og stafina í jólagjöf. keypti meira að segja sundbol á síðustu útsölu:


Mér er sem sagt ekki neitt að vanbúnaði.

Annars er þetta svartur dagur í lífi meinvills og hauksins. Þetta gekk ekki hjá okkur. Það voru nefnilega engin egg í þessum ræfils eggbúum mínum. Ég fékk held ég sjokk aldarinnar (enda svo sem ekki langt liðið á þessa öld) og er bara búin að gráta og sofa til skiptis :(

Dr. Gummi var ósköp góður við mig en hann veit auðvitað ekkert af hverju þetta er. Sagði aldurinn eflaust spila stóran þátt en kannski vantar mig Bvítamín og ég á að fara í mælingu á því. Athuga með B12.

Það voru samt allir voða góðir við mig, struku mér í framan og héldu í hendurnar á mér. Aumingja fólkið, það bara runnu tárin og runnu hjá mér og ég gat ekkert talað vildi bara fara heim og þau vildu ekki leyfa mér það hehe voru hrædd um að það liði yfir mig og allskonar kjaftæði, fékk það samt á endanum og er núna búin að sofa og líður betur þó ég sé enn í sjokki.

Ég var nefnilega búin að reikna með að það kæmi kannski bara eitt egg, að ég fengi ekkert hafði aldrei hvarlað að mér buhuhu

Lífið er undarlegt, það er auðvitað sagt að manni sé ekki lofað eintómum rósum, en mér finnst nú frekar að um sé að ræða arfagarð hjá mér í augnablikinu.Þið eruð öll dónar og hana nú! Hvernig í ósköpunum átti ég fávíst borgarbarnið að vita að kríur gerðu svona dónaskap? Og það beint fyrir fyrir framan gesti og gangandi.

22 janúar 2004

Hrönn spyr hvort ég hafi farið á miðilsfund. Ég verð að svara því neitandi. Við Gunnsan fórum að vísu á skygnilýsingarfund síðasta haust en það var meira svona skemmtiatriði heldur en eitthvað sem maður gæti trúað á. Við vorum í hláturskasti allan tímann enda vildi miðilsgaurinn ekkert tala við okkur. Það var samt mjög fyndið að fólk var að leita að lyklum og hringjum og einhverju svona kjaftæði. Ég ætla að vona að ég hafi ekki þannig áhyggjur þegar ég fer yfir um.

Á morgun er stóri dagurinn okkar hauks. Til að búa mig undir sveltið frá miðnætti fór haukurinn og keypti 3 pizzur. Jamm einmitt. ÞRJÁR pizzur OG brauðstangir. Ég horfði á hann eins og hann hefði misst þetta litla vit sem hann hefur (hann hefur heilmikið hljómar bara betur að segja lítið). Þá var málið að það var allt í klúðri í pizzubúðinni og karlmenn stóðu og grenjuðu yfir að pizzurnar þeirra voru ekki tilbúnar og þeir að missa af leiknum. Algjört kaos og starfsmennirnir farnir að reita hár sitt. Þegar hauknum var farið að leiðast þófið, hallaði hann sér fram og spurði hljóðlega (hann er alltaf svo prúður) hvort hans væri ekki tilbúin. Gaurinn misheyrði og hélt hann héti Hrönn og þegar haukurinn leiðrétti hann og sagðist ekki heita hrönn heldur haukurinn (hann er nú ekkert rosalega hrannarlegur) þá varð pizzugaurnum nóg um. Hann horfði vonleysislega á 3 pizzukassa og sagði: Viltu ekki bara taka þetta? Haukurinn sagði jú takk og brunaði heim. Við eigum því þrjár pizzur og fullan poka af brauðstöngum. Matur til jóla enda ekki nem 33o og eitthvaðdagar til jóla.

Núna ætla ég að búa mig undir að fara á eggjavarp á morgun. Skyldi þetta vera eins og fara á kríuvarp? Það eru lítil og sæt egg, ég fór oft á svoleiðis á mínum yngri árum þegar ég átti heima á norðlenskum heiðum. Kríurnar verpa líka bara einu eggi og fá unga haha

Ég fór í gær og fékk svona fína mynd af árunni minni. Hún er auðvitað appelsínugul og græn, kemur eihverjum það á óvart? Haha Anna litaglaða, meira segja áran er í brjáluðum gleðilitum. Síðan er ég með stóran ljósbaug yfir höfðinu og grunaði mig helst að konan hefði stillt vélina svona vitlaust og þetta væri ljósið, það nefnilega kom svona fínn ljósbaugur á allar myndirnar sem ég tók í Rotterdam. Konan vildi nú ekki meina það og sagði að þetta væri góðs viti. Ég fór út ægilega glöð og ánægð með nýju myndina mína af árunni minni. Haukurinn fékk hláturskast og tautaði eitthvað um trúgirni og lélegar myndavélar, ég sendi honum illt auga og hótaði að hætta að elda. Hann hætti að níða myndina mína!

21 janúar 2004

Á eftir ætla ég síðan að bruna með afmælisgjöfina mína frá MAB súpernorn. Hún nefnilega gaf mér árulestur úlalala. það er einhver kella hér í bæ sem sérhæfir sig í að lesa úr árum hjá fólki. Scary.. kannski er mín bara svört eins og sálin?

Haha það kemur í ljós á eftir ;)

Það er búið að hringja í mig, ægileg gleði. Ég sprauta síðustu sprautuna í bili klukkan 10.30 í kvöld (mjög mikilvægt að það sé nákvæmlega á þeim tíma, annars..) Já annars hvað? Ekki það að ég ætli neitt að vera að fúska við þetta, geri bara eins og mér er sagt. Síðan eigum við að mæta 8.30 á föstudagsmorgun...ægilega spennandi

Já alveg rétt, nýjustu fréttir af eggjaleitinni eru að það á að gerast á föstudag. Þá mætum við haukurinn upp á Lansa og þar fara virðulegir læknar inn í mitt helgasta og ná í eggin sem um er að ræða. Haldið að það sé munur? Við erum ekki búin að fá nákvæma tímasetningu en það verður hringt á eftir. Þetta er æði spennandi og ég er strax farin að stressa mig upp fyrir því að þetta geti verið sárt (ojojoj). Ég fæ einhverja roknadeyfingu skilst mér en í sumum tilfellum er svæfing. Sem sagt mar á að vera viðbúinn öllu og ekki borða neitt frá miðnætti og allt það kjaftæði (eins og mar sé eitthvað að borða á nóttunni). En núna bíð ég bara spennt eftir þessu símtali.

Já það er rétt, ég var búin að gleyma því, það var vegna kosningar í stjórn tattúfélags Íslands. Félag sem fæddist og lifði stuttu lífi sökum meintrar óreglu félagsmanna. Við þessar bláeygðu, SM og ég, höfðum ekki grænan grun um allt þetta sukk en forðuðum okkur með hraði þegar við föttuðum hvað í ósköpunum gekk á. Kynntumst þarna hluta af undirheimalýð borgarinnar, nema við vissum ekki strax að þetta væri undirheimalýður. Sumir eru nefnilega fattlausari en aðrir. Það sem við vorum að leita að var nefnilega félagsskapur, eitthvað annað en bridgeklúbbur..haha erum í dag ánægðar með bridgeklúbba landsins. Við kunnum að vísu ekki enn að spila bridge en það hlýtur að koma, því bridge ku vera spennandi ÍÞRÓTT. Jamm heyrði það í útvarpinu um daginn, hauknum var mikið niðri fyrir og vildi hann meina að slíkt væri ekki íþrótt, heldur SPIL.

20 janúar 2004

Fékk athugasemd í gestabókina frá SM um að ég hefði gleymt einu varðandi Rósenberghjúin. Það er alveg rétt, ég var hreinlega búin að steingleyma því að þau spurðu ekki hvort hún væri vinkona mín, heldur "er þetta ÁSTkona þín" gosh hvað okkur fannst það fyndið og mér finnst það enn fyndið.

Síðan gerðist eitthvað sem ég man ekki hvað var (SM bætir kannski úr minni mínu) en SM sá að hún varð að senda mér hamingjuskeyti í vinnuna (bankann). Hún stílaði það á mig og skrifaði undir "þín áskona". Drengurinn sem kom með skeytið var nærri búinn að fótbrjóta sig á leiðinni upp stigann, honum lá svo á að afhenda mér skeytið. Þetta var gott skeyti, verst að ég man ekkert hvert tilefni var.

Litlla systirin mín er að ganga í gegnum þá erfiðu raun að uppgötva að það er rosa mikið af stórskrítnu fólki á róli þarna út á "singles" markaðnum. Það voru nokkuð mörg árin þar sem ég var á þessu róli og gosh hvað mar hitti stundum skrítið fólk (ekki bara karla heldur konur líka).

Ég man eftir því einu sinni að ég fór á Rósenberg með vinkonu minni leigubílstjóranum. Þetta var ægilega skemmtilegt kvöld og við mingluðum um allan staðinn. Þegar ég fann til þreytu fékk ég mér sæti við borð og á næsta borði var par sem ég hafði aldrei séð fyrr. Þau stara á mig alveg heilluð (eða ég geri ráð fyrir því að þau hafi heillast) og á endanum kallar konan mig yfir að borðinu til þeirra. Ég var treg til og hélt þau vera að betla sígarettur eða einhvern annan ófögnuð og þar sem ég reyki ekki þá þóttist ég ekki taka eftir þessum bendingum. Þau gefast samt ekki upp og halda áfram þangað til forvitni mín er vakin og ég fer og tala við þau.

Ég varð svo hissa yfir erindinu að ég náði ekki einu sinni að verða fúl: Þau voru nefnilega að bjóða mér í threesome. Jamm, ókunnri konu á besta aldri. Í því sem ég er að neita tilboðinu fína, birtist SM að borðinu mínu og þau spyrja strax: "er þetta vinkona þín?" . Ég játa því og legg af stað yfir til hennar þegar þau segja: "Hey þið hafið kannski áhuga á að koma báðar??"

Halló, halló við erum sko ekki konur sem förum upp í rúm með ókunnum hjónum (kunn hjón hafa aldrei boðið okkur þannig að við höfum ekki þurft að taka afstöðu til þess). Það sem eftir var kvöldsins fékk ég ekki frið fyrir þessu pari, þau voru alveg ákveðin að ég væri kjörin kandidat í þeirra heimaleikfimi, annað hvort ein eða með vinkonu minni.

Annað skipti fórum við á víkingahátíðina. Það var mikið af skuggalegu fólki og við vinkonurnar héldum okkur þétt saman. Við vorum með hópi af fólki þannig að enginn þorði að reyna við okkur (ég reikna stórlega með að það hafi verið af hugleysi frekar en að enginn hafi haft á því áhuga). Ballinu lýkur þegar lög gera ráð fyrir um 3leytið (þetta var fyrir hinn geysilanga opnunartíma sem nú tíðkast). Einn úr hópnum var á bíl og tók á rás til að ná í hann, við hin biðum í góða veðrinu.

Ég fæ mér sæti á stórum stein smáspöl frá hinum og eftir smátíma kemur kona og spyr hvort hún megi sitja hjá mér. Ég var auðvitað kurteisin uppmáluð og leyfði henni afnot af steininum góða. Hún byrjar að spjalla og ég svona jánka kurteislega þegar við á, hafði ekki nokkurn áhuga á að tala við einhverja kellu sem ég þekkti ekki neitt. Það líða nokkrar mínútur og þá býður konan mér heim með sér. Jamm einmitt það. Ég var sem sagt komin á séns fyrir utan ballið, með konu. Ég held samt að vinkonurnar hafi öfundað mig af þessum sénsi því hún var öllu skárri en karlarnir sem voru innandyra haha Ég þarf ekki að taka það fram að ég þáði ekki boðið.

Alveg var þetta nú sérdeilis erfiður morgunn í morgun. Ég hreinlega ætlaði ekki að meika það að skríða fram úr og loksins þegar ég var komin fram þá bara gat ég ekki opnað nema annað augað. Hitt hélt áfram að sofa og vaknaði ekki fyrr en það fann spittlyktina þegar ég hóf morgunverkin úff hvað ég verð fegin þegar ég get farið bara beint fram úr og fengið mér morgunmat, engar sprautur. Ég er farin að dást alveg ósegjanlega að fólki sem þarf að sprauta sig alla ævi vegna einhverra sjúkdóma. Þetta er nú meira puðið.

Ég er í svona "nenni ekki meiru" stuði í vinnunni. DARN þoli ekki þegar ég fer í svoleiðis stuði. Ef einhver segir "ég nenni ekki á námskeið" þá er ég farin að segja "ok who cares" og fella niður námskeiðið. Það er ekki góð hugmynd skal ég segja ykkur. Ekki þegar mar vinnur við að skipuleggja og búa til námskeið. En ég bara get ekki pirrað mig yfir því þessa dagana. Átti í mailviðræðum við einn stjórnandann sem sagði að það yrði að fresta tilteknu námskeiði þar sem "það virðist ekki vera neinn áhugi". Ég sagði honum að áhugi kæmi málinu lítið við því um skyldunámskeið væri að ræða. Síðan nennti ég ekki að rökræða það meir heldur hafði samband við leibeinandann og felldi niður námskeiðið. Það endar með því að ég verð atvinnulaus því mér er gjörsamlega sama
Þetta er ekki góð stefna, verð held ég bara að fara að leita mér að nýrri vinnu eða hvað? Það er ekki gott fyrir vinnuna þegar maður er alveg áhugalaus (stuna)

19 janúar 2004

Þetta er aldeilis geypifínn dagur. Leiðbeinandinn er bara búinn að samþykkja nýjustu áætlunina að MA ritgerðinni þannig að ég má abara byrja að skrifa, júhú, get bara varla beðið

Svo vil ég þakka öllum fyrir afmæliskveðjur og gjafir. Ég man þá tíð að allir öfunduðu mig að eiga afmæli svona snemma ;) Að vísu finnst mér það ennþá gott, þetta styttir janúarmánuð fyrir mér. Eftir afmælið mitt þá er bara næstum komið vor

Fór í blóðprufu og sónarskoðun í morgun og þar eru enn einhverjir ræflar að myndast við að verða til. Ég held því áfram að sprauta og fer aftur í skoðun á miðvikudag. Þetta er meira stuðið. Það voru tvö tilbúin og ég spurði lækninn í fávísi minni hvort það væru nokkur hætta á að þau færu ef þau væru ekki tekin strax en hann kvað ekki vera. Sprauturnar héldu þeim kjurrum! Það er nú aldeilis gott. Værri verra ef ég týndi þeim svona fram á miðvikudag haha

18 janúar 2004

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag
hún á afmæli hún ÉG
Hún á afmæli í dag

Ég var með brunch í hádeginu fyrir stórfjölskylduna, ægilega gaman. Það var að vísu svo þröngt að ef einn stóð upp urðu allir hinir að þrýsta sér niður í sætin sín og bíða eftir því að allt gengi yfir.

Ég á einn frænda sem er að nálgast 10 árin og hann vann sér eilífan sess í dag.Hann sagði við afa sinn með þjósti: "Hún Anna frænska mín er sko engin kelling". Þetta sagði hann þegar afi hans óskaði hauknum til hamingju með kellinguna. Svona eiga frændur að vera!


Powered by Blogger