Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

26 nóvember 2004

Gærdagurinn var forvitnilegur fyrir mig. Ég fór nefnilega í próf í SPSS. Ég hef forðast SPSS í mörg mörg mörg ár eða alveg frá því ég var illa haldina af tölvufóbíu í BA náminu fyrir margt um löngu. Síðan hefur að vísu margt breyst og ég hef ma tekið að mér tölvukennslu (nokkuð sem Jóni Torfa finnst MJÖG fyndið því ég hætti í kúrs hjá honum sagðist aldrei þurfa að koma nálægt svona tölvukjaftæði við mín störf, en svona er bara lífið, aldrei að loka neinum hurðum eða þannig..). En allavega þá hef ég ekki þurft að eiga neitt við SPSS fyrr en núna. Og í gær fór ég í próf!!! Þegar tíu mínútur voru liðnar af prófatímanum þá sat mín með rauða díla í kinnunum, sjóðheitt í hjartanu og með klump í maganum! Prófið hefði getað vera á arabísku mín vegna. Ég vissi ekkert um hvað var verið að spyrja. Ég hélt á tímabili að ég væri að verða blind og yrði að yfirgefa tölvuherbergið og fara beint upp á Slysó. Það reyndist þó ekki vera heldur var þetta magaklumpurinn sem var búinn að þröngva sér upp í heila og hélt sig þar með eins og hann hefði verið límdur við heilatetrið. Ég róaði mig niður með því að nota tæknina sem Edda var að kenna í síðasta mánuði og þá rann klumpurinn aftur niður í maga og ég fór að sjá aftur. Að vísu héldu stafirnir áfram að dansa á blaðinu en mér tókst að komast í gegnum þetta með því að byrja aftast og vinna mig fram. Ég held hinsvegar að ég hafi ekki rökstudd neitt af öllu þessu sem ég átti að rökstyðja en hei maður getur bara ekki gert allt sko.

Kennarinn bætti 10 mín við prófatímann og allir sátu sem fastast. Hún bætti öðrum tíu mínútum við og enn sátu allir sem fastast. Þá rak hún okkur út. Mér var alveg sama því ég var hvort eð er bara að bulla á mínu blaði. Þegar ég kom fram þá leið mér mjög skringilega. Hnén voru eins og liðamótalaus og klumpurinn var enn í maganum. Heilinn var ekki í sambandi og ég þurfti að vanda mig við að tala. Þetta heitir spennufall sagði ástkær Skjaldbakan sem bauð mér í Lasagna þegar hún heyrði hvernig mér gekk.

Ef ég hef náð þá hef ég náð fyrir glópalán því ég vissi ekki hvað ég var að gera. Ég skildi ekki einu sinni skriftina mína þegar ég las yfir en það verður að vera Stellu mál, ekki mitt. Ef ég hef náð þá fer í aðalprófið 10 des og það verður síðasta prófið sem ég ætla að taka á minni lífsleið. Geðheilsa mín leyfir ekki fleiri svona æfingar!

En lasagnað var gott. Ég segi eins og mamma, ég gæti alveg verið í fæði alla daga hjá Skaldbökunni! (ekki víst að hún vildi okkur mömmu alla daga haha)

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger