Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

11 ágúst 2004

Laugavegurinn á síðustu öld
Leigubílstjórarnir eru á Hornströndum að labba, eða svo sögðu þau mér. Ég vona að það sé gott veður hjá þeim svo þau sjái allt sem þarf að sjá svo þau séu ekki að ana þetta aftur! Einu sinni labbaði ég með kvenleigubílstjóranum laugaveginn umtalaða. Það var nokkuð erfitt því umræddar konur höfðu ekki kynnt sér ferðina mjög vel.

Við vorum þrjár í för (frú Vestmannaeyjar var með okkur) og með tjald á bakinu ásamt nesti og nýjum skóm. Það voru í mínu tilfelli mjög bókstaflega nýir skór því ég keypti þá mánuði fyrir ferðina eingöngu til að brúka í þessari ferð. Ég var líka með nýjan bakpoka!

Gangan var með því erfiðara sem ég hef gert um ævina (af líkamlegu erfiði meina ég). það var ekkert mál að skokka af stað á morgnana með bakpoka sem var ekkert svo þungur en þegar leið nær kvöldi var létt skokkið orðið að þunglamalegu "setja annan fótinn fram fyrir hinn og hvíla eftir tíu skref" og fjandans bakpokinn sem virkaði svo léttur var farinn að skera í axlirnar. Og svo þurftum við auðvitað að tjalda á hverju kvöldi, gjörsamlega örmagna.

Til marks um góðan undirbúning okkar þá vissum við ekki að við þyrftum að vaða einhverjar lækjarsprænur upp í mitti með reglulegu millibili. Við héldum að það væru brýr! Við sáum fljótt að svo var ekki! Þetta var óþverra upplifun og við rifum upp kortið við fyrstu sprænuna og reyndum að sjá hvar við hefðum gengið af leið og farið fram hjá brúnni. Við höfðum ekki gert það!

Við sváfum eina nótt í tjaldinu á Landmannalaugum. Það var fínt, soldið hart því tjaldstæðið er á möl en það var í lagi. Næstu nótt vorum við á Hrafntinnuskeri! Það var fallegt og við vorum þeyttar. Eitt örlítið andartak spáðum við í því hvort við ættum kannski bara að sofa í skálanum. Ég opnaði hurðina og á móti mér streymdi þung bleytulykt af fötum sem reynt er að þurrka í gluggalausum kofa! HJ'ALP! 'Eg datt afturfyrir mig í fang leigubílstjórans og sagði ákveðnum rómi (ég man þetta eins og það hefði gerst í gær): "Við tjöldum"

Ég er ákveðin kona og hef vit á öllu milli himins og jarðar og skiptir þá engu hvort ég hef vitið eða ekki! Ég sagði því samferðakonum mínum að í svona ferðum tíðkaðist að fara snemma að sofa. SNEMMA! Mjög snemma. Þær hlýddu því enda auðveldara að hlýða mér þegar svona gáll er á mér, ég hef nefnilega marga bókina lesið og vitna óspart í það!

Um eittleitið var ég orðin dofin af kulda, svo dofin að ég var komin í einn kuðung í pokadruslinni og gjörsamlega á barmi örvæntingar um hvort ég mundi verða úti þarna um nóttina! Ég var búin að troða mér svo langt ofan í pokann að ekkert stóð upp úr og annað slagið opnaði ég öndunarrifu svo ég kafnaði ekki. Ég var samt alvarlega komin á þá skoðun að það væri kannski bara best að kafna því ég frysi þá ekki í hel á meðan!

Það er á þessarti stundu sem ég stundi upp fyrir mig "Mér er svo kalt að ég er að dauða komin" og það var eins og við manninn mælt, bæði leigubílstjórinn og Vestmannaeyjafrúin voru helfrosnar í sínum pokum en þær höfðu ekki þorað að æmta neitt því ég hafði bannað þeim að tala (sem er auðvitað algjört kjaftæði því það vita allir sem mig þekkja að ég mundi ekki banna svoleiðis, þær hljóta að hafa misskilið mig eitthvað þarna í rökkrinu)!

Við risum úr pokunum og fundum spil og fórum að spila kana. Það var svo kalt að í minningunni missti ég spilin hvað eftir annað úr krókloppnum höndunum en það er eflaust misminni! 'i minningunni svaf ég ekki neitt!
frh síðar

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger