Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

03 júní 2004

Persónulegt blogg
það er langt síðan ég hef skrifað persónulegt blogg og það er núna kominn tími á eitt slíkt. Þeim sem finnst hallærislegt að lesa svona persónulegt eru vinsamlega beðnir að sleppa þessum pistili og koma aftur á morgun.

Í gær tilkynnti heilbrigðisráðherra að hann sé búinn að samþykkja að einkavæða glasafrjóvgunardeild LHS. Þetta var pínkulítil frétt milli allra stórfréttanna í gær. Þessi pínulitla frétt skipti samt mjög miklu máli fyrir fjölda fólks en undanfarið hefur staðan verið sú að þessi deild eigi að loka um sumarleyfi og ekki opna aftur. Það er sem sagt búið að ráða bót á því. Á morgun mun ég senda dr.börn.is hamingjuóskir með þetta (netfangið hans er í vinnunni). Að vísu gat dr.börn.is ekki búið til nein börn handa mér en það var ekki honum að kenna heldur duttlungum náttúrunnar.

Núna eru komnir næstum þrír mánuðir frá því að hann sagði að þetta væri ekki að gera sig og ég er búin að standa mig vel að lifa með þessari niðurstöðu. Fréttin í gær fékk mig samt til að byrja að hugsa aftur um þetta og þá byrjuðu nokkur tár að renna. Að vísu hélt ég að ég hefði klárað allar tárabirgðirnar í vor en svo skrítið sem það er þá eru alltaf einhver eftir. Ég leitaði að upplýsingum um tárin og þetta er það sem ég fann:

"Tárakirtlar eru undir húðinni yst á efri augnlokum. Þeir eru álíka stórir og mandla og liggja göng frá þeim sem flytja tár að yfirborði efri augnloka...Menn eru einu dýrin sem geta grátið með tárum til að sýna tilfinningar eins og gleði og sorg. Sem svar við áreiti seftaugaboða verður offramleiðsla á tárum sem endar með því að tár hellast yfir augnlokin og fylla jafnvel nefgöngin af vökva" vísindavefurinn

Tárakirtilinn er sem sagt á stærð við möndlu. Mandla er ekki stór. Hvernig getur þá svona mikið af tárum runnið á smá tíma? Ég er búinn að vera í sambandi við nokkrar konur sem hafa átt í sambandi við dr.börn.is á sama tíma og ég. Allar segja þær það sama: Þegar nei-ið kemur þá er eins og allt annað stoppi og tárin streyma og streyma. Þær eru líka sammála um það að þessi reynsluheimur sé eitthvað sem þær óski engum að kynnast og að það sé sama hversu vel þú búir þig undir nei-ið og hversu mörg nei þú fáir: Þetta sé alltaf jafn sárt.

Ég er sammála þessu. Ég fékk mitt annað nei í lok janúar og það var mjög erfitt. Ég fór strax aftur í lyfjameðferð vitandi það að árangur yrði kannski ekki mjög mikill. Ég bjó mig undir það en ég bjó mig ekki undir það að það yrði enginn árangur. Alls enginn. það er held ég ekki nokkur maður sem getur búið sig undir það því þá mundi maður ekki reyna aftur. Eða það held ég.

Þegar seinna nei-ið kom í lok mars sem var þá um leið þriðja nei-ið í ferlinu þá leið mér eins og það hefði verið barið í magann á mér. Allt loft hvarf og ég hafði enga stjórn á einhverjum blautum vökva sem lak stanslaust úr augunum niður eftir nefinu. Þetta var óþægilegt því það var eins og stund og staður hefði engin áhrif á þetta. Ég gat alveg eins verið stödd á fundi eða í símanum eða bara við tölvuna. Það var eins og öll heilbrigð skynsemi hefði horfið líka eða hún rynni með tárunum niður eftir nefninu. Það varð til þess að ég gat ekki einbeitt mér að neinu verki. Ég var gersamlega úrvinda. Ég vissi ekki að maður yrði svona þreyttur af því að gráta, sérstaklega þar sem ég var ekki að gráta, þetta voru tár sem runnu bara stanslaust án þess að þeim fylgdu nokkur læti eða snökt eða eitthvað annað.

Ég er samt heppin. Mínar tilraunir tóku ekki mörg ár. Allt í allt tók þetta innan við ár frá því ég komst að í fyrstu lyfjameðferðina þar til dr.börn.is úrskurðaði að þetta væri ekki nokkrum til gagns, það kæmi aldrei neitt út úr þessu. Margar konur sem ég hef hitt á þessu ári eru búnar að fara í 8-9 meðferðir. Ein var að fá 4 nei-ið sitt í gær á einu ári. Hún segist vonast til að vera "beygð en ekki brotin". Mér fannst þetta vel orðað því þetta lýsir ákveðnu hugarfari. Tómleikinn sem umleikur mann fyrst á eftir er nefnilega alveg hræðilegur og það er enginn sem getur búið mann undir hann. Hann kemur gjörsamlega að óvörum og það er sama hvert maður lítur það er eins og allir séu með börn eða eigi von á barni.

Samkvæmt dr.börn.is þá eru tvær leiðir eftir til að eiga börn. Annarsvegar ættleiðing og hinsvegar gjafaegg. Ég hef undirstungið nokkra með þessar hugmyndir og flestum finnst að ég eigi að reyna gjafaeggið fyrst. Það er hinsvegar ekki öruggt að neitt komi út úr því frekar en hinu. Vinkonum mínum sem hafa komið með einhverja skoðun finnst að ég eigi að prufa þetta því annars sjái ég eftir því. Ég er ekki svona viss um það. Tómleikinn sem ég fann til í mars var svo nístandi að ég get ekki hugsað mér að upplifa það aftur. Hvað er ég þá? Er ég alger aumingi? Ég reikna með að sumum finnst það en sjálf er ég ekki viss, ég held nefnilega að í mars hafi ég brotnað en ekki beygst. Kannski er það aumingjaskapur en það er svo skrítið að ef ég hugsa um að reyna einu sinni enn þá langar mig hreinlega að leggjast í fósturstellingu og hreyfa mig ekki meir. Samt finnst mér það hræðilegt að ég eigi aldrei eftir að eiga nein börn. Skrítið hvað svona lítið orð eins og nei getur haft sterk áhrif.

Spáið bara í því hverju ein svona lítil frétt kemur af stað. Hér sit ég og úthelli mér eins og ég hafi aldrei heyrt af sálfræðingi en þetta er hinsvegar mun ódýrara.

Ég er búin að hugsa um ættleiðingar. Það er svo skrítið að þrátt fyrir það að í heiminum séu margar milljónir barna sem eiga engann að þá er allt gert til að fæla fólk frá því að reyna að ala eitt eða tvö upp. Í mínu tilfelli er tvennt sem er stór þröskuldur: Í fyrsta lagi erum við hr.meinvill ekki gift. það skiptir engu máli að við séum búin að búa saman í nokkur ár það er auðvitað bara syndsamlegt hvort eð er. Og af hverju giftum við okkur þá ekki og drífum þetta af? Það er ekki heldur alveg svona einfalt, nei fólk verður að hafa verið gift í heilt ár áður hægt er að BYRJA umsóknarferlið sem stendur í tvö-þrjú ár.

Hinn þröskuldurinn er ekkert auðveldari. Ég, meinvill er of þung. Það er staðreynd sem ég er búin að tuða um í nokkur ár. Til þess að koma til greina sem móðir einhvers barns sem sárlega vantar heimili verð ég að léttast um 20 kg, helst meira. Og hvað er þá málið? Er þá ekki bara að létta sig og drífa í þessu? Þessi kg. hafa komið smám saman á nokkrum árum, er þá raunhæft að á einu ári hverfi þau jafn skyndilega og mér fannst þau koma? Nei það er nefnilega ekki alveg svona einfalt. Þetta er eins og að hætta að reykja eða hætta að drekka nema að þetta truflar engan nema mig sjálfa. Það sem mér finnst skrítið er hvað það hefur með móðurást að gera þó viðkomandi sé of þungur. Nú skulum við átta okkur á því að ég er ekki afmynduð af spiki en er samt of feit. Ef ég væri hætt að geta gert það sem ég vildi vegna spiks þá gæti ég verið sammála þessu en svo er ekki.

Ástæðan fyrir þessu skilyrði er sögð að offitu fylgja minnkandi lífslíkur. Jamm og ég get ekki orðið fyrir bíl á eftir ef ég skrepp út í búð! Sannarlega eru lífslíkur mínar minni sem fitubollu heldur en aneroxiusjúklings en hvað erum við að tala um? Erum við að tala um að ég drepist áttræð eða níræð? Fólk í föðurfjölskyldunni minni verður flest nálægt hundrað ára og er samt frekar digurt. Ég býð ekki í það ef þau væru almennt grennri, þá slæi þessi ætt flestar aðrar út í lífsaldri.

Þetta er allt sama kjaftæðið. Börn og barneignir, fita og uppeldi. Sumir geta átt mörg börn og geta varla hugsað um þau, aðrir geta ekki átt börn og reka sig allstaðar á veggi. Ég hinsvegar er í einhverju limbói með hvað ég á að gera af mér þau ár sem ég hafði vonast til að eyða í barnauppeldi og hringsnýst í allar áttir. En ég er allavega glöð að deildinni verður ekki lokað.

Ps. hvefur einhver tekið eftir því að í öðrum hverjum sjónvarpsþætti sem sýndir eru þessa dagana þá er fólk að berjast við eiga börn: Sex and the City, Boston Public, nýr læknaþáttur sem byrjaði um daginn og fleiri og fleiri. Veit ekki hvort það er orðið svona miklu algengara að fólk þurfi á hjálp að halda eða hvort ég er bara farin að taka meira eftir þessu.......

script type="text/javascript" src="http://www.haloscan.com/load.php?user=annakr"> << Til baka


Powered by Blogger