Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

25 desember 2003

Jólin eru yndislegur tími. Um það verður ekki deilt. Í dag er ég búin að liggja í rúminu og lesa Vinci Lykilinn sem við fengum í jólagjöf. Þegar ég gkláraði hana fór ég í bað og setti í baðið eina stóra baðkúlu. Úff ég gæti orðið húkkt á þessu. Af hverju hefur enginn sagt mér að þetta væri svona gott?????

Haukurinn er búinn að vera í burtu að þrífa bílinn. Já auðvitað eru það ekki störf sem allir mundu gera á jóladag en hann hefur gaman að því.. úff hann var að koma heim og honum fannst þetta ekki gaman haha mér fannst gaman að lesa, hver og einn verður að velja sína jólagleði.

Annars fengum við alveg rosalega fínar jólagjafir, verðum bara að vona að hinir hafi verið eins glaðir með það sem við völdum fyrir þau. Haukurinn gaf mér þessa svakalega fínu ART skó sem mig er búið að langa lengi í nú get ég bara hent öllum gömlu skónum sem eru löngu búnir að syngja sitt síðasta.

Og við fengum tvenn pör af rúmfötum. Ætli ættingjar okkar hafi séð hvað við höfum verið ósamstæð til þessa?? haha. Nú verður gaman að fara að sofa.

Annars eru þetta fyrstu jólin sem ég hefi ekki borðað rjúpur á aðfangadag. Svoldið skrítið en danski hamborgarahryggurinn var samt mjög góður. Á eftir förum við í mat til foreldra hauksins og morgun til foreldra minna. Mjög fínt.

Molinn stóð sig vel. Fékk fullt af pökkum en fattaði ekki alveg út hvað þeir gengu. Fékk hjálp við að opna einn og eftir það varð ekki aftur snúið, hann leit ekki við fleirum. Þetta var svona hávaðatæki og fleiri fylgdu í kjölfarið. Amingja systir mín að eiga eftir að hlusta á þetta í marga mánuði haha

Jólasveinninn heimsótti mig tvisvar fyrir jólinn, annaðskiptið bægslaðist hann gegnum íbúðina til að finna skó í gluggann en hitt skiptið lét hann mig hafa fyrir því að fatta að hann hefði komið. Hann bætti nefnilega svörtum gullfiski í fiskabúrið með kynjafiskunum mínum. Ég var í sakleysi mínu að gefa fiskunum þegar ég tók allt í einu eftir því að grái fiskurinn var svartur þegar maður leit á hann af vissum stað í búrinu. Og ekki nóg með það heldur voru augun í honum útstæð. Mjöööög skrítið. það tók mig smá stund að fatta að þetta var ekki grái fiskurinn heldur var þarna um nýjan, kolsvartan að ræða. Ég þakka jólasveininum hér með kærlega fyrir mig.

Af öðrum ólöstuðum vil ég líka nota tækifærið og þakka foreldrum mínum sérstaklega vel fyrir mig (okkur). Þau koma alltaf á óvart og sáu til þess núna að svoleiðis verður það áfram. Ég vona að ég móðgi ekki neinn þó ég segist eiga bestu foreldra í heimi.

24 desember 2003

Gleðileg Jól

Laugavegur á Þorláksmessu
Ég er aftur komin að byrjuninni. Nefnilega Þorláksmessugöngu okkar vinkvennanna. Það var búið að vara okkur við aftakaveðri en við létum það ekki á okkur fá. Settum upp húfur og fórum í vettlinga (ég var í þessum eistnesku sem ég keypti í 30 stiga hita í Tallin). Kveiktum á eyrnalokkunum og vorum til í slaginn.

Það var ekki margt fólk á Laugaveginum en það var gaman ;)) Við fórum í búð eftir búð og skoðuðum jóladót en leigubílstjórinn er sérfræðingur í svona búðum. Veit hvar allt besta stuffið fæst. Það meira segja endaði með því að ég keypti einn kall á tréð mitt. þetta er jólasveinn sem bara er klæddur í skó og húfu. Heitir Nice and Naugty. Hann er ægilega flottur og sómir sér vel á trénu ;))

Önnur okkar keypti sér líka Húfu sem hlær og báðar keyptum við eyrnalokka sem glerlistakona býr til. Þeir eru með mynd af maju og meinvill saman. Ægilega flottir. Eitt kerti var líka keypt í einhverri búð sem angaði af jólalykt. Ég keypti jólalyktina!!

Það var kalt en gaman ;) Svo voru tenorar að syngja í Bankastrætinu. Við stoppuðum smástund og föttuðum þar hvað þarf að gera til að verða gjaldgengur í tenórafélagið: Það er sko ekki að syngja í tenór (þó það sé eflaust ágætt líka). Nei það er sko allt annað. nefnilega tenórHÁRGREIÐSLAN!!!

Aha, þeir eru allir með eins greiðslu. Eitthvað svona skipt og greitt til vinstri, með óákveðnum sveip. Ætli það sé til stofa sem sérhæfir sig í tenóraklippingu?

Þorláksmessa: framhald
eftir ævintýrið í pósthúsinu brunuðum við á mínum fjallabíl í Hafnarfjörðinn þar sem Árni og María voru í heimsókn með Andreu Marín. Molinn varð dauðfeiminn og vildi bara sitja og lesa bók (með mér) en við settum diskinn hans í dvd spilarann og eftir að hafa horft smástund á myndina þá vippaði hans sér út á mitt gólf og tók til við að dansa. Þetta vakti fögnuð hjá gestum okkar en við haukurinn erum svo illa innrætt að við hlæjum í hvert einasta sinn sem greyið byrjar að dansa. Hann stendur á miðju gólfi og grípur með höndunum einhversstaðar nálægt eyrunum, beygir sig í hnjánum og lyftir rassinum upp og niður. Reglulega lítur hann í kringum sig til að sjá hvort við séum ekki að dansa líka og þá er sko eins gott að vera á hreyfingu.

Þaðan fórum við í heitt hangikjöt til foreldranna. Ég var á þessum tímapunkti orðin svoldið sein og vissi að leigubílstjórinn yrði orðin all óþolinmóð. Ég set því í fluggírinn og bruna niður í bæ. Finn stæði við Iðnskólann og er bara nokkuð sæl með mig þangað til ég teygi hendina í baksætið eftir töskunni minni. Ég starði lengi og lengur en það. Það var nefnilega barnabílstóll í sætinu.

OH MÆ GOD ég gleymdi að taka stól molans úr bílnum. Ég fékk hálfgert tilfelli og fálmaði eftir símanum en hann var ekki með í för. OH MÆ GOD þarf ég þá að keyra aftur upp í Breiðholt????

Ég hljóp í búðina til leigubílstjórans og sagði mínar farir ekki góðar. Ég væri loks komin, en með bílstólinn og molinn ætti eftir að komast heim. Ég mundi auðvitað ekki númerið hjá minni kæri systur svo ég hringdi í pabba. Þá var hann í hálfgerðu móðursýkiskasti því hann hafði auðvitað fattað þetta með stólinn. Var búinn að hringja og hringja en fékk bara talhólf.

En þetta reddaðist allt því systirin var enn í bænum og gat rennt við og bjargað stólnum og ÞÁ loksins gátum við farið að labba Laugaveginn

Þorláksmessa: pósthúsið
Á Þorláksmessu förum við leigubílstjórinn vinkona mín alltaf í bæinn. Gærkvöldið varð engin undantekning á því. Þetta byrjaði að vísu heldur skuggalega því ég hafði tekið Molann heim með mér klukkan 15.30 um daginn. Við fórum í pósthúsið að reyna að ná út jólagjöfinni hans frá mafíósafjölskyldunni hans. Gjöfin var auðvitað stíluð á ástkæra móður hans en ég ákvað að láta á það reyna því ég taldi hæpið að hún hefði tíma í dag.

Kellurnar á pósthúsinu þurftu að leita heillengi að pakkanum og á meðan átti ég að kvitta. Ég reyndi að segja þeim að ég væri ekki systir mín en þær hlustuðu ekki. Þegar loksins pakkinn fannst greip stúlkukindin kvittunina sem ég hafði undirritað af samviskusemi og lét þessi gullvægu orð falla?
„Hah??? Heitir þú líka Anna Kristín??"

Pakkinn var sem sagt stílaður á Guðrúnu og hún hélt að téð Guðrún héti því Anna kristín líka. GOSH ég þorði ekki einu sinni að hlæja af ótta við að hún yrði fúl, því ég varð að hafa hana góða til að fá pakkann sem hún nú neitaði að afhenda af því ég heiti ekki Guðrún líka. Ég reyndi að höfða til samúðarinnar og benti á molann sem sat í kerrunni og starði risastórum dökkbrúnum augum á það sem fyrir var. „Þetta eru bara jólagjafirnar hans"

Hún fékk ráð frá eldri konu sem stundi þunglega þegar hún leit á molann. Það er ljótt hjá manni að spila svona á þessar taugar hjá afgreiðslufólki en pakkann fékk ég með þeim orðum: „Ekki ætla ég að skemma jólin fyrir barninu". Sem sagt ég þakka konunum aftur fyrir ;)))

Sprautufíkill
Ég gæti aldrei orðið sprautufíkill. Ég er nefnilega skelfilega hrædd við sprautur. Og það að þurfa að blanda einhverju saman gefur mér svona skelfingartilfinningu. Í nótt dreymdi mig að ég var að blanda saman efnum í alla nótt og ég fékk far í vinnuna með í þróttakonu frá landi dauðans. Hún keyrði um allt með stóran hátalara sem hún setti á rúðuna fyrir framan mig og gargaði alltaf reglulega í hann. Tölvudeildin reyndi að hjálpa mér að blanda efnin, alltaf tilbúnir að hjálpa þessar elskur.

Í morgun byrjaði ég sem sagt á því að hrista af mér þennan ömurlega draum og fór síðan í að undirbúa sprautu. Ég ætla rétt að vona að uppgefinn skammtur sé heldur hærri en það sem þarf því þegar ég var búin að draga 20 sinnum upp í nálina og skila jafnharðan aftur lét ég loksins vaða. Þorði ekki öðru en sprauta dropa fyrst og af því ég er að verða svo gömul og skjálfhent þá djöflaðist ég svo á nálinni að dropinn varð miklu meira en dropi. Þá var ég hinsvegar orðið svo pirruð að ég lét það bara fara sem var tilbúið, sem sagt heldur minna en uppgefinn skammtur.

Ferlið er því offisíal byrjað aftur. Verður spennandi að sjá hvernig gengur ;)

23 desember 2003

Í gær skreyttum við svo jólatréð og pökkuðum inn. Mikið stuð, mikið gaman. Á jólunum sjálfum ætla ég síðan að liggja í leti. Öll jólin (nema þessa daga milli jóla og nýárs þegar ég þarf að vinna). Ég þarf að vísu að vakna fyrir allar aldir því spraututíminn er alltaf á morgnana á sama tíma. En ég get bara skriðið upp í aftur þegar sprautun er búin ;)

Ég ætla líka að nota jólin til að læra á nýju myndavélina hauksins. Það gengur ekki að ég skuli ekki kunna að nota hana. Hann keypti hana í október og ég hef passað mig á að líta ekki á bæklinginn. Ég var svo hrædd um að ef ég myndi rétt gjóa á hann augunum þá yrði ég húkkt og myndi ekki læra neitt meira. Eflaust verið rétt hjá mér því síðustu daga er mig búið að klæja í puttana að fara að fikta í þessu.

Ætla að mynda fyrstu jól molans á morgun. Faktiskt séð eru þetta auðvitað önnur jólin, en í fyrra lá hann bara kyrr og æfði brosið. Núna ætti hann að geta opnað tvo þrjá pakka. Mikið stuð reikna ég með ;)) Ég ætla samt að vona að það verði engir boltar nálægt. Ég er nefnilega að hugsa um að vera í kjól, svona típískum jólasíðkjól og þá er bara ekki sniðug hugmynd að hlaupa um allt með tunguna lafandi. Þess vegna ætla ég að vera bara á myndavélinni.

Smjörið í skápnum
Þá er komið að því sem ég er búin að bíða eftir lengi. Í mörg ár hef ég stundað það að setja hluti á vitlausa staði: Opnað ísskápinn fyrir brauðið, á leið með mjólkina í skápinn frammi á gangi o.s.frv. Alltaf hef ég hins vegar fattað það í tíma og hef getað hætt við og sett hlutinn á sinn stað. Áðan fékk ég hinsvegar skilaboð frá manninum sem ég bý með:
„Af hverju er smjörið í efri skápnum?"

Hva? Hvernig á ég að vita það? Örugglega jólasveinninn sem hefur sett það þar. þessi sami og gaf mér Dracula í skóinn. Jólasveinar vita nefnilega ekki hvar hlutirnir eiga að vera hjá fólki.

22 desember 2003

Að léttast
Ég fann það út um helgina að ef ég á eftir að léttast þá verður það með góðri hjálp Gullmolans. Ég hitti hann aðeins á laugardagskvöldið og aftur í gærkvöldi. Bæði kvöldin lét hann mig hlaupa eftir bolta þangað til tungan lafði út úr mér í bókstaflegri merkingu. Hann skemmti sér konunglega, skrækti og hló til skiptist, ég var hinsvegar orðvana aldrei slíku vant því ég kom eigi upp orði fyrir mæði. Á endanum faldi ég boltann!

Að fá í skóinn
Ég komst að því um helgina að ég er búin að vera alveg hrikalega góð. Alveg hrikalega, rosalega góð meira að segja. Jólasveinninn kom nefnilega og gaf mér í skóinn. Jahá, hann gerði það. Og ég sem var löngu hætt að setja minn út í glugga. Greyið hefur þurft að bægslast í gegnum íbúðina og ná í skó því enginn var í glugganum. Segið svo að ég hafi ekki verið góð. Jólasveinninn gerir þetta nú ekki nema fyrir þá allra bestu. Og svo gaf hann mér DVD mynd. Dracula Bram Stokers. Mér finnst þetta góður jólasveinn. Ég meira segja ákvað að prufa að skilja skóinn eftir í glugganum svo hann þyrfti ekki að leita þegar hann kæmi næst!

21 desember 2003

Jólaeyrnalokkar
Á schiphol keypti ég alveg brilliant jólaeyrnalokka. Þetta er haus á snjókarli með græna jólahöfu. Stórir og feitir lokkar. Það sem er þó allra best er að það er hægt að láta lokkana blikka rauðu blikki. Ekkert smájólalegt.

Gullmolinn hefur vanist því frá því hann var í vöggu að maður tekur ekki í eyrnalokka Önnu frænku. Maður bara dáist að þeim úr fjarlægð. Hann hefur átt auðvelt með þetta, þangað til núna. Núna fara hendurnar af stað eins og alveg óvart og nálgast lokkana. Og ég verð að kveikja með reglulegu millibili svo hann geti dást að þeim.

Í gærkvöldi kíktum við aðeins á Andreu hina nýskírðu. Hún sá lokkana eins og skot og þegar ég kveikti á þeim kom á hana ákveðnissvipur og hendurnar tókust á loft. markmiðið var greinilega að ná þessu flotta blikkandi dóti. Á tímabili var eins ég hefði dáleitt hana. Hún sat og mændi á lokkana sem áfram blikkuðu út í eitt. Á endanum var þetta orðin svo mikil freisting að ég tók þá úr. Það var eins og við manninn mælt, hún missti á mér allan áhuga.


Powered by Blogger