Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

07 nóvember 2003

það er nú meira fúlviðrið úti. Við Armour vorum svo sykurskertar að við lögðum á okkur hlaup í rigningunni og alla leið í Bónus þar sem starfsmaður leiddi okkur í allan sannleika um það hversu góð kaup væru í mars eða snickers. Við ákváðum strax að kaupa ekki solleis því það væri örugglega að renna út á tíma. Hann (starfsmaðurinn tók sér þá dágóðan tíma til að lesa á fullt af stykkjum til að sýna okkur hversu rangt við hefðum fyrir okkur. Eiginlega höfðum við rétt fyrir okkur, sum renna út eftir mánuð. En þá má svo sem líta á það þannig að við ætluðum að eta það í dag (á eftir) en ekki eftir mánuð, so..en ég ákvað að kaupa frekar staur.

Ég er búin að vera að skemmta mér yfir mismunandi draslaragangi hér í deildinni hjá okkur. Borðið mitt er eins og það hafi orðið fyrir loftárás og það er alveg sama hvað ég geri til að reyna að laga það, það fer alltaf í sama form 5 mín síðar. Þetta er gjörsamlega óþolandi.

VIÞ samstarfsmaður minn er ekki með svona sjálfdraslerandi borð. Nei aldeilis ekki. Hans er alltaf alveg gríðarlega snyrtilegt og ég hef stundum verið að hugsa um að setjast frekar við hans borð (það er þegar mér ofbýður sjálfri draslið). Það sem kom mér til að hlæja var að í gær flýtti hann sér heim eða þannig. Konan sem skúrar kom meðan ég var enn að leita að einni týndri milljón í gögnunum mínum og hún ákvað að skúra þó við værum þarna (sem er hið besta mál auðvitað). Hún kallar til mín: „Var VIÞ að flýta sér eitthvað heim í dag?"

Ég fylltist þessum spenningi sem maður finnur til þegar maður fattar að samstarfsmennirnir eru ekkert skárri en maður sjálfur og inn í mér þá ljómaði ég af gleði yfir því að hann skyldi skilja eftir drasl. Ég kalla á móti: „ Ha, afhverju spyrðu? Er drasl hjá honum?" Uss það hlakkaði í mér, en ekki þegar svarið kom:
„Já það er TALA á reiknivélinni hans!"

Halló halló, þó það væri kveikt á minni reiknivél þá sæi konan ekki muninn. Hún sæi ekki einu sinni muninn þó ég færði bunkana til á borðinu. Hvert er réttlætið í svona?

Mikið aldeilis verð ég glöð þegar þessari viku lýkur. Hún er búin að vera vinnusöm í meira lagi (það er að segja ég hef verið vinnusöm ekki vikan). Hún er enn ekki búin. Ég varð meira að segja að fresta klippingunni minni og verð því orðin eins og lukkutröll að þremur vikum liðnum en þá er fyrsti tíminn sem ég og klipparinn áttum lausan tíma á sama degi (ekki dugir að bara önnur okkar sé laus).

Ég fer því til Hollands með lubba mikinn á höfðinu (rægt). Í kvöld ætla ég samt að slappa af og ekki læra og ekki vinna. Ég hef að vísu ekki lært neitt þessa viku því ég hef ekki haft tíma vegna gegndarlausrar vinnu. Hef setið með verkefni í fanginu að reyna að horfa á þat 70tís sjov og Andy Richter rúles the world en það eru þeir tveir þættir sem við kornin reynum að missa ekki af.

Í kvöld er nornakvöld í Keflavíkinni. Og nú vil ég fá góðar fréttir á þessu nornakvöldi, góðan galdur. Ég er orðin þreytt á þessum eilífðar ræðum um þolinmæði og vinnan göfgar manninn kjaftæði (enda er ég kona). Nú vil ég fá spádóm sem segir að ég sé að dúxa í skólanum, dúxa í vinnunni, peningamálin séu að lagast, nýtt hús í sjónmáli og að það streymi til mín börn (alla vega eitt). Finnst ykkur til of mikils mælst?

Ætti kannsi að taka með mér galdrabókina og leggja einn seið? Þá kannski kemur eitthvað af þessu öllu til mín (stuna). Annars er það fyndið að allir spádómar sem nornahópurinn hefur verið með síðustu mánuði er það sama; verið þolinmóð, elskið náungann, einhver rætin manneskja er að tala illa um þig og svo framvegis. Ég vil ekki fá meira svoleiðis. Bara alls ekki.

06 nóvember 2003

Brenna? Brenna hvað? Eftir að ég hef opnað bókaheimili mitt fyrir gullmola systurinnar minnar og eytt löngum stundum við að lesa fyrir hann úr bókum sem innihalda engin orð heldur eingöngu myndir tekur hún svona til orða:
Já ég er einmitt að safna í þessa fínu áramótabrennu

Þetta hefði nú flokkast undir ósvífni á mínu breiðholska heimili hér áður fyrr. Ég bara spyr, hvernig á ég að lesa fyrir Molann og kynna hann fyrir undrum bókanna (án orða að vísu) ef mamma hans er búin að brenna bækurnar mínar í áramótabrennu í Grafarvoginum. Ég bara spyr, er þetta einhver uppákoma sem fólki verður boðið á? HUH

Árni meira segja rís upp af doðanum í Danmörkinni:
Erum við ekki frekar að tala um svartholsstærð á ruslapokum ef allar eiga að komast fyir
Hann vitnar í svartholskenningar máli sínu til stuðnings, eins gott að kaoskenningin sé bara ekki dregin upp líka. Mér er stórlega misboðið, það liggur við að ég verði að fara í bæinn og kaupa mér eina bók mér til huggunar!

Annars get ég glatt ykkur bókaormar með því að ég hef hugsað mér að ánafna bækurnar mínar þegar ég dey....bara ekki til ykkar! Þið missið af miklu. Anna Ræs og Stebbi King, í góðum félagsskap Denna Koonts og kellermans og fleiri. Hugsið ykkur að þið hafið komist á ykkar aldur og þið vitið ekki hvert þetta eðalfólk er!

Fólk getur orðið æst yfir minna en 4cm. Þetta getur skipt sköpum í lífi fólks sem vantar þessa 4cm. Spáið bara í því, margur kallmaurinn mundi þiggja 4cm haha ég er dóni

Auður segir:
Já, nú er Hitler uppi í hillu hjá mér. Þið spöruðuð þó eina 4 cm í hilluplássi með að losa ykkur við hana :o)
Ekki bara það heldur skánaði andleg líðan mín um miklu meira en 4cm við að losna við hana af náttborði hauksins. Og ég hætti að tala þýsku aftur, bara sisona, þurfti ekki meira til.

Hrönn segir mig frekju en það er alls ekki rétt, ég er bara mjög ákveðin:
Hann vill hafa eina bók (ca 4 cm)en má það ekki.Meinvill er með 13,5 og þarf þá alla.
Já, en þessir metrar voru keyptir og sérmældir fyrir mig, hvað á ég að gera ef hann vill fara að ganga í nærfötunum mínum? Eða því sem verra er, ef hann vill fara að ganga í skónum mínum? Á ég þá bara að fara og þvo eðalundirfatnaðinn minn og bursta skóna? Nei, hingað og ekki lengra segi ég nú bara, maður verður að vita hvar línan liggur, ó já.

Hinsvegar þá sé ég að haukurinn heldur sig vera kominn með liðstyrk eftir að Auður og Hrönn fara að tala um þessa sentimetra sem hann missti af og er farinn að bjóða pokketana mína til minnar ástkæru systur:
Bíddu bara Gunna bækurnar gætu komið til þín einn daginn.
Þetta gengur sko alls ekki. Annars er systir mín sérstakur bókavinur og ég þarf kannski ekki að hafa áhyggjur. Þetta er samt ákveðið áhyggjuefni þetta með að senda bækurnar að heiman.

Einu sinni fyrir langa, langa löngu var bróðir minn sænski nýbúinn lítill. hann átti þvílíkt eðalsafn af köstulum og hermönnum að sögur fóru ekki af öðru eins. Nú er þessi elska ekki mjög hrifinn af tiltekt og vildi hafa sína hermenn og kastala út um allt og helst uppstillt hvort sem hann var í því formi að leika með það eða ekki. Eftir að móðir hans (og mín) hafði margdottið um þessar gersemir hans, var ákveðið að núna skyldi þessu öllu pakkað í stóran svartan poka og þessu hent. hann mótmælti, æpti og veinaði en ekkert gekk, ákvörðun hafði verið tekin.

Hann bað um að eiga eina stund með gersemunum sínum í friði og það var auðvitað látið eftir honum, maður verður nefnilega að fá að kveðja dótið sitt ef þannig stendur á. Nema til að gera langa sögu stutta, þá hvarf dótið eftir hans einkastund og hann sagðist hafa „losað" sig við það.

Móðir hans (og mín) var mjög ánægð og stolt af sínum syni fyrir að geta sjálfur losað sig við þetta. Nú bar svo við að ástkæt móðursystir hans (og mín) bjó í Ópavogi með sinni familíu. Hann sem aldrei áður hafði sótt í að heimsækja hana, fór nú að fara mjög títt þangað og lagði á sig langar ferðir í strætó úr Breiðholtinu. Á Breiðholtsheimilinu spáði enginn neitt í þessu fyrr en öskur barst úr Ópavoginum:
Hvaðan kemur allt þetta dót? Allir þessir litlu kallar út um allt?

Já mikið rétt. Í stað þess að losa sig við dótið, bar hann það heim til okkar ástkæru móðursystur og bað hana að geyma það því lítið pláss væri heima hjá honum og líka langaði strákana, frændurna, að leika með þetta, kannski?

Þetta er sem sagt þekkt brella í mínum heimahögum að færa dótið annað. Ég minni bara á árlegan tiltektardag á vinnustað mínum er ég bar allt dótið (draslið) út í Lödubíl mínn meðan æðið gekk yfir og inn aftur viku síðar!

05 nóvember 2003

Hrönn spyr:
Ég spyr í minni fáfræði,er virkilega nauðsynlegt að hafa þetta allt til taks.

Svarið er stutt og laggott.
Hinsvegar skal það viðurkennast að við hjónaleysin erum ekki alveg sammála um gagnsemin. Ég held að honum finnst þetta alveg ónauðsynlegt og sjái ekki að það verði okkur til bjargar að hafa sett Önnu Ræs á vísan stað þannig að hægt sé að fletta upp hvað eigi að gera ef vampýra bankar upp á hjá okkur. En ég segi nú bara: "Hvað ef þessi stund rynni upp og við hefðum engar vísbendingar?"

Úff það væri erfitt mál. Hinsvegar skal ég koma með játningu hér sem ekki má fara lenga. Í vor fékk haukurinn gefins bók sem upp hófs mikil rimma yfir. Ég bókavinurinn vildi henda bókinni. Hann lítill bókaunnandi vildi halda bókinni sem sérstöku fágæti. Sem þetta auðvitað var.

Bókin umrædda var um Hitler og ævi hans. Skrifuð árið 1942 eða 3 og með þessu óumræðinlega leiðinlega málfari sem þá tíðkasðist. Allt að því mærðarlegu. Ég gluggaði í bókina og eftir augnablik var mér fullorðinni konunni farið að líða eins og 16 ára nýnasista, farinn að slá upp hendinni í tíma og ótíma og öskra HEIL (alltaf þegar haukurinn gekk framhjá). Þetta gekk svo langt að ég var farin að tala þýsku í draumum mínum.

Ég henti bókinni. hann tók hana upp úr ruslinu. Henti henni aftur. Tók hana upp aftur. Hörð orðaskipti og bókin fór til mágsins listmálarans sem hendir ekki slíku fágæti og kann að meta hana!

Pokkettar og sálarlífið
Meira um bækur. Þetta er nú eftir allt saman mitt uppáhalds efni ;)

Málið er að í sumar voru þessir blessaðir pokkettar farnir að reyna ískyggilega mikið að yfirtaka heimilið. Úr fjarlægð virtist þetta vera vinsamleg yfirtaka en í reynd var hún nokkuð fjandsamleg þar sem ekki var lengur pláss fyrir okkur hjúin og fiskarnir voru að verða hungurmorða því það voru bækur ofan á lokinu og allt í kringum búrið þannig að ég var nærri búin að gleyma að ég ætti fiska. Það var ekki fyrr en ég heyrði aumkunarlegt "spasl, spasl" að ég áttaði mig á því að þeir voru að reyna að kalla á hjálp með því kasta til sporðunum í hvert sinn sem skugga bar yfir (meinvill á ferð, eflaust á leið í eldhúsið).

Nú voru góð ráð og dýr. Wow er þetta virkilega sagt svona? Þetta voru ekki dýr ráð, en heldur ekki ódýr. hmmm..æi höfum þetta svona meðan við klárum þessa sögu. Sem sagt fiskakvalirnar æptu á hjálp (þetta var eftir að systir mín elskuleg fækkaði þeim um einn meðan hún passaði þá í viku), bækur um allt, haukurinn orðinn þungur á brún og ég var farin að sjá verkfærakassann! Mig grunaði strax að það ætti að saga í sundur bækur eða negla þær saman eða eitthvað sem kallar gera með tækjunum sínum (ég kann ekki á svona tæki) svo nú var um að gera að vera fljót að hugsa (sem ég er æði oft).

Ég ákvað að grisja í bókunum, taka þessar leiðinlegu og annaðhvort henda þeim eða gefa þær bókasafninu. Þær reyndust vera fjórar!

Damn, damn ekki dugði þetta. Ég fór því og skoðaði yfir bækurnar og reyndi að átta mig á því um hvað þetta snérist. Og þá rann upp fyrir mér hryllilegur sannleikur (fattarinn er seinn eins og þið vitið), nefnilega innihald bókanna minna.

90% þessara bóka eru um vampýrur, lifandi dauða eða seríal killers. ÚFFFFFFF
Hvað segir þetta um mig? Er ég snar snældu biluð? Ef ég byggi ein í þorpinu, þá væri ég örugglega skrítna kellan sem fer út eftir myrkur að leita að sjálfdauðum svörtum ketti í kirkjugarðinum. Og þegar ég kæmi heim mundi ég setja eina kló af honum í pottinn með köngulónum og froskalöppunum og búa til seyði. Eftir sólarlag læddust til mín ungar konur sem vantaði ástardrykki til að tæla til sín unga menn (ég gef mér það að viagra sé ekki til þarna) og börn færu inn til sín ef þau sæu mig eða hlypu hinum megin við götuna. Ungir karlar kæmu ekki til mín því þeir trúa ekki á svona, þeir mundu senda systur sínar.

Ó mæ god, sem sagt snældu snar biluð. Heppin er ég að það skuli vera nornafundur á föstudagskvöld í keflavík!

ps. Ég ákvað að fara með þessar fjórar sem voru leiðinlegar niður í geymslu og haukurinn setti upp auka hillur fyrir hinar, verkfærakassinn var til þess. Það er ekki gott að hafa of frjótt ímyndunarafl!

04 nóvember 2003

Hrönn spyr í uppnámi:
Ég get svarið það, eru til pokkettar á 13,5 metra á heimilinu.

Égverð eiginlega að svara þessu. Já auðvitað eru til svo margir metrar. Þegar við fluttum saman fyrir örófi alda uppgötaðist að mínar veraldlegar eignir samanstóðu einna helst af bókum. Eftir miklar samningaumræður um hvaða bækur yrðu lífsnauðsynlega að vera í hillum (allar) og hverjar gætu farið í kassa í geymsluna (engin) þá fór haukurinn í þennan forláta verkfærakassa (sem aldrei lenti í umræðunni hvort mætu vera í íbúðinni eða lentu í geymslu huh) og náði í málband (eða tommustokk).

Hann raðaði nokkrum bókum upp í einfalda röð (tæmdi einn kassa) tók síðan þetta fína málband og mældi bókaröðina. Síðan taldi hann kassana og margfaldaði þetta sem hann hafði mælt. Svona fékk hann út að það vantaði 13,5 metra af hilluefni fyrir pokkettana mína. „Og heldur þú virkilega að það sé nauðsynlegt?"

Ég hafði starað á þessar aðfarir í forundran, verandi ekki mjög tæknilega sinnuð, og tókst nú á loft: „Bækurnar mína verða þar sem ég verð"

Mjög dramatískt en það virkaði og hann keypti þessa metra alla. Að vísu með því loforði að ekki yrðu keyptar fleiri bækur, aldrei, ekki einu sinni ein. Ég stóð þetta loforð alveg til jóla en þá fór fólk (sem ekki vissi af þessu öllu) að gefa mér jólagjafir. Og hvað var í öllum litlu ferköntuðu pökkunum mínum?

Ó jú, nefnilega fleiri pokketar. Þetta varð til þess að allt í einu voru komnar umframbækur og þá sá ég mér færi á að bæta nokkrum við, ekki mjög mörgum, bara nokkrum. En nú vantar okkur metra. Nokkra. Bara nokkra.

Ég er meira að segja búin að fara með nokkrar bækur niður í geymslu en tók þær að vísu upp aftur þegar ég fattaði að það væri svo langt síðan ég hafði lesið þær!

03 nóvember 2003

Ég er enn að spá í öllum þessum bókum um ævi fólks sem enn er á besta aldri. Það segja mér fróðari menn að þessar bækur rjúki út og mikið sé spurt um þær bækur sem enn eru ekki komnar út. Það er gott og blessað, gott að einhverjir skuli græða á ævi annarra. Mig langar hins vegar að vita hvað fólk gerir við þessar bækur þegar það er búið að lesa þær? Ég meina, les einhver svona bók tvisvar? Og hvað gerir maður þá við hana þegar maður er búinn með hana? Hendir maður henni eins og Séð og Heyrt?

Eini sinni var verið að gera grín að fólki sem vildi vera fínt en hafði lítið vit á bókum. Vildi samt sýnast menningarlega sinnað og fór þá og keypti einn eða tvo metra af Laxness. Ég trúi því ekki að einhver vilji eiga einn eða tvo metra af ævi núlifandi Íslendinga í stofunni sinni? Ein Linda Pé, ein Rut, ein Hlín, einn Þráinn og svo framvegis þar til kominn er heill metri. Svo þegar manni leiðist stendur mar fyrir framan hilluna og tautar „hmmmm, mér leiðist, best ég lesi Lindu eða Þráinn og sjái hvort mér líður ekki bara betur".

Eða er tilgangurinn einhver allt annar? Kannski bara að velta sér upp úr gamla góða náunganum? í vinnunni hjá mér keppast allir við að lesa Hlín. Þetta eru aðalumræðurnar dag eftir dag í hádeginu. Meira segja ég er farin að taka þátt í þeim þó ég hafi ekki lesið bókina og hafi ekki nokkurn áhuga á henni. Ég get nefnilega lagt orð í belg með því að segja á réttum stöðum „jamm, alveg týpískt fyrir þetta syndróm eða hitt"

En mig langar í Harry Potter. Samt finnst mér potterinn barnalega skrifaður og allt það, en hugmyndin er bara svo grand og einföld að ég get ekki annað en lesið þetta. Mig langar líka í fallegu beinin mín eða hvað hún nú heitir bókin um stúlkuna sem var drepin og horfir á morðingja sinn frá himnum. Þetta eru bókmenntir sem ég vil hafa í stofunni minni. Þær komast að vísu ekki fyrir á 13,5 metrunum sem haukurinn keypti fyrir mig til að geyma pokketta á, en það má lengi stafla við rúmið!

Hljómsveitin hans Einsa:
hann er á gítarnum, Gunnsan syngur og Meinvill sjálfur trommar:

02 nóvember 2003

Annars fór ég í gær og kíkti aðeins á SM og Jólin.... úuuuuu hvað hún er að selja flott dót, úuuuu hvað mig langaði í margt fallegt hjá henni ;) Ég stoppaði að vísu ekki lengi því ég hafði molann með mér og hann er svo ansi þungur að ekki þýðir að vera lengi. En ég náði að skanna það helsta á neðri hæðinni, lagði ekki í efri hæðina því fjandans bakið þolir ekki að bera molann upp marga stig ;) Þar greinilega að gera mér aðra ferð.

Ég fékk hláturskast í rúminu áðan. Reynda bæla það niður en það var alveg ómögulegt. Haukurinn vaknaði upp með andfælum og var svona á svipinn eins og eitthvað stórvægilegt hefði komið fyrir. Hann hélt ég væri að gráta en ekki hlæja. Á endanum gafst ég upp við að útskýra mál mitt og fór fram til að hlæja þar í friði.

Og hvað er svona fyndið fyrir 8 á sunnudagsmorgni? Jú molinn er hjá okkur og vaknaði og rak upp eitthvað aumkunarvein klukkan 5.30 og teygði hendurnar svo biðjandi til mín að gamla frænkuhjartað gaf sig og ég kippti honum upp í. Dró svo rúmi hans alveg að okkar svo hann félli ekki fram úr. Þetta gekk vel, nema einu sinni rak hann upp eitthvað reiðiöskur og þegar ég tékkaði hvað gengi á þá lafði önnur löppin og önnur hendin á milli rúmanna tveggja og hann var fastur. Það var hinsvegar ekki nóg til að ég fengi hláturskast.

Nei það kom nokkru seinna þegar hann var búinn að sparka í mig svona 50 sinnum, og nota mig sem stuðpúða til að spyrna í þess á milli. Á endanum spyrnti hann svo fast að hann hvarf mér sjónum hehehe Hann seig á milli rúmanna og þetta gerðist svo hægt að ég náði að kippa honum upp aftur áður en hann náði gólfinu. Og það fynda var að krakkaskömmin rumskaði ekki einu sinni. Honum líður greinlega ekki illa hehe


Powered by Blogger