Meinvill í myrkrunum

...and all of the angels..

05 september 2003

Læknar!
Ég er að spá í það hvernig fólk fer að sem er illa veikt. Kemst það alltaf til lækna þegar það þarf á að halda? Ég er bara ekki að ná þessu. Þegar ég panta tíma hjá lækni þarf ég yfirleitt að bíða í mánuð eða lengur. Núna var ég að panta tíma út af einhverjum smá áhyggjum sem ég hef og fyrsti tími sem er laus er 30. sept. en í dag er 5. sept. Þegar að þessu kemur verð ég annað hvort orðin illa taugaveikluð eða orðin frísk. Þetta er akkúrat ástæðan fyrir því að ég nenni ekki að fara til læknis oftar en ég geri. Þegar mar loksins kemst að þá er niðurstaðan oft á tíðum engin. Tekin einhver hallærisleg blóðprufa sem ekkert kemur út úr og mar borgar 3.500 krónur fyrir. Ég er bara ekki að ná þessu. Ég er svo sem ekkert að ætlast til að mar komist að daginn eftir að mar pantar, en komm onn, mánuði seinna? Mér finnst það hryllilega langur tími.

Núna er ég í svona pirringsskapi. Það er ekki nóg með að þurfa alltaf að bíða eftir þessu öllu heldur segir fólk að mar eigi bara að vera rólegur, "það borgar sig ekekrt að vera að pirra sig". Mér finnst ég búin að vera nokkuð róleg í þessu fjandans ferli sem er nú búið að taka Þrjú ár og engin niðurstaða komin. Eina sem er búið að koma út úr þessu öllu er að ég veit núna að það er "eðlilegt" að bíða eftir tíma hjá þessum eða hinum og alltaf ný röð og alltaf aftast í röðinni.

Snemma snemma snemma
Úff í dag var ég mætt í vinnuna klukkan átta. Ó já það er af sem áður var þegar mar gat leyft sér það kæruleysi að mæta klukkan hálfníu. Nú er skólinn byrjaður og þar sem ég hætti fyrr tvo daga þá ætla ég að reyna að vinna það upp með að mæta hálftíma fyrr á morgnana. Ussum suss, þetta er ókristilegur tími.

Missti af Einsa á MSN í gær. Hann er að skammst í gestabókinni (ok skammast er kannski aðeins orðum aukið). Við spjöllum nefnilega saman smá stund á hverjum degi alltaf á sama tíma en í gær var ég að vinna lengur og fór svo á Ruby Tuesday að hitta fjölmiðlafræðinginn. Við áttum þar smá kvalití tæm og ræddum landsins gagn og nauðsynjar og átum hamborgara með. Fékk mér gráðostaborgara, nammi namm.

Í kvöld er það svo alvara lífsins því nú tekur við bakstur fyrir stórafmælið á morgun. Gullmolinn á nefnilega fyrsta afmælisdaginn sinn á morgun. Það verður nú eitthvað stuð

04 september 2003

Rigning
Ég vaknaði í nótt við læti á svölunum. Leit á klukkuna og hún var 1.40 (bið ykkur að hafa í huga að það er erfitt fyrir hálfblindan einstakling að líta á klukku um miðja nótt). Ég lagðist niður aftur og beið eftir því að svefninn kæmi til mín aftur og hrifi mig á brott.
KLANG, KLANG
Hver fjandinn er á seyði?
O fjandinn þetta eru blómin mín á svölunum! Og í huga mér fór fram geypimikil orusta hvort ég ætti að skrönglast á fætur, finna brillurnar og leita að fötum í myrkrinu (þar sem þessi hljóð voru augljóslega ekki að trufla minn heittelskaða sem lá og hraut eins saklaust ungabarn). Ég tapaði orustunni og skakklappaðist á fætur og í peysu, barðist við svaladyrnar og reif þær að lokum opnar og skyggndist út. Blómadruslurnar allar á sínum stað. Það er að segja í pottunum og úti í horni. Hmm mig hefur verið að dreyma!
Um leið og ég skelli hurðinni heyri ég:
KLANG; KLANG
Ég út aftur og enn er allt í lagi, en sem ég stend í rigningunni og rokinu á brókinni (en í peysu) með brillurnar á nefinu þá sé ég tvær fötudruslur djöflast á svölum nágrannans!
Ég játaði mig sigraða og fór inn aftur, kunni ekki við að banka hjá þeim og biðja þau vinsamlega að taka þessar druslur af svölunum svo ég gæti sofið!
Ég er alltof kurteis!

Fyrsti búinn
...og ég enn á lífi. Veit hinsvegar ekki hvort ég verð enn á lífi er nær dregur áramótum. Til stendur gegndarlaus vinna í formi viðtala og skýrslna. Kennarinn segir "þetta er mikil vinna". Mín reynsla er sú að ef kennari segir þetta þá er um að ræða vinnu sem yfirkeyrir allt annað (smá hrollur).

Vinkona mín leigubílstjórinn er búinn að fá nýja vinnu. Til hamingju með það. Það þýðir nefnilega ekki að treysta neitt á það að fara í röð og þess háttar hér á landi. Hér dugir best að eiga frænda í ríkisstjórn og ef svo er ekki, þá er bara að tvennt um að ræða: berjast við kerfið eða gera eitthvað annað. Það er ekki hægt að berjast við vindmillurnar í mörg ár. Hinsvegar verða allir að prufa ;)

Úff þessi dagur ætlar að byrja með háfleygum athugasemdum, best að stoppa hér áður en ég kemst í ham út í kerfið og allt sem því fylgir. Er ekki viss um að það fari vel svona í morgunsárið....

03 september 2003

Skóladagar
Fyrsti skóladagurinn er í dag og mun ég byrja í Eigindlegum rannsóknaraðferðum sem hljómar rosalega spennandi (eða hvað)! Ráðgjafinn ætlar líka að fara í þetta þannig að við vinkonurnar erum aftur að byrja saman í skólanum, alla vega fram að jólum ;)

Ég er soldið fegin að vera að byrja í skólanum aðallega vegna þess að þá er haustið offisíal byrjað. Ég er búin að tönglast á því frá því í ágúst byrjun að núna sé haustið að koma og held að haukurinn sé að fá alveg nóg af mér og mínu hausti. Hins vegar verð ég að játa það leyndarmál að ég hef sjaldan lifað eins langan mánuð og síðasta ágústmánuð. Þetta voru bara eins og tveir til þrír mánuðir að lengd. Alltaf þegar ég sofnaði vonaði ég að þegar ég vaknaði yrðu þessi ósköp búin en það var ekki svo gott, það var alltaf ágúst þegar ég vaknaði morguninn eftir.

Fyrir mörgum árum átti vinkona mín í krýsu og einn daginn þegar ég hringdi í hana sagði hún fleyga setningu:
-"Þetta er lengsta ár sem ég hef lifað"
Það skal tekið fram að þá voru liðnir 4 dagar af því ágæta langa ári.
Svona er mér búið að líða í ágúst. Lengsti mánuður sem ég hef lifað en sem betur fer er hann búinn og september skólamánuður byrjaður.

02 september 2003

Meira um sjeríos
Ég verð að viðurkenna að ímyndunarafl mitt náði ekki alveg til ímyndunarafls Hrönnsu Spönnsu en þar sem ég er á sömu bylgjulengd og hún þá tengdi hún sig við mig með þessari setningu í gestabókinni OJOJ nú fór auglýsingin vel yfir strikið og hefur ekki neitt með augnablik morgunsins að gera. Og öllu verra að þetta skulu vera eintómir kallmenn sem eru að sýna þetta ógeð og annar þeirra guðsmaður (heilagur vandlætingarsvipur)!

Og varðandi þessa tvo eða þrjá sentímetra sem mig vantar upp á að verða 1,80 þá sagði kjólameistarinn að þetta yrði ekkert mál því við hefðum svo góðan tíma (mánuð). Fórum og skoðuðum efni í hádeginu (án meistarans) og ég fann ekki neitt. Enda veit ég svo sem hvernig kjól ég vil. Veit hinsvegar ekki hvort hann fellur undir þetta hugtak galakjóll. Þetta er eiginlega frekar svona kvöldverður í boði Addamsfjölskyldunnar kjóll. Held að addamsfólkið flokkist seint undir galalið þjóðfélagsins enda eru þau líka bara bíómynd. Yrði samt soldið fyndið að fara á svona fínt ball í kjól a la morticia addams tralalalal

Sjeríosógeðið
Ég veit að það eru flestir kvenbloggarar landsins búnir að koma með athugasemdir við nýju slef sjerios auglýsingarnar en ég ætla samt að skrifa líka. Fyrsta auglýsingin sem ég sá (og ég hélt að það væri sú eina) er af Audda í popptíví með munninn yfirfullann og lekandi mjólk úr munnvikjunum. Mjög lítið sjarmerandi auglýsing og eitt af því fyrsta sem ég sé á hverjum morgni. Það er nefnilega flennistór auglýsing með þessum ósköpum fyrir framan vinnuna hjá mér. Mér finnst Auddi voða sætur strákur en ef hann étur morgunmatinn sinn svona þá á hann aldrei eftir að finna einhverja konu til að borða með sér.

Í gær opnaði ég síðan Fréttablaðið mitt þegar ég kom heim úr vinnunni og þá er heilsíðu mynd af Séra Pálma með fullan munninn af sjéríos. OJ BARA. Hvað er að fólki? Og það stendur meira segja undir myndinn af Pálma, Sr Pálmi whateverson hann er, þannig að ekki fari á milli mála að hann er að gera þetta í krafti þess hver hann er. Veit ekki hvort eitthvað stendur undir myndinni af Audda því ég hef ekki haft geð í mér til þess að rýna í auglýsingaskiltið.

Mér finnst þessar auglýsingar ekki töff! Mér finnst þessar auglýsingar sjabbí, ósjarmerandi og lágkúrulegar og þar hafið þið það!

01 september 2003

Kjólameistarinn
Armour er búin að ráða kjólameistarann! Ekki nóg með það heldur er hún búin að stofna klúbb í kringum meistarann. Ég fæ að vera með! Armour er öflug þegar hún tekur sig til. Kjólameistarinn kom með fullt af hugmyndum um hvernig við yrðum sætastar á árshátíðinni. Hann misskildi okkur að vísu fyrst og hélt við vildum sauma eitthvað einfalt til að byrja með, eitthvað svona eins og pils eða skyrtu. Við komum honum fljótt í skilning um það að við værum ekkert fyrir svoleiðis, nei við vildum galakjóla!

Núna eigum við að bruna í búðir og skoða efni og bera við andlit og háls, sveifla ströngunum í kringum okkur af innlifun og finna rétta stílnum. Hann ætlar svo að bjarga því þannig að við lítum út fyrir að vera um 1,80 á hæð og með leggi dauðans!

Til að gæta fyllsta velsæmis verðum við fleiri í klúbbnum. ÓRÓ ætlar að vera með okkur og er hætt við að sauma jakkann sem hún stefndi að og ætlar að vera með í galadæminu! Virðulegur yfirmaður okkar var ekki eins viss um ágæti hugmyndarinnar og bað okkur að fara hljótt með hana. Þess vegna set ég hana á netið!

Systir mín ástkær er komin á fullt með nýju bloggsíðuna sína. Hún fer þar stórum orðum um stórskrítna fjölskyldu gullmolans og verð ég að viðurkenna að ég var alveg sammála henni um skritna aðstendendur þar til ég áttaði mig á því að "móðursystirin" er ÉG. Úps það runnu á mig tvær grímur (bæ þe vei hvernig renna á mann grímur??????? ég hef aldrei skilið þetta orðtak alveg) og vil meina að við séum öll alveg "normal".

Í dag mættum við armour alkæddar í svart. Þetta var alveg óundirbúið af okkar hálfu en lítur stórlega vel út (höldum við) af því viðhöfum heyrt hvíslað með virðingarótta á göngunum "the women in black" um leið og við brunum fram hjá.

Armour er að fara að hitta kjólameistara mikinn og fá hjá honum verðhugmynd varðandi saumaskap á galakjól fyrir frýrnar á komandi árshátið.

31 ágúst 2003

Nú er ég loksins komin á fullt með að skoða heimildir fyrir MA ritgerðina mína. Ég þarf nefnilega að vera tilbúin með rannsóknarspurningar á miðvikudaginn. Þetta er að mínu mati erfiðasti þátturinn við að skrifa ritgerð, þeas að finna spurningarnar sem ég ætla að reyna að svara. Get hins vegar ekki byrjað fyrr en ég er komin með grófa hugmynd. Forvitin kona eins og ég ætti ekki að vera í vandræðum með þennan hluta en þetta er samt eitthvað sem er alltaf að vefjast fyrir mér.

Annars er það helst af mér að frétta að ég fór og stóð við Bónus í Smáralindinni hálfan laugardaginn en ekkert gerðist. Hlýtur að vera eitthvað annað Bónus sem um er að ræða!

Frændur mínir skríplarnir tveir, Snorkurinn og Vélskólagaurinn, eru bara alltaf online. Hvernig er það þurfið þið ekkert að læra? haha Nú verð ég ekki vinsæl ;-)

Í dag er fokið í flest skjól; haukurinn situr og horfir á Brúðkaupsþáttinn Já. Hann er nefnilega að uppgötva að hann þekkir einhvern í hverjum þætti. Ég hef aldrei þekkt neinn, enda ekki að marka því ég horfi ekki á þáttinn. Mér finnst þetta hljóta að vera hámark leiðindanna á sunnudagseftirmiðdegi. Hefði kannski átt að bjóða honum eitthvað skemmtilegra? (mærðarlegt glott)

Þá er ástkær systir mín búin að fá sér bloggsíðu, það er nú aldeilis gott. Nú þurfum við systurnar ekki að símast á þar sem við munum bara lesa skrif hjá hvor annarri, gott mál!

Þau komu í mat í gær, gullmolinn og systirin. Hann var nett pirraður vegna flensu en tók gleði sína við að berja boxboltann aðeins. það verður að styrkja börnin!

Þar sem ég hef nákvæmlega ekkert að segja í augnablikinu (enda klukkan rétt rúmlega 9 að sunnudagsmorgni) ætla ég að lesa Fréttablaðið sem minn heittelskaði er loksins búinn að sleppa klónum af.


Powered by Blogger